spot_img
HomeFréttirBikarspá: Gylfi Þorkelsson

Bikarspá: Gylfi Þorkelsson

8:30

{mosimage}

Gylfi Þorkelsson hóf ferilinn í uppsveitum Suðurlands, hann fór seinna á flakk og lék m.a. með ÍR og Keflavík en fór svo aftur austur fyrir fjall og hefur verið einn af þeim sem hefur staðið á bakvið körfuboltastarfið á Selfossi, bæði með þjálfun og utanumhaldi, en auk þess með að skaffa leikmenn úr eigin ræktun.

Sjáum hvað Gylfi hefur að segja:

Stjarnan-KR

Það ætti ekki að þurfa mikla spádómsgáfu eða sérfræðiþekkingu til þess að geta sér til um úrslit þessa leiks. Það væri ekkert annað en stórskandall fyrir KR að tapa. Þeir eru með stjörnum prýtt lið, marga af bestu leikmönnum Íslands, og þó víðar væri leitað. Breiddin er gríðarleg, og mér er til efs að nokkurn tíma hafi annað eins sést í íslensku körfuboltaliði. Fyrstu fimm þarf auðvitað ekki að ræða um, þar er nánast byrjunarlið Íslands: Jón Arnór, Jakob, Fannar Ólafsson, Helgi Magnússon, og við bætist sennilega besti erlendi leikmaðurinn í deildinni, Dourisseau.  En það sem er athygli vert er að skoða  hina leikmennina. Og hvað kemur þá í ljós? Jú, stórgóðir leikmenn sem gætu myndað eitt besta liðið á Íslandi, án þessara sem þegar eru taldir.  Pálmi, Skarphéðinn, Darri, svo einhverjir séu nefndir af handahófi. Hver myndi ekki vilja hafa þessa stráka í sínu liði? Hjá KR hafa 6 leikmenn skorað hérumbil 10 stig að meðaltali í leik eða meira, en enginn nær 20 stigum. Hvað segir þetta? Þetta segir að það er gagnslaust fyrir andstæðingana að reyna að taka einn eða tvo „úr umferð“. Liðið er of heilsteypt til þess og breiddin nær nánast út fyrir sjónbaug. Stjarnan er baráttulið. Þar er Shouse lykilmaður með yfir 20 stig og tæpar 8 stoðsendingar, frábær leikmaður sem berst til síðasta blóðdropa. Hann hefur mikla reynslu, er vanur úrslitaleikjum, og það á eftir að hjálpa Stjörnunni. Fannar Helgason er mesti frákastarinn í þessum tveimur liðum með tæp 12 í leik, en samt tekur KR fleiri fráköst sem lið, og það gildir. Zdravevski er góður og mun skila sínu og Kjartan er annálaður baráttujaxl, sumir myndu segja hrokagikkur,  sem ber enga virðingu fyrir andstæðingnum, sama hvað hann heitir. Allir þessir leikmenn geta gert mjög góða hluti og þó fleiri góðir séu hjá Stjörnunni, eins og Birkir, Guðjón og Ólafur Sigurðsson, þá standast þeir varla vaskri varamannasveit KR-inga snúning. Teitur veit auðvitað hvað hann syngur en hann á erfiðan dag framundan, eins og allir aðrir þjálfarar sem þurfa að ganga undir þann kross að mæta KR. Það hjálpar heldur ekki Stjörnunni að Grindvíkingar skyldu hafa komið eins og hverjir aðrir götustrákar og hleypt úr öðru afturdekkinu hjá KR-ingum um daginn. Benni  hefur haft vikuna til að dæla lofti rækilega í aftur, verður svo bæði með lím og bætur í vasanum og pumpu til taks, ef að líkum lætur. Það yrði óvænt, og sennilega eitt mesta íþróttaafrek á Íslandi á síðari tímum, ef Garðbæingar næðu að stela þessum bikar fyrir framan nefið á Vesturbæjarveldinu. 

Keflavík-KR

Í kvennaleiknum þarf mun meiri spádómsgáfu og innsýn til að geta sér til um úrslit en hjá körlunum, og er þar komið verkefni fyrir einhvern spámannlegar vaxinn en mig. Hér eru tvö af sterkari liðunum á ferðinni. Keflavík með áralanga, stöðuga sigurhefð en KR að koma af alefli til baka eftir nokkur mögur ár í kjallaranum. Hildur er komin til baka og þá er ekki að sökum að spyrja, hún dregur liðið upp stigana. Þær Ámundasystur eru líka betri en engin, Sigrún stiga- og frákastahæst í liðinu og það mun auðvitað mæða mikið á þessum þremur. Margrét Kara hefur töluverða reynslu þrátt fyrir ungan aldur og hún styrkir liðið verulega í úrslitaleik sem þessum. Þá eru mjög ungar en bráðefnilegar stelpur í KR-liðinu sem vilja auðvitað sanna sig. En reynslan vegur þungt í úrslitaleikjum og þar held ég að Keflavík hafi vinninginn, og Suðurnesjakonur hafa líka meiri breidd í sínu liði. Að mínu mati er Pálína Gunnlaugsdóttir besti leikmaðurinn af þeim sem taka þátt í úrslitaleiknum. Hún er afar fjölhæf; skorar mikið, frákastar, gefur flestar stoðsendingar og stelur mörgum boltum. Frábær alhliða leikmaður. Birna er á sama stalli, skorar heil ósköp, þó þriggja stiga nýtingin sé kannski ekki til að hrópa þrefalt húrra fyrir þá ógnar hún mjög, veldur hverri vörn erfiðleikum og losar í leiðinni um liðsfélaga sína. Í Keflavíkurliðinu eru margar stelpur sem geta tekið af skarið og lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar og það getur reynst KR erfiður biti að kyngja. 

Mynd: www.xs.is

 

Fréttir
- Auglýsing -