spot_img
HomeFréttirBikarspá: Eiríkur Önundarson

Bikarspá: Eiríkur Önundarson

Eilífðarvélin Eiríkur Önundarson sleppur ekki að þessu sinni og náðum við að toga úr honum myndarlega bikarspá þar sem kappinn leitaði í tölfræðireikninga vinar síns, Harðar Tuliniusar, sem heldur úti hinni stórgóðu vefsíðu www.ruslid.blogspot.com
 
Samkvæmt tölfræðilegum útreikningum Harðar Tulinius vinar míns er nokkuð ljóst hvernig leikirnir fara. Hörður hefur reglulega birt á heimasíðu sinni (ruslid.blogspot.com) sigurlíkur liða í Iceland Express deildinni byggða á tölfræðiupplýsingum úr fyrri leikjum. Niðurstaða þessara útreikninga leiða í ljós eftirfarandi sigurlíkur liðanna í úrslitaleikjunum:
 
Njarðvík: 75,6%
Snæfell:  24,4%
 
Keflavík: 88,7%
Tindastóll: 11,3%
 
En tölfræðin nær bara ákveðið langt og margt annað spilar inn í á leikdegi.
 
Njarðvík-Snæfell (kvennaleikurinn kl. 13:30)
 
Leikurinn hjá stelpunum verður eflaust góður. Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í vetur og hefur Njarðvík haft betur í öllum leikjunum. Það gefur því auga leið að það styttist í sigurinn hjá Snæfelli. Njarðvík vann þó síðasta leikinn nokkuð sannfærandi og hljóta því að teljast sigurstranglegar í þessum leik. Erlendu leikmennirnir hjá þeim eru gríðarlega sterkir og svo er Petrúnella ígildi erlends leikmanns. Við stjórnvölin er mikill varnarjaxl og baráttuhundur sem oft hefur gert mér lífið leitt á vellinum. Sverrir kann að vinna og hefur byggt upp mjög öflugt lið. 
 
Í liði Snæfells leynast miklir reynsluboltar í Hildi og Öldu. Báðar hafa spilað og unnið bikarúrslitaleik í Höllinni ef mig misminnir ekki. Mikilvægt er að þær nái sér á strik ásamt erlendu leikmönnunum.
 
Ég geri því ráð fyrir hörkuleik sem verður jafn fram á síðustu andartök hans. Ég held að Snæfellsstelpurnar komi á óvart og vinni mikinn baráttusigur. Stuðningsmenn liðanna geta skipt sköpum og vona ég að Njarðvíkingar og Hólmarar fjölmenni og styðji við bakið á sínum stelpum.
 
Tindastóll-Keflavík (karlaleikurinn kl. 16:00) 
 
Leikmenn Keflavíkur og Tindastóls mæta eflaust kokhraustir í Höllina eftir að hafa lagt Knattspyrnufélag og Íþróttafélag höfuðstaðarins að velli í síðustu umferð Iceland Express deildarinnar. Keflvíkingar verða að teljast sigurstranglegri enda er hefðin og sagan með þeim. Þeir hafað spilað betur og betur eftir því sem liðið hefur á tímabilið þrátt fyrir smá hikst á Ásvöllum. Það er reyndar afar erfitt að spila vel þar. Maggi er alger lykilmaður hjá þeim og skiptir miklu máli fyrir liðið að hann nái sér á strik í leiknum. Hann og Siggi vita hvað þarf til að vinna úrslitaleiki, þeir hafa gert það og það vegur þungt.
 
Tindastólsmenn hafa verið svolítið rokkandi á þessu tímabili. Þrátt fyrir að hafa aldrei spilað til úrslita í bikarnum er liðið skipað reynslumiklum leikmönnum sem hafa spilað lengi saman. Einhverjir þeirra hafa líka spilað til úrslita í bikarnum a.m.k. Rikki, ég man eftir því. Þeir þurfa að hitta á toppleik til að sigra Keflvíkingana og þurfa að mæta dýrvitlausir til leiks. Ég treysti á að þar muni Helgi Rafn fara fremstur. Erlendu leikmennirnir verða að eiga góðan dag sem og Rikki og Þröstur. Þeir þurfa að leggja upp með að loka á Magga eins og hægt er, vera agaðir og reyna að stýra hraðanum í leiknum. Þá getur allt gerst. Ég spái þó að Keflvíkingar vinni þennan slag.   
 
Það eru því tveir flottir leikir framundan í Höllinni. Ég mæli með, af fenginni reynslu, að leikmenn reyni að njóta dagsins og þess að spila svo stóran leik fyrir framan fullt af áhorfendum. Ég mæli líka með því að vinna leikinn.
Fréttir
- Auglýsing -