spot_img
HomeFréttirBikarspá: Einar Bollason

Bikarspá: Einar Bollason

9:30

{mosimage}

Ef einhvern þarf ekki að kynna fyrir íslenskum körfuknattleiksunnendum, þá er það Einar Bollason. Það er líklega enginn sem hefur sinnt jafn fjölbreyttum hlutverkjum innan hreyfingarinnar og hann, leikmaður, þjálfari, dómari, stjórnarmaður hjá KKÍ, formaður KKÍ, landsliðsþjálfari er hlutverk sem hægt er að nefna. Það væri í raun of langt mál að telja upp allt sem hann hefur unnið og gert, í svona inngangi

Mikið verður um dýrðir í Laugardalshöllinni á sunnudaginn þegar Subway bikarúrslitaleikir í kvenna- og karlaflokki fara fram.
KR leikur til úrslita í báðum flokkum og er þetta í 6. sinn sem þetta fornfræga félag er með bæði liðin í úrslitum, síðast árið 2002.
Ekkert félag hefur verði oftar með bæði liðin í úrslitum en Keflavík hefur verið jafnoft.
Hefðin er mikil hjá KR enda státar félagið af  flestum bikarmeistaratitlum eða samtals 18 – 9 hjá hvoru kyni. (Heimildir: Óskar Ófeigur Jónsson)

Í kvennaflokki mætast KR og Keflavík og í karlaflokki KR og Stjarnan.Lítum nú nánar á þessa leiki og byrjum á konunum.

Gengi þessara liða hefur verið misjafnt í vetur. Keflavík var spáð mikilli velgengni enda með svo til sama lið og s.l. ár og þar á bæ er mikil sigurhefð, ekki síst í svona leikjum enda hafa þær unnið samtals 11 bikarmeistaratitla í kvennaflokki  og flesta á árunum 1988 – 2000 þar sem þær unnu 10 af 13 sem í boði voru !!!
Liðið hefur ekki alveg staðið undir væntingum í vetur og nú um daginn voru þær að missa af deildarmeistaratitlinum til Hauka. Þær eru þó enn í öðru sæti í deildinni og eru til alls líklegar á endasprettinum. Birna Valgarðsdóttir er allt í öllu hjá þeim, frábær leikmaður og  Pálína Gunnlaugsdóttir gefst aldrei upp fyrr en í fulla hnefana. Margar ungar og efnilegar stúlkur leika með liðinu en mikið mun mæða á þessum tveimur.

Ekki var KR liðið talið líklegt til mikilla afreka í vetur en annað hefur komið á daginn og hafa þær verið á mikilli siglingu á síðustu vikum.Hildur Sigurðardóttir er þeirra reyndasti leikmaður og mun mikið á henni hvíla í leiknum ásamt þeim systrum Guðrúnu og Sigrúnu Ámundadætrum og þá hefur mikill hvalreki rekið á fjörur þeirra KRinga þar sem Klara Sturludóttir er.Flestir veðja sjálfsagt á sigur Keflavíkur og ef þær ná góðri byrjun verður erfitt fyrir KR að stöðva þær. Allt getur hins vegar gerst, KR sigraði í hörkuleik þessara liða í síðustu viku og mæta örugglega dýrvitlausar til leiks.
Spáin: KR vinnur eftir framlengingu – kannski tvöfalda !!!

Beðið er eftir karlaleiknum með mikilli eftirvæntingu en þar mætast þau 2 lið sem hafa verið á hvað mestri siglingu á þessu ári.
Stjarnan aðeins tapað 1 leik síðan Teitur Örlygsson tók við þjálfun liðsins og KR aðeins tapað 1 leik í allan vetur, eru núverandi deildarbikarmeistarar og trjóna á toppi Iceland Express deildarinnar.
Margir halda eflaust að Stjönumenn með þá Fannar Helgason, Justin Shouse og Jovan Zdravevski verði auðveld bráð fyrir hið geysisterka lið KR en ég held ekki og vil benda máli mínu til stuðnings á leik þessara liða í DHL höllinni þar sem KR knúði fram sigur á síðustu mínútum leiksins.
Stjörnumenn eru fullir sjálfstrausts eftir frábært gengi undanfarinna vikna þar sem þeir m.a. sigruðu Grindavík örugglega og bera sennilega litla eða enga virðingu fyrir KRingunum. Teitur er þjálfari og þessi fyrrum frábæri þjálfari þekkir bara ekki orðið að tapa – það er bara ekkert flóknara en það !!!!.
Við eigum eftir að sjá óvænt úrslit í úrslitakeppninni í vor og Stjarnan á eftir að gera góða hluti þar.

KR liðið þarf að rífa sig upp eftir sárt tap fyrir Grindavík s.l. mánudag. Sjálfstraust þeirra er sennilega laskað og gæti góð byrjun Stjörnumanna sett þá út af laginu.
Komi þeir hins vegar ákveðnir til leiks og ná að setja vonbrigði síðasta leiks aftur fyrir sig þurfa þeir engu að kvíða, með leikmenn eins og Jón Arnór, Jakob, Jason, Fannar, Helga, Pálma ofl, ofl.

Þetta verður bikarleikur af  bestu gerð á milli tveggja góðra liða og stemningin í höllinni verður örugglega magnþrungin.
Spáin: KR sigrar með 15 stiga mun eftir hörkuleik

Mynd: Gunnar Freyr Steinsson

Fréttir
- Auglýsing -