12:00
{mosimage}
Axel Kárason hefur aldrei prófað að spila bikarúrslitaleik, en eflaust oft langað til þess þó hann segi að hann hafi aldrei haft tíma fyrir þetta þar sem þorrablót framsveita Skagafjarðar eru alltaf sama daginn. Hann settist niður á heimili sínu í Ungverjalandi og sendi okkur hugleiðingar sínar um leikina á morgun. Hann tekur annan pól í hæðina en margir þeir sem á undan koma, en menn horfa á þetta með sínum augum.
Sjáum hvað Axel hefur að segja:
Keflavík – KR
Ég verð víst að byrja á því að játa á mig þá dauðasynd að hafa lítið fylgst með kvennakörfunni í vetur, og í raun ófær um að spá fyrir um úrslitin út frá faglegum og körfuboltafræðilegum forsendum.
Því neyðist ég til að beita annari nálgun á leikinn milli Keflavíkur og KR. Til þess er hin gamalgróna íslenska aðferð að tengja fólk við ákveðnar sveitir á einn eða annann hátt, og meta það eftir því mjög hentug. Þar sem ég er nú mikill dreifbýlisdurgur þá er æskilegra að vera sem lengst frá suðvesturhorninu.
Mér tókst að tengja 3 leikmenn KR-inga við Skagafjörðinn. Fyrsta ber að nefna Helgu Einarsdóttir sem sleit flestum sínum barnsskóm á Sauðárkróki og býr vel að því að hafa verið undir styrkri handleiðslu Kára Maríssonar á sínum uppvaxtarárum. Gréta Guðbrandsdóttir átti heima á Króknum undir lok 9. áratugsins, meðan faðir hennar lék með Tindastól. Annar leikmaður KR á faðir sem leikið hefur með Stólunum, en það er Margrét Kara Sturludóttir. Sturla Örlygsson lék nefnilega með Tindastól í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Og ekki nóg með að pabbi hennar hafi leikið þar, heldur fæddist hún á Sauðárkróki líkt og fleiri góðir einstaklingar. Þetta eru kannski langsóttar tengingar, en tengingar engu að síður.
Vesturlandið á sína fulltrúa í hópi KR-inga. Hildur Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Stykkishólmi, og virðist hafa sloppið merkilega vel við það að alast upp í sama bæjarfélagi og Nonni Mæju. Ámundadæturnar Sigrún og Guðrún eru ættaðar af Mýrunum, nánar tiltekið frá Þverholtum.
Til að gæta alls jafnræðis hafa KR-ingar svo 2 leikmenn af Suðurlandinu í sínum herbúðum, og eru þeir báðir innfæddir Hreppamenn (eða konur). Heiðrún Kristmundsdóttir er frá Haga í Gnúpverjahreppi og Brynhildur Jónsdóttir frá Berghyl í Hrunamannahrepp.
Keflavíkurmegin tókst mér aðeins að tengja 2 leikmenn út á land. Koma þær báðar úr Skagafirði, annars vegar er það Halldóra Andrésdóttir frá Bergstöðum í Skarðshrepp hinum forna og Birna Valgarðsdóttir, uppalin Sauðkrækingur. Þær, líkt og Helga, nutu öruggar leiðsagnar Kára Mar hér á árum áður.
Því er spurningin hvort hin sterku fingraför Kára gamla Mar á Keflavíkurliðinu eða geypilegt magn af dreifbýlistúttum hjá KR-ingum muni sigra? Ég hallast að KR.
Hafi ég móðgað einhvern suður með sjó með því að vera illa að mér í uppruna- og ættfræðinni suður með sjó, þá er sá hinn sami beðinn afsökunar á því. Mér til varnaðar þá eru heimildir mínar innan KR mun betri þar sem meirihluti fjölskyldu minnar hefur gefið sig frjálshyggjunni á vald og er á mála í Vesturbænum.
KR – Stjarnan
En þá að karlaleiknum. Eðlilegast væri að spá KR sigri þar. Það má segja að þar sé valinn maður í hverju rúmi, með menn eins og Jón Arnór og Jakob sem geta tekið upp á því að skora eins og enginn sé morgundagurinn, sýnist þeim vera þörf á því. Við bætist svo mjög góður útlendingur og mikil breidd sem gerir þetta lið ógnvænlegt.
En miði er möguleiki eins og skáldið sagði, og vissulega á Stjarnan möguleika. Justin Shouse og Jovan Zdravevski eru þeir sem draga vagninn fyrir Garðbæinga, og verða þeir að eiga bókstaflega stórleik á sunnudaginn. Aðrir leikmenn Stjörnunar eru þannig úr garði gerðir að þeir geta fyllilega fylgt góðu fordæmi Justin og Jovan og stigið upp.
KR getur tapað leik, eins og nýleg dæmi sanna. En ég sé það engann veginn gerast á sunnudaginn og því spái ég tvöföldum fagnaði í Vesturbænum á sunnudaginn.
Mynd: Kári Marísson