spot_img
HomeFréttirBikarspá 2010: Gylfi Þorkelsson

Bikarspá 2010: Gylfi Þorkelsson

 
Gylfi Þorkelsson hefur séð þá tímana tvenna í körfuboltanum og væntanlega ófáa bikarúrslitaleikina og því ekki úr vegi að fá kappann til þess að senda inn eina eldheita bikarúrslitaspá beint af Selfossi.
Hvernig leggst bikarúrslitaleikur Snæfells og Grindavíkur í þig?
Þessi leikur leggst mjög vel í mig, þetta eru að mínu mati skemmtilegustu liðin í deildinni. Grindvíkingar frægir í gegnum tíðina fyrir sóknarleik og eitraðar skyttur sínar, með Pál Axel sem meginfallbyssu, en Snæfell frekar fyrir öflugan varnarleik í kringum Hlyn, kónginn í teignum. Friðrik hefur undanfarin ár unnið í því að bæta varnarleik Grindavíkur og hann gerir sér grein fyrir því að þar dregur til úrslita fyrir liðið. Ingi Þór er hinsvegar nýr skipstjóri í Stykkishólmi, byggir á þeirri hefð sem þar hefur mótast í kringum yfirstýrimanninn, en virðist hafa komið með aukinn kvóta með sér, sækir stíft og aflar vel.
 
Hvað mun skipta mestu máli í þessum leik?
Það er auðvitað gamla lumman um dagsformið. Hvort liðið langar meira í bikarinn og mætir betur stemmt til leiks? Það er í sjálfu sér enginn tæknilegur getumunur á liðunum, hvorki á pappírum né á perketinu. Munurinn í leiknum mun ráðast í höfðinu á leikmönnunum, og ef þeir verða allir tilbúnir í slaginn, þá á einhverjum tilviljunum eða heppni í hnífjöfnum leik.
 
Hvaða leikmenn gerir þú ráð fyrir að láti mikið á sér bera í leiknum?
Það verða væntanlega þessir reyndu „stjörnuleikmenn“ sem axla ábyrgðina, Páll Axel, Brenton og Lalli fyrir Grindavík. En þar eru líka Guðlaugur Eyva, sem er baneitraður, Arnar Freyr, Ólafur og Ómar, allt magnaðir strákar. Að ógleymdum Darrell Flake sem alltaf skilar sínu ár eftir ár, nánast eins og vélmenni. Snæfellsmegin eru Hlynur og Jón Ólafur búnir að vera alveg óborganlegir í vetur og verða það áfram. Líttu bara á meðalframlagið hjá Hlyni! Þó góður sé er ég samt alltaf að bíða eftir enn meiru frá Sigga Þorvalds. Kannski kemur það núna? Svo er Emil í sérstöku uppáhaldi hjá mér, hálfgerður fóstursonur eftir að hafa búið hjá mér einn vetur þegar hann var á Selfossi. Hann hefur það sem til þarf og vonandi gengur honum vel. Og svo er það Burton, maður! Þetta eru þvílíkar kanónur í hverri stöðu, hjá báðum liðunum, og úrslitin munu auðvitað ekki ráðast á einstaklingsframtaki heldur liðsheildinni og varnarleiknum.
 
Hvernig munu Friðrik og Ingi Þór leggja upp leiki sinna liða?
Ég held að þeir muni báðir brýna flökunarhnífana og leggja áherslu á úrbeiningu. Sá sem nær að samhæfa vinnslulínuna betur mun skila meira magni og verðmætum í lok dags.
 
Hvernig fer þetta svo?
Ég hef sterkar taugar til beggja liða, lék með Grindavík fyrir margt löngu og var gráti nær þegar þeir töpuðu fyrir KR í fyrra. Snæfell er fulltrúi okkar úti á landsbyggðinni. Snæfell vinnur, vonandi eftir taugatrekkjandi spennuleik. Ekki síst fyrir Emil. Mér þykir vænt um hann.
 
Fréttir
- Auglýsing -