spot_img
HomeFréttirBikarmeistararnir á fullu stími - fimm í röð

Bikarmeistararnir á fullu stími – fimm í röð

Stjörnumenn tóku á móti Ísfirðingum í Ásgarði í 21. umferð Dominosdeildar karla í kvöld. Liðin voru á ólíkum stað í deildinni, Stjarnan að keppast um heimavallarrétt í úrslitakeppninni, en KFÍ á botni deildarinnar ásamt Fjölni og ÍR að berjast fyrir tilveru sinni í deildinni en þeir áttu einnig langeygan möguleika á 8. sætinu og þar með sæti í úrslitakeppninni.
 
 
Ísfirðingar byrjuðu töluvert betur og komust í 11-0. Hvorki gekk né rak hjá heimamönnum sem misnotuðu fyrstu sex sóknir sínar í leiknum á meðan vörnin hriplak. Heimamenn brutu ísinn þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum og skiptust liðin á körfum þar til staðan var 13-23 fyrir KFÍ þegar Stjarnan lokaði leikhlutanum með 13-2 áhlaupi, og lauk fyrsta leikhluta 26-25. Hjá gestunum var Tyrone Bradshaw með sjö stig og hjá Stjörnunni átti Jovan Zdravevski góða innkomu af bekknum og setti niður átta stig.
 
 
Annar leikhluti einkenndist af áhlaupum frá báðum liðum. Stjarnan virtist vera að síga frammúr snemma í öðrum leihluta þegar KFÍ tók rispu og minnkaði muninn niður í þrjú stig, 41-38, fyrst með glæsilegustu troðslu tímabilsins að mati undirritaðs frá Tyrone Bradshaw þegar hann keyrði inn í teig Stjörnumanna og tróð misheppnuðu skoti samherja síns viðstöðulaust ofan í körfuna og svo með fallegum þristi frá Kristjáni Pétri Andréssyni. Þá tók við 11-0 áhlaup heimamanna þar sem vörnin skellti í lás og KFÍ komst hvorki lönd né strönd, staðan 52-38 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Gestirnir launuðu svo greiðann með því að ljúka leikhlutanum með 8-0 áhlaupi þar sem Stjarnan átti í stökustu vandræðum á báðum endum vallarins og komu muninum niður í sex stig áður en flautað var til hálfleiks, 52-46.
 
KFÍ voru mikið frekari í frákastabaráttunni en Stjarnan og leiddu hana í hálfleik 18-29.
 
Stigahæstu menn í hálfleik voru fyrirliðinn Fannar Freyr Helgason með þrettán stig fyrir Stjörnuna og Tyrone Bradshaw með sautján stig fyrir gestina. Damier Erik Pitts skoraði einungis fimm stig í fyrri hálfleik 2/14 í skotum utan af velli.
 
Í upphafi þriðja leikhluta náðu gestirnir muninum niður í fjögur stig, 55-51, en þá skildu leiðir og náðu þeir aldrei að ógna forystu Stjörnunnar almennilega eftir það. Stjarnan jók muninn hægt og bítandi og enduðu leikhlutann með tólf stiga forystu, 79-67. KFÍ réðu illa við Jarrid Frye skoraði níu stig í fjórðungnum og var orðinn stigahæstur í liði Stjörnunnar með tuttugu stig en Tyrone Bradshaw var stigahæstur gestanna með nítján stig og tólf fráköst.
 
Fjórði leikhluti spilaðist líkt þeim þriðja, Stjarnan hægt og rólega bætti við forystuna náði henni mest upp í átján stig í stöðunni 88-70 og unnu að lokum nokkuð þægilegan fimmtán stiga sigur þrátt fyrir slaka byrjun.
 
Jarrid Frye daðraði við þrennuna með 20 stigum, 11 fráköstum og 7 stoðsendingum og átti Justin Shouse einnig góðan leik með 18 stig, 9 stoðsendingar og 5 fráköst. Jovan skoraði 14 stig, Fannar og Brian 13 hvor ásamt 3 vörðum skotum. Marvin Valdimarsson spilaði í 10 mínútur í leiknum en hann er að stíga upp úr meiðslum átti hann góða stattlínu m.v. takmarkaðan tíma, 8 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolnir með 100% skotnýtingu. Dagur Kár Jónsson skoraði 7 stig ásamt því að verja 2 skot. Einnig átti Daði Lár Jónsson góða innkomu og stýrði leik Stjörnunnar seinustu þrjár mínútur leiksins og leysti það verk af með stakri prýði.
 
Hjá gestunum átti Tyrone Bradshaw sannkallaðan stórleik, 25 stig, 16 fráköst (þar af 10 sóknarmegin), 3 stolnir boltar og 2 varin skot. Mirko Stefán Virijevic skilaði einnig sínu með 20 stig og 11 fráköst. Kristján Pétur Andrésson skoraði 15 stig, allt utan þriggja stiga línunnar og þá skoraði Jón Hrafn Baldvinsson 4 stig ásamt því að stela 6 boltum. Damier Erik Pitts hefur hinsvegar átt betri leiki en í kvöld, hann endaði kvöldið á með 18 stig en með 5/27 í skotnýtingu eða 18.5%.
 
 
Mynd/ BSB
Umfjöllun/ Jón Svan Sverrisson  
Fréttir
- Auglýsing -