Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld og þá rúlla 32 liða úrslitin í Poweradebikar karla af stað þegar 1. deildarlið Þórs frá Akureyri tekur á móti toppliði Iceland Express deildar karla, Grindavík, kl. 17:30 í Höllinni á Akureyri.
Leikir kvöldsins í IEX kvk – allir kl. 19:15
Hamar-Njarðvík
Haukar-Snæfell (Í beinni á Haukar TV)
Grindavík-Keflavík
KR-Fjölnir
Hamar og Keflavík tróna á toppi deildarinnar en bæði lið hafa unnið alla sína leiki til þessa. Hamar tekur á móti Njarðvíkingum í Hveragerði í kvöld en grænar hafa komið á óvart þessa leiktíðina og blásið á bak allar spár með vasklegri framgöngu. Njarðvíkingar lögðu Grindavík nokkuð örugglega í síðustu umferð og Hamar marði 79-76 heimasigur á Íslandsmeisturum KR með flautukörfu frá Slavicu Dimovsku.
Hólmarar náðu í sín fyrstu stig í deildinni á dögunum með sigri á botnliði Fjölnis og mæta nú á Ásvelli þar sem kominn er erlendur leikmaður. Bikarmeistarar Hauka létu erlendan leikmann sinn fara í upphafi tímabils og hafa undanfarið leikið með alíslenskt lið og ekki náð að sýna sitt rétta andlit. Eins og segir í frétt sem þegar hefur birts á Karfan.is mun nýji leikmaður Hauka, Katie Snodgrass, að öllum líkindum vera í búning í kvöld.
Grindvíkingar taka á móti Keflavík og munu einnig að öllum líkindum tefla fram nýjum erlendum leikmanni og verða þá með tvo erlenda leikmenn á sínu snæri. Keflvíkingar hafa ekki stigið feilspor það sem af er leiktíðinni og þykja sigurstranglegri fyrir kvöldið.
Íslandsmeistarar KR fá svo botnlið Fjölnis í heimsókn í DHL-Höllina en Fjölnir hefur tapað öllum fimm deildarleikjunum sínum til þessa. KR er í 4.-5. sæti deildarinnar ásamt Haukum þar sem bæði lið hafa 4 stig en Haukar betur innbyrðis.
Í bikarnum fá Akureyringar verðugt verkefni þegar sjóðheitt lið Grindavíkur mætir norður í 32 liða úrslit Poweradekeppninnar. Grindvíkingar eru ósigraðir í Iceland Express deild karla en Þórsarar eru á meðal toppliða í 1. deildinni. Leikur liðanna hefst kl. 17:30 í Höllinni á Akureyri.
Þá er einn leikur í drengjaflokki þegar ÍA tekur á móti ÍR kl. 18:30 að Jaðarsbökkum á Akranesi.
Ljósmynd/ Bryndís og félagar í Keflavíkurliðinu eru fullar sjálfstrausts þessi misserin.



