Það verður allt lagt undir í nótt þegar Miami Heat og San Antonio Spurs mætast í hreinum úrslitaleik um hvort liðið verður NBA meistari. Leikurinn hefst kl. 01:00 eftir miðnætti og verður líkt og aðrir leikir í þessari rimmu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Miami snéri leiknum sér í vil í leik sex og knúðu fram sigur eftir að hafa verið undir lungað úr fjórða leikhluta. Röð mistaka í leik Spurs varð valdur þess að Ray Allen knúði fram framlengingu þar sem Heat voru svo sterkari og fóru með sigur af hólmi. Mikið hefur verið þrefað um það að brotið hafi verið á Manu Ginobili undir lok framlengingarinnar þegar hann sótti að körfunni en dómari leiksins sá ekkert athugavert við vörn Heat manna og flautaði því ekki.
Leikir þessara liða hafa verið ágætis skemmtun og mikið hefur verið rætt um þá. Netverjar eru duglegir að láta alskyns hluti frá sér og það sem virðist vera mest rætt um er svo kölluð „flop“ hjá leikmönnum og þá aðallega Heat megin.
Margir skemmtilegir hlutir hafa sést á skjánum svo sem þessi mynd hér fyrir neðan sem og mynskeiðið.
Það sem vakti líka mikla athygli í leik sex var það að stuðningsmenn Heat snéru bakinu við liðinu og flykktust út af leiknum. Mikið var tístað um þetta á twitter og sagði einn stuðningsmaðurinn að ástæða þess að fólk væri að fara af leiknum væri til að vera á undan umferðinni sem myndi myndast fyrir utan leikvanginn. Sami aðili tístaði svo tveimur mínútum seinna og sagðist eiginlega skammast sín því svo margir stuðningsmenn yfirgáfu völlinn.
Margir af stuðningsmönnum reyndu að komast aftur inn þegar þeir heyrðu að leikurinn hafði snúist við en var ekki hleypt aftur inn.
Það er því ljóst að enginn mun yfirgefa völlinn í nótt fyrr en annað liðið stendur uppi sem sigurvegari og svo er bara stóra spurningin. Verður Greg Pop hress á blaðamannafundinum eftir leikinn eða kemur hann til með að vera brosandi og kampavínsblautur?