Það var ekki árennilegt verkefni fyrir hið unga lið FSu að taka á móti ósigruðum Valsmönnum á föstudagskvöld á heimavelli sínum í Iðu í 1. deild karla á Íslandsmótinu í körfubolta. FSu hafði þó sýnt flestar sínar bestu hliðar á heimavelli, aðeins tapað einum leik þar, fyrsta leiknum í haust gegn Haukum, og liðið þá ekki hálfmótað. Það logaði því víða á perum hjá heimamönnum. Skyldi liðið ná toppleik og stela sigrinum? Það hefði sannarlega verið vel þegið, eftir arfaslakan leik, og tap gegn botnliðinu frá Akranesi í síðustu umferð. En Adam komst ekki alla leið til paradísar að þessu sinni og Valur flaug vængjum þöndum heimleiðis, undan suðaustan strekkingi.
Það var skarð fyrir skildi að Daði Berg, leikstjórnandi FSu, er meiddur og gat ekki tekið þátt í leiknum, frekar en uppi á Skaga um daginn. Þó Daði sé ekki guð almáttugur, þá má þetta brothætta lið alls ekki við því að missa neinn af byrjunarliðsmönnum sínum, og allir leikmennirnir verða sannast sagna að ganga á öllum strokkum til að vel fari. Með Daða á bekknum og Ara enn ekki í sínu besta formi eftir slæm meiðsli í desember, verður margt liðinu mótdrægt, því aðrir ungir en reynsluminni piltar eru enn of brokkgengir til að sýna á trompin í hverjum leik.
Það er ekki út af engu sem Valsliðið er efst og ósigrað í deildinni. Þar er valinn maður í hverju rúmi og liðsheildin til mikillar fyrirmyndar. Þetta er eins og vel smurð vél sem sjaldan hikstar og allir sýnast meðvitaðir um styrkleika sína og veikleika og klárir á sínu hlutverki. Gústi og Sæbi voru líka greinilega búnir að vinna heimavinnuna sína. Allir þeirra menn voru með helsta sóknarvopn FSu undir smásjánni og samtaka í því. Atli Rafn bar þó hitann og þungann af því starfi og leysti sitt verkefni með prýði, en hjálparvörn Vals var yfirleitt mjög góð í leiknum og heimamenn þurftu meira og minna að hafa mikið fyrir öllum sóknaraðgerðum sínum.
Ofan á þetta má segja að Valsmenn hafi verið ákveðnari og spilað fastar en gestgjafar þeirra, þrátt fyrir að fyrirfram hafi verið vitað að lykillinn að mögulegum heimasigri hafi verið einmitt þessi – að berjast meira og láta hrökkva undan sér. Oft mátti sjá gullfallegar leikfléttur til Valsliðsins, bakverðirnir náðu oft að keyra inn í miðja vörnina og þaðan voru þeir fundvísir á félaga sína sem fengu hvert fyrirhafnarlausa sniðskotið á fætur öðru upp í hendurnar. Það kom ekki að sök þó þriggjastiganýting Valsliðsins væri óvenjuslök að þessu sinni (22%), 33 tveggjastigaskot rötuðu rétta leið á móti 22 hjá FSu.
Þá er athyglisvert að skoða vítaskotin á tölfræðiskýrslunni. Valur skaut 15 vítaskotum en aðeins tveir leikmenn FSu urðu þess heiðurs aðnjótandi að komast á vítalínuna, samtals 5 skot, takk fyrir. Reynar þótti tíðindum sæta þegar annar dómarinn blés í fyrsta skipti í flautuna seint í fjórða leikhluta – en þá var hann að reyna að ná sambandi við moppustrákinn!
Annars var gangur leiksins í grófum dráttum þannig að Valur náði fljótlega undirtökunum, munurinn þó aldrei mikill og all opið í sjálfu sér. Fimm stigum munaði eftir 10 mínútna leik, 23-28, og í hálfleik var átta stiga munur, 38-46. Þriðja leikhlutann vann Valur svo með 10 stiga mun og lagði þá grunninn að öruggum sigri, staðan orðin 49-67. FSu liðið klóraði aðeins í bakkann á tímabili en það var of lítið og of seint og gestirnir brunuðu fram úr aftur, mest munaði 22 stigum á liðunum, og það varð líka niðurstaðan, 67-89.
Hjá Val var Chris Woods atkvæðamestur með 29 stig og 6 fráköst. Á tímabili fór allt í, og skipti þá engu þó brotið væri á honum í leiðinni. Sjaldnast fékk Woods samt dæmdar villurnar. Þá var Toggi, Þorgrímur Guðni Björnsson, mjög góður. Hann setti 14 stig og tók 8 fráköst á tæpum 17 mínútum og nýtingin frábær, enda oft mataður á flottum stoðsendingum. Ragnar Gylfason var góður, skoraði 12 stig og var harður í horn að taka. Gullfallegar stoðsendingar í öllum regnbogans litum glöddu augað, þó þess sjáist reyndar furðufá merki í tölfræðiskýrslunni! Birgir Björn hefur oft látið meira að sér kveða, lét sér nægja 10 stig og 6 fráköst og Atli Rafn var með 8 stig og 7 fráköst. Níu Valsmenn komust á stigatöfluna.
Hjá FSu var Matt Brunell bestur. Hann skoraði 23 stig, tók 9 fráköst og spilaði vel úr sínu. Liðið hefði gjarnan mátt leita meira inn á hann í leiknum. Svavar Ingi skoraði 13 stig og tók 6 fráköst, Karl Ágúst skoraði 9 stig og tók einnig 6 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson skoraði 8 stig og Ari Gylfason skorði 7 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Daníel Kolbeinsson, Hjálmur Hjálmsson og Arnþór Tryggvason komust einnig á blað.
Mynd úr safni/ Chris Woods var stigahæstur í liði Vals á föstudag
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson



