spot_img
HomeFréttirBestu leikmenn Dominosd. karla og nýtnihlutföll

Bestu leikmenn Dominosd. karla og nýtnihlutföll

Player Efficiency Rating (PER) er sá mælikvarði á frammistöðu körfuboltaleikmanna sem við á Ruslinu höfum notað hvað mest. Hann mælir frammistöðu leikmanna hlutfallslega gagnvart öllum öðrum leikmönnum á grundvelli leiktíma. Það er þó einn galli á gjöf Njarðar sem snýr að þessum mælikvarða. 
 
Leikmenn gætu spilað minna en aðrir og nýtt tíma sinn vel, gætu tekið færri skot en hitt mjög vel, verið lítið með boltann í höndunum og því tapað honum sjaldan og svo lengi mætti áfram telja. Til er annar mælikvarði sem sýnir nýtnihlutfall leikmanna, þ.e. hlutfall þeirra sókna sem liðið leikur sem leikmaðurinn “nýtir”. Einnig má líta á þennan mælikvarða sem hlutfall þeirra sókna sem enda hjá leikmanni því skot, víti og tapaðir boltar mynda þetta hlutfall. Þeir sem eru með hátt nýtnihlutfall eru mikið með boltann og bera ábyrgð á mörgum aðgerðum liðsins.
 
Að því sögðu er hægt að nýta bæði þessi hlutföll til að sjá framlag leikmanna með tilliti til nýtnihlutfalls.
 
 
Skoðum á þessari mynd þrjá leikmenn sem bera af öðrum á þessum skölum. Matthew Hairston hjá Stjörnunni er með mjög hátt nýtnihlutfall eða nálægt 30%. PER gildi hans er hins vegar aðeins 24,3 sem er gott í samanburði við meðaltalið en ekki framúrskarandi. Svo höfum við annan leikmann sem er á hinni hliðinni á þessum peningi, Michael Craion. Sá er með frekar lágt nýtnihlutfall (í samanburði við aðra erlenda leikmenn) eða um 20%. Hann er hins vegar með mjög hátt PER 33,4 sem er það hæsta í deildinni. Enn fremur höfum við Terrence Watson sem er með mjög hátt nýtnihlutfall eða um 28% og næsthæsta PER deildarinnar eða 30,8.
 
Nú er ég ekki að gefa til kynna að einn leikmaður sé “betri” en hinn heldur aðeins að benda á staðreyndir. Leikmenn sem eru í efra hægra horninu skara fram úr og jafnframt mjög mikilvægir í sóknarleik liðsins. Þar hafa leikmenn eins og Michael Jordan, LeBron James og Kobe Bryant eytt megninu af sínum ferli, með gildi í nálægð við 30 á báðum ásum.
 
Þessi staðreynd ætti einnig að gefa ykkur góða hugmynd um hversu magnað eintak hann Elvar Már Friðriksson er. Finnið hann á kortinu.
Fréttir
- Auglýsing -