spot_img
HomeFréttirBestu leikirnir fyrir okkur

Bestu leikirnir fyrir okkur

Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi í Grindavík í gærkvöldi þegar Domino's deild kvenna fór aftur af stað eftir jólafrí. Grindavík leiddi leikinn með 16 stigum eftir fyrsta leikhluta en gestirnir frá Keflavík komu sterkir til baka og sigruðu að lokum með 4 stigum eftir spennandi lokamínútur. Margrét Sturlaugsdóttir þjálfari Keflavíkur er með ungt lið í höndunum og aðspurð um leikinn í gærkvöldi sagði hún ákveðna kennslustund hafa verið í gangi í upphafi leiks.

"Það var ákveðin kennslustund í gangi í upphafi. Það er náttúrulega búið að vera jólafrí og ekki búin að vera 100% mæting á æfingar. Ég var alveg óhrædd við að skipta svolítið mannskap út og láta þær hafa aðeins fyrir þessu. Þær sem byrjuðu ekki inni á en eru vanar að byrja inn á voru svolítið pirraðar, en þær komu sterkar inn. Ég nefni Söndru Lind, bara frábært hjá henni, kom ákveðin og örugg inn. Ég vildi bara senda smá skilaboð. Ég er með ungan hóp og þetta er svona uppeldismál, maður á að mæta 100% á æfingar og eins og ég segi, bara vinna sig inn í liðið aftur. Hún gerði það og fleiri, sem er bara frábært." sagði Margrét eftir leikinn í gærkvöldi.

Aðspurð um framhaldið þá lítur Margrét á það bjartsýnum augum "Þetta eru ungar og efnilegar stelpur. Svona leikir eru bestu leikirnir fyrir okkur, að fá svona "tight" leiki og koma til baka. Þetta er besta reynslan í reynslubankann. Enda á vítalínunni. Ég er ánægðust með að Emelía Ósk tók skotið þegar var brotið á henni og þótt hún hafi ekki hitt úr vítunum þá gerist þetta ekki á æfingum, svona spennandi. Þannig að þetta er svona sálfræðilega mikill "stepping stone" fyrir hana eða þröskuldur til að komast yfir og ég er alveg viss um að hún hittir næst þegar hún fær tækifærið."

 

Fréttir
- Auglýsing -