Þeir sem gerðu sér leið á Haukar-Keflavík í Domino´s deild karla í kvöld eru ekki líklegir til að hafa átt eftirfarandi pælingu fyrir leik: „Já veistu, ég held að Helgi Björn, sem er næstum því 30% vítaskytta verði 4-4 í þristum í kvöld og Haukur Óskars verði 0-7.“ Sú varð nú engu að síður raunin í 89-83 sigri Hauka. Þá fékkst það staðfest að með leik kvöldsins mætast Haukar og Keflavík í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar.
Haukar verða með heimaleikjaréttinn svo í garð er gengin að minnsta kosti fjögurra leikja veisluhöld milli þessara tveggja félaga, að leik kvöldsins meðtöldum, þar sem nú þarf að vinna þrjá leiki í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Þá er rétt að geta þess að Haukar luku leik í 3. sæti deildarkeppninnar þetta tímabilið sem er besti árangur félagsins í 12 ár en liðið hafnaði síðast í 3. sæti í deildarkeppni úrvalsdeildar árið 2003.
En vindum okkur aftur að Helga, fjórir þristar takk fyrir túkall og krafthúsaframherjinn í glimrandi góðum gír. Keflvíkingar slitu sig aðeins frá í fyrsta leikhluta en Emil Barja minnkaði muninn í 18-19 með sóknarfrákasti og körfu fyrir heimamenn og þannig stóðu leikar eftir upphafsmínúturnar. Haukar voru ragir við að ráðast á Keflavíkurkörfuna fyrstu tíu mínúturnar og fóru aldrei á góðgerðarlínuna en það átti eftir að breytast.

Gunnar Einarsson stimplaði sig fljótt inn þegar hann kom af tréverkinu í öðrum leikhluta, smellti niður þrist og kom Keflavík í 18-22 en þetta var hans nítjándi þristur í deildinni þessa vertíðina. Skömmu síðar varð ein allsherjar reikistefna þar sem stigataflan var ekki að ganga í takt við leikinn. Úr varð nokkuð málþing en vitaskuld var þetta alltaf í öruggum höndum „LiveStattarans“ Ásgeirs Einarssonar og þegar rétt var úr kútnum í þessum efnum kom í ljós að staðan væri 25-24 Haukum í vil.
Þessi uppákoma hafði engin áhrif á Andrés Kristleifsson sem splæsti í fimm stig í röð fyrir gestina úr Keflavík og kom þeim í 31-32. Haukar svöruðu þessu með sinni eigin rispu sem reyndist 13-3 áhlaup og staðan orðin 44-35. Keflvíkingar klóruðu þó í bakkann og minnkuðu muninn í 46-41 fyrir leikhlé.
Hjálmar Stefánsson var stigahæstur hjá Haukum í hálfleik með 9 stig og klárlega tilþrif fyrri hálfleiksins þegar hann tróð í skemmtilegu hraðaupphlaupi og fékk villu að auki. Þá var Guðmundur Jónsson með 8 stig hjá Keflavík í hálfleik. Það var s.s. ekki mikið sem skyldi liðin að í hálfleik, Haukar voru ívið úrræðabetri í sóknarleik sínum.
Í þriðja leikhluta minnti Helgi Björn aftur á sig, tveir þristar hjá kallinum og sá seinni kom Haukum í 66-57 og Haukar leiddu svo 68-59 eftir þriðja leikhluta. Varnarleikur heimamanna var sterkur í þriðja hluta þar sem gestirnir gerðu aðeins 18 stig. Kári Jónsson átti einnig flottar rispur og það var fjölbreytt framlag hjá Haukum þetta kvöldið sem var að gera Keflvíkingum erfitt fyrir.
Arnar Freyr Jónsson minnkaði muninn í 72-64 með þrist fyrir Keflvík og gestirnir náðu að saxa þetta niður í 76-70 en skömmu síðar, svellkaldur kallinn, kom Kári Jónsson með þrist sem fór langt með þetta, hann breytti stöðunni í 81-72 og Keflvíkingar komust ekki mikið nærri eftir þetta. Lokatölur 89-83.
Tvennutröllið Alex Francis lauk leik með 23 stig og 16 fráköst og Kári Jónsson var með 18 stig og 8 stoðsendingar. Hjá Keflavík var Guðmundur Jónsson með 19 stig og Davon Usher 17.
Myndir/ Axel Finnur
Emil Barja – Haukar




