spot_img
HomeFréttirBerglind með Snæfell í kvöld en fer svo í aðgerð

Berglind með Snæfell í kvöld en fer svo í aðgerð

 
,,Berglind Gunnarsdóttir verður með í kvöld en fer svo í aðgerð á morgun,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari kvennaliðs Snæfells í samtali við Karfan.is í dag. Ingi var vitaskuld með handfrjálsan búnað þegar Karfan.is ræddi við hann í umferðinni á leið sinni suður úr Hólminum. Vanur maður á ferð sem vílaði það ekki fyrir sér að renna fram hjá Hafnarfjalli í hvassviðrinu.
Snæfell mætir Val í fyrstu umferð Iceland Express deildar kvenna í kvöld og eins og Ingi greindi frá verður Berglind með í kvöld en krossbandaslit hafa elt hana síðustu tvö ár. ,,Hún hefur enn ekki náð sér að fullu og að lokinni aðgerðinni á morgun er gert ráð fyrir að hún verði frá leik næsta mánuðinn,“ sagði Ingi.
 
Þá verður Björg Guðrún Einarsdóttir ekki með Snæfell en hún fór í segulómskoðun í morgun eftir að hafa fengið slæmt högg á mjöðm. Rósa Indriðadóttir verður heldur líklega ekki með Snæfell í kvöld og bjóst Ingi ekki við því að geta fyllt í alla reiti leikskýrslunnar þessa fyrstu umferðina.
 
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson: Berglind Gunnarsdóttir leikur fyrsta mótsleikinn með Snæfell í kvöld en verður svo frá næsta mánuðinn eða svo.
 
Fréttir
- Auglýsing -