Að lokinni fyrstu umferð Iceland Express deildar kvenna fór Berglind Gunnarsdóttir í aðgerð sökum krossbandaslita og hefur fylgst með af hliðarlínunni síðan þá. Snæfellskonur hafa í flestum leikjum verið fáliðaðar og bíða ugglaust spenntar eftir því að fá Berglindi í búning að nýju.
,,Batinn gengur bara ágætlega en auðvitað finnst mér þetta gerast allt of hægt! Það kom í ljós að þetta var aðeins meiri aðgerð en haldið var í fyrstu en það skiptir auðvitað aðalmáli að hafa þetta í lagi. Núna eru liðnar 5 vikur frá aðgerð og Sveinbjörn læknir sagði að þetta myndi taka a.m.k. 6-8 vikur svo það er ennþá svolítið í það að ég geti farið að vera með,“ sagði Berglind í samtali við Karfan.is.
,,Það er auðvitað hundfúlt að hafa þurft að byrja tímabilið á því að fara í aðgerð en þetta er nú ekki stórt vandamál miðað við mörg önnur. Ég bara syndi, hjóla og lyfti þangað til ég get farið að spila en ég hlakka ótrúlega til að komast aftur í búning, hvort sem það verði í síðustu leikjunum fyrir jól eða strax í byrjun janúar.“
Berglind gerði sjö stig í fyrsta mótsleiknum og mun vafalítið fjölga enn við vopnabúr Hólmara um leið og hún er komin í ,,gallan“ á ný.
Tengt efni: Berglind með Snæfell í kvöld en fer svo í aðgerð



