spot_img
HomeFréttirBenni spáir í spilin fyrir átta liða úrslitin „Finnur sem KR vinnur“

Benni spáir í spilin fyrir átta liða úrslitin „Finnur sem KR vinnur“

Karfan fékk Benedikt Grétarsson íþróttafréttamann til að spá fyrir um hvaða lið fara áfram í undanúrslitin í Dominos deild karla, en þau rúlla af stað í kvöld með tveimur leikjum. Í þeim fyrri tekur Stjarnan á móti Grindavík í MGH áður en að Keflavík og Tindastóll loka kvöldinu í Blue Höllinni.

Keflavík – Tindastóll

Tindastóll er með stórgóðan leikmannahóp en eiga samt ekki mikla möguleika gegn langbesta liði landsins. Það er mikið talað um glæsitilþrif Keflvíkinga sóknarlega en það má ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að þeir geta spilað hörkuvörn líka. Skagfirðingar þurfa að koma Pétri Rúnari meira á boltann og ekki láta Tomsick eyða neinni orku í annað en skotin sín. Tindastóll nær að berja (bókstaflega, þökk sé hinum silkimjúka Helga Viggós) einn sigur en Keflavík klárar þetta 3-1.

Þór – Þór Ak.

Ef olnbogabarnið Adomas Drungilas hefði einbeitt sér að finna friðarkjarnann í sálinni sinni, væri þetta líklega nokkuð öruggt hjá Þorlákshöfn. Ef hann er á leið í bann, þá getur það klárlega sett þetta einvígi í uppnám. Júlíus Orri er byrjaður að spila aftur með Þór Akureyri eftir meiðsli en það vantar samt svolítið upp á breiddina hjá Akureyringum til að hlaupa með orkumiklu liði Þór Þorlákshafnar í seríu. Ég spái 3-1 fyrir Þór Þorlákshöfn.

Stjarnan – Grindavík

Það er eins gott að Stjarnan er með hrúgu af færum þjálfurum á launaskrá, þar sem Arnar Guðjónsson verður í borgaralegum klæðum í fyrsta leik. Stjarnan hefur alls ekki verið í góðum takti undanfarið og eru kannski pínu fegnir að fá vængbrotið lið Grindavíkur. Það hefur hins vegar verið mikill uppgangur hjá Grindjánum eftir að allir leikstjórnendur liðsins helltust úr lestinni og maður veit aldrei almennilega hvort að maður fái skitu eða snilld frá þessu liði. Stjarnan skríður áfram 3-2 og Hlyni mun líða eins og hann sé að verða fertugur þegar serían klárast.

Valur – KR

Úff, litla veislan. Ég nenni ekki einhverju „KR gegn KR-b” spaugi en tengingin er óneitanlega skemmtileg og gefur einvíginu mikinn lit. Valsmenn eru með eitt stykki Jordan og það vita allir að Jordan er alltaf svindlkall. Það verður ekki gefin tomma eftir og ég er spenntur að sjá hvernig klassísk „Brilla-trikk“ munu fara í menn sem hafa verið hinu megin við borðið í áraraðir. Þetta verður rosaleg sería en Valur klárar þetta í oddaleik í rífandi stemmingu í Origo-höllinni.  Niðurstaðan verður 3-2 fyrir Val og þjálfari Vals verður „Finnur sem KR vinnur“.

Fréttir
- Auglýsing -