spot_img
HomeFréttirBenni penni: Vill styrkja efniviðinn fremur en árangurinn

Benni penni: Vill styrkja efniviðinn fremur en árangurinn

16:00
{mosimage}

Það er orðið svolítið síðan að maður pikkaði inn pistil hérna á karfan.is en það er orðið lítið um rólegar stundir þar sem maður getur sest niður og bullað aðeins. Allt að fara á fullt í körfunni, bæði í meistaraflokki og hjá yngri flokkunum. Það er óhætt að segja að handboltinn sé að tröllríða þjóðfélaginu eins og það leggur sig þessa dagana. Handboltalandsliðið hefur oft unnið hug þjóðarinnar en aldrei eins mikið og núna enda magnaður árangur sem náðist á Ólympíuleikunum sem verður erfitt að toppa. Frábært lið sem hefur magnaða íþróttamenn innanborðs eins og Ólaf Stefánsson og fleiri.

Það vantar ekki meðbyrinn sem fylgir í kjölfarið. Þá á væntanlega eftir að fjölga aðeins á æfingum hjá yngstu flokkunum hjá þeim félögum sem bjóða upp á handbolta. Svipað og þegar NBA fárið var í körfunni fyrir einum og hálfum áratug síðan. Þá söfnuðu allir NBA myndum af mikilli innlifun. Þá hefur fjárhagslegur ávinningur handboltans vegna þessa frábæra árangurs einnig verið gríðarlegur. Frábært að sjá fyrirtæki og ríkistjórnina taka við sér og moka peningum í Handknattleikssambandið. Að halda úti landsliði kostar mikla peninga ef það á að gera hlutina almennilega. Sérstaklega ánægjulegt að sjá ríkistjórnina loksins styrkja íþróttir veglega. En það á ekki að þurfa verðlaunapening á Ólympíuleikum til að ríkið opni budduna. Það verður að segjast að það fólk sem er öflugt í framapoti og nær ráðherrastól er í flestum tilvikum ekki íþróttasinnað. Auðvitað eru undantekningar þar sem og annars staðar sem sanna regluna. Aftur á móti er þetta

sama fólk það klókt að festa sig sem viðhengi við landsliðið þegar athygli þjóðarinnar er verðskulduð á handboltalandsliðinu. Sá ekki þegar handboltalandsliðið var hyllt niðri í bæ þegar liðið kom til landsins en skilst að hinir og þessir pólitíkusar hafi verið á sviðinu með strákunum og látið eins og þeir hefðu skorað hvert miklvæga markið á eftir öðru.

Það hefur verið þannig hér á landi frá því að ég man eftir mér að afreksfólk hefur fengið styrki þegar það hefur náð góðum árangri. Hef aldrei skilið þá stefnu þó svo að allir styrkir séu góðir. Af hverju ekki að styrkja efnilegt íþróttafólk sem getur hugsanlega orðið öflugt afreksfólk. Það myndi hjálpa efnilegu íþróttafólki gríðarlega að fá styrki og auka líkur þeirra á að ná árangri til muna. Þannig myndum við að mínu mati eignast fleira afreksfólk. Afreksmaður eins og Eiður Smári hefur t.d. ekkert við styrk að gera en margir efnilegir knattspyrnumenn gætu notað góða styrki til að geta bætt sig í mun betra umhverfi. Væri handboltalandsliðið hugsanlega búið að vinna fleiri verðlaun ef HSÍ væri búið að fá tæpar 100 milljónir fyrir löngu síðan? Væru körfuboltalandsliðin komin upp í A-deild ef KKÍ hefði fjármagn til að spila einn og einn æfingaleik svona endrum og eins? Eða hefði efni á því að hafa landsliðsþjálfara í fullu starfi eða launaðan aðstoðarþjálfara? Fengju þessi sömu landslið fleiri góða körfuboltamenn upp ef KKÍ hefði efni á því að senda yngri landsliðin í Evrópukeppnir? Það hefur því miður ekki alltaf verið hægt þrátt fyrir að krakkarnir borgi flugfarið sjálfir því KKÍ hefur þurft að greiða uppihald og fleira. Svona væri hægt að spyrja endalaust og ekki hægt að segja hreint og klárt já en líkurnar væri töluvert meiri. Bara þær forvarnir sem fylgja íþróttum réttalæta það að ríkið og sveitarfélög moki peningum í hreyfinguna. Það er líka dýrt að reka landslið annara greina. Ég trúi því að Ríkið og sveitarfélög moki peningum í önnur sérsambönd sem veitti ekki af smá peningum til að reka sína starfssemi. HSÍ á hverja krónu skilið en það eru fleiri sem þurfa á svona veglegum styrkjum að halda líka. Fyrir mér er það eðlilegt að öll landslið Íslands séu styrkt vegalega af Ríkinu. Landinn gerir kröfur til landsliðanna sinna og því þurfa þau að geta undirbúið sig í samræmi við þær væntingar. Vonandi er því þessi peningamokstur til HSÍ bara byrjunin á einhverju meira.

Eftir frekar rólegt sumar hjá okkur KR-ingum þá kom bomba þegar þeir Jakob Sig. og Jón Arnór ákváðu að vera heima næsta vetur. Ég var búinn að segja í pistli hér að það væru meiri líkur á því að ég yrði lagður inn á spítala vegna gruns um anórexíu heldur en að Jakob myndi spila með KR næsta vetur. Ég þarf greinilega að fara að athuga þetta með anórexíuna. Spegillinn heima hefur augljóslega verið að gefa mér ranga mynd af líkamlegu atgervi. Ekki kom það mönnum síður á óvart að Jón Arnór ætlar að vera heima næsta vetur. Viðurkenni það að þetta kom mér jafn mikið á óvart og öllum öðrum þegar hann tjáði mér þetta. Þykist vita að sumir eru ennþá að meðtak þessa frétt af Jóni. Jón kemur eins og innspíting í deildina alla og frábært fyrir KR að fá að njóta góðs af uppöldum KR-ingum. Það hefur loðað við KR lengi að vera með mikið af aðkomumönnum en næsta vetur verða heimamenn í miklum meirihluta.

Það var snilld að sjá viðbrögð manna á blaðamannafundinum sem var haldinn. Við náðum að halda þessu þokkalega leyndu og misstu margir andlitið þegar Jón Arnór labbaði inn. Það var eins og Valtýr hefði verið að horfa á Inga Þór Steinþórsson labba inn í salinn bara í G-streng og með rautt naglalakk á tánöglunum, slíkur var undrunarsvipurinn. Að sjálfsögðu fóru kenningar á flug um að Jón hafi verið keyptur heim og endalaust til af peningum hjá mafíunni. Án þess að hafa hugmynd um hvort eða hvað hann er að fá þá held ég að launin séu ekki aðalatriðið fyrir kappann. Gæti trúað því að frá því að þú byrjaðir að lesa þennan pistil sé hann svona 50 þúsund krónum ríkari þar sem vextirnir tikka jafnt og þétt inn á bankabókinni. Hef heyrt það að margir ætla að kíkja í DHL höllina í vetur og sjá þessa stráka spila. Grunar að fjöldi kvenkyns stuðningsmanna eigi eftir að aukast. Ef að þessir tveir strákar eru ekki nóg til að fjölga kvenþjóðinni á leikina þá hef ég ráðið Inga Þór vin minn sem aðstoðarþjálfara. Ég vona að þið séuð búin að losa ykkur við myndina í kollinum af Inga í G-strengnum með rauða naglalakkið. Þessi ráðning er líka taktískur leikur hjá mér til að líta betur út á bekknum með allt þetta kvenfólk á leikjunum. Með einn svona þéttan við hliðina á mér er ég eins og gardínustöng í laginu. Það á eftir að vera virkilega hressandi.

{mosimage}
(Valur Orri Valsson)

Sá ungi og efnilegi sem ég tek fyrir að þessu sinni er 14 ára pjakkur og sá yngsti sem ég hef tekið fyrir hingað til. Hann heitir Valur Orri Valsson og er sonur Vals Ingimundarson sem er kominn aftur heim í heiðardalinn til Njarðvíkur. Valur junior er hávaxinn bakvörður sem hefur leikið með Skallagrími undanfarin ár. Hann mun væntanlega leika með Njarðvík í vetur og styrkja sterkan hóp af strákum enn frekar. Valur er með öflugt 3ja stiga skot miðað við aldur og getur sett'ann vel fyrir utan. Á það til að stóla full mikið á langskotin sem er algjör óþarfi því hann er það fjölhæfur leikmaður sem getur gert magt annað. Sendingatæknin er góð og verður hann líklega leikstjórnandi í framtíðinni. Valur er mjög yfirvegaður í leikjum sem ég hef séð með honum, alveg eins og pabbinn var á sínum tíma. Það skemmir ekki fyrir stráknum að vera sonur mestu stigamaskínu sem landinn hefur alið því genin hafa skilað sér og rúmlega það. Körfuboltahæfileikar eru í báðum ættum en mamman er systir Kidda Friðriks. Spái þessum dreng bjartri framtíð ef hann leggur mikið á sig.

Benedikt Guðmundsson

Sjá síðasta pistil frá Benna:

http://www.karfan.is/index.php?option=com_content&task=view&id=7035&Itemid=40

 

Fréttir
- Auglýsing -