spot_img
HomeFréttirBenni penni: Vakinn eldsnemma af manískum iðkanda

Benni penni: Vakinn eldsnemma af manískum iðkanda

13:58
{mosimage}

(Benedikt ræðir m.a. um eljuna í Loga í þessum nýjasta pistli sínum) 

Þá er komið að öðrum pistli frá manni í blessuðu gúrkunni á þessari mögnuðu heimasíðu. Fyrsti pistill slapp í gegnum ritskoðun og hef ég einnig alveg sloppið við neikvæð viðbrögð í Inboxið hjá mér. Kæmi mér reyndar á óvart ef það væri verið að tollera mig á spjallvefum landsins.  

A-landsliðið var að ljúka við tvo æfingaleiki við Litháa ytra og mátti sætta sig við sannfærandi töp eins og við mátti búast. Það er auðvitað alveg týpískt að fyrri leikurinn var sýndur á netinu án þess að ég hefði hugmyndum það og svo þegar ég var búinn að koma mér vel fyrir fyrir framan skjáinn að horfa á seinni leikinn þá var ekkert sýnt. Hversu dæmigert er þetta!  

Leikir við risa í körfuboltaheiminum 

Það sagði við mig forsprakki í körfuknattleikshreyfingunni fyrir ekki svo mörgum árum þegar maður var að þjálfa yngri landsliðin og við áttum lið í A-deild bæði í U16 og U18 karla að það væri mikið betra að vera í B-deild og vera að vinna leiki og fá betri umfjöllun. Það væri eftir því tekið þegar landsliðin væru að vinna en umfjöllunin væri minni og neikvæðari þegar liðin okkar væru að tapa. Ég gæti hreinlega ekki verið meira ósámmála þessum góða manni þó vissulega sé þetta sjónarmið sem snýr að markaðsetningu körfuboltans hér á landi. Fyrir mér snýst þetta ekki um að líta vel útheldur að verðum betri, lærum af þeim sem eru betri en við og tökum framförum. Vissulega "lúkkar" ekki vel að tapa tveimur landsleikjum með tæplega 100 stigum samanlagt. En þvílíkt tækifæri að fá að spila við eina sterkustu þjóð heims. Frábært! Það er ekki hægt í körfubolta að reyna spila upp á 0-0 jafntefli. Lið pakka ekki í vörn og verjast á öllum sínum mönnum eins og gengur og gerist í knattspyrnu þegar getumunur liða er mikill. Þar sér maður undantekningalaust mun veikara liðið pakka í vörn og reyna að tapa ekki stórt. Eitthvað sem Liverpool þarf t.d. að glíma við í hvert skipti sem liðið stígur inn á völl svona til að gefa mönnum skýra mynd af því sem ég er að tala um. Í körfunni er þetta öðruvísi. Þar kemur getumunurinn í ljós á töflunni.  

Stefnan sett á A-deild 

Ég var staddur á EM 2003 og sá Litháa verða Evrópumeistara með miklum glæsibrag. Karfan er þjóðaríþrótt þar í landi og er Litháen sú körfuboltaþjóð sem ég persónulega ber mesta virðingu fyrir því þeir hafa sýnt að lítið land getur náð langt í íþrótt sem er stunduð á heimsvísu. Það búa ekki neinar trilljónir í Litháen enda snýst þetta ekki um magnið heldur gæðin. Reyndar skil ég ekki hvernig KKÍ náði að landa þessum tveimur leikjum. Í körfunni er það því miður þannig að við eigum ekki möguleika að fá bestu þjóðirnar hingað heim t.d. þegar dregið er í riðla fyrir EM eins og gengur og gerist í fótboltanum. Það er búið að getuskipta öllum þjóðum og Ísland þarf að komast upp úr B-deild og þá fara hlutirnar fyrst að gerast. Þá förum við að sjá marga af bestu iðkendum þessarar íþróttar á parketinu hérna heima. Það er vissulega stefnan í næsta verkefni sem hefst í haust.

Algjörlega manískur 

Strákarnir voru svo sannarlega að spila á stóra sviðinu fyrir fullu húsi og örugglega ekkert í vinveittu umhverfi. Þar sem ég sá hvorugan leikinn þá get ég ekki tjáð mig mikið um leikina en það sem vakti athygli mína er stigaskor Loga Gunnarssonar í seinni leiknum. Í honum setti kappinn 23 stig og var að hitta vel. Hlýtur að hafa verið mögnuð frammistaða því svona sterkt körfuboltalið eins og Litháen lætur ekkert einhvern leikmann vaða upp með 20+ stig. Tala nú ekki um í þeirra eigin garði. Maður hefur á svona semi löngum ferli þjálfað nokkra unga drengi og er Logi án vafa sá allra duglegasti sem ég hef þjálfað. Fyrir mér eru þrjár týpur af krökkum sem maður þjálfar. Þeir lötu og metnaðarlausu sem sleppa æfingum og reyna oft að komast undan eða eins auðveldlega frá því sem maður lætur þau gera. Síðan eru samviskusömu krakkarnir sem mæta alltaf á æfingar og eru dugleg. Gera allt sem þeim er lagt fyrir af mikilli samviskusemi og dugnaði. Síðan kemurlang fámennasti hópurinn sem Logi tilheyrir og það eru manísku iðkendurnir. Sleppa aldrei æfingu og æfa síðan annað eins aukalega án þess að nokkur biðji þá um það. Gera allt sem þeir eiga að gera nema þeir margfalda það. Kom fyrir að Logi fór í taugarnar á mér í “denn” þegar hann kom við hjá mér 07.00 um morgunn á degi sem ég var búinn að segja honum að hvíla sig á. Ætlaði allavega pottþétt sjálfur að vera í fríi þann daginn en var rifinn upp í íþróttahús. Var ekki fræðilegur möguleiki á að hann tæki sér eitthvað frí. Það sem hann er búinn að leggja á sig í gegnum tíðina er fáranlegt. Þá hefur hann byggt upp atvinnumannaferil jafnt og þétt og hefur núna skapað sér gott nafn á Spáni. Allir körfuboltamenn vilja komast til Spánar.  

Ólíkir feðgar 

Logi býr yfir gríðarlegri tækni. Þá býr hann yfir ótrúlegum hraða sem ég hef aldrei skilið. Fyrir þá sem ekki vita þá er Logi sonur Gunnars Þorvarðarsonar, fyrirmyndaföðurs og körfuboltagoðsögn í Njarðvíkunum. Ég ólst upp við að horfa á Gunnar spila og ég man alltaf þegar ég horfði á leiki með Njarðvík á þessum tíma að ég hugsaði alltaf með mér: “ég get hoppað miklu hærra en þessi Gunnar”. “Ég er pottþétt miklu fljótari en þessiGunnar.” Gunnar fór þetta nefnilega ekki á hraðanum eða stökkkraftinum heldur notaði hausinn betur en nokkur annar. Engu að síður hef ég aldrei skilið hvaðan Logi hefur þennan hraða og stökkkraft sem hann býr yfir, því ekki kemur hann frá pabbanum. Spurning hvort DNA próf sé orðið of seint. Vissulega hefur Logi gert milljón, billjón tályftur og allar þær æfingar til að auka hraðann og stökkkraftinn en það skýrir ekki þennan gríðarlega hraða. Sagði mér meira að segja einn kennari í Grunnskólanum í Njarðvík að Gunnar væri ennþá eini nemandinn í sögu skólans sem hefði aldrei náð að hoppa yfir pennaveskið sitt. Ólíkari feðga hvað þetta varðar er vart hægt að finna en báðir frábærir leikmenn. Þetta er svona svipað og ef ég væri sonur Calvin Klein eða Hugo Boss. Álíka og hin feimni og hlédrægi Hörður Axel væri sonur Leonce. Sé að þetta stefnir í algjört rugl hjá mér og best að fara að setja punktinn á þessa grein en ég veit að Gunnar fyrirgefur mér þetta allt enda öllu vanur eftir að hafa haft Örvar Kristjánsson inn á gafli hjá sér til fjölda ára.  

{mosimage}
(Ægir Þór)

Skilur menn eftir í reik 

Enda þennan pistil á að taka fyrir eitt okkar mesta efni sem við eigum í dag en það er Ægir Þór Steinarsson og er hann að mörgu leiti líkur  Loga. Eins og Haukur Pálsson,sem ég tók fyrir síðast, þá kemur Ægir einnig úr Fjölni en Ægir er einu ári eldri og er farinn að “krúsa” á götum landsins þar sem hann er nýorðinn 17 ára. Ægir er bakvörður og er sá allra fljótasti sem ég hef nokkurn tíma þjálfað eða hreinlega séð hér á landi. Við erum að tala um pípuhatt og læti eins og Ólafur Ragnar sagði í Næturvaktinni svo eftirminnilega. Ekki nóg með það heldur borðar hann parket, brennir skógúmmí og skilur menn gjörsamlega eftir í reik. Er mesta lagi 4,3 sek. upp í 100 km/kl. Nái hann að auka hraðann örlítið meira getur hann farið að ferðast aftur í tímann. Ægir er með frábæra boltatækni og mjög teknískur yfir höfuð. Hefur alltaf verið mikill skorari en er að þróa sinn leik í að vera meiri leikstjórnandi sem spilar menn uppi. Hefur náð ótrúlegum tökum á leikstjórnandastöðunni en það er fátt erfiðara í körfuknattleik en að færa sig úr því að vera mikill skorari í skotbakvarðastöðu yfir í leikstjórnandann og verða “púra playmaker”. Ægir er sterkur á sál og líkama og einstakur leiðtogi sem drífur alla með sér. Var valinn leikmaður NM í fyrra hjá U16 og leiddi þar Ísland til sigurs sem fyrirliði liðsins. Var valinn í NBA/FIBA búðirnar og stóð sig þar með prýði. Hörku varnarmaður á boltann og lætur ekki neinn vaða yfir sig á varnarhelmingi. Hefur öflugt vopnabúr í sókninni og getur alltaf tekið menn á og búið sér til eigið skot eða fyrir liðsfélagana. Á eftir að láta vita hressilega af sér innan tíðar og er þegar farinn að vekja athygli erlendis.

 

Benedikt Guðmundsson

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -