spot_img
HomeFréttirBenni penni: Þekkti ekki Mark Cuban

Benni penni: Þekkti ekki Mark Cuban

10:44
{mosimage}

 

Það er farið að styttast í að körfuboltinn fari að rúlla á fullu aftur. Þegar maður sér Valsmótið auglýst þá veit maður að haustið er á næsta leyti og alvaran að fara að taka við aftur í boltanum. Núna er tími landsliðanna og verður næstu vikurnar. Kvennalandsliðið var að koma heim af Norðurlandamóti og U16 karla var að halda til Sarajevo í Bosníu. A-landsliðin eru bæði að undirbúa sig á fullu fyrir EM sem hefst um mánaðarmótin næstu og verður gaman að sjá leikina hérna heima.

 
Það fór verulega um mann þegar ég fór að reikna það út að ég væri að hefja mitt 17. ár í þjálfun. Ótrúlegt hvað öll þessi ár hafi flogið og veit ég að það eru margir sem hafa gefið þessari íþrótt mun fleiri ár en ég við hin ýmsu störf innan hreyfingarinnar og yrði þeim klárlega jafn brugðið og mér þegar þeir færu að leggja saman. Það var ekki einu sinni byrjað að kenna sögu í skólum landsins þegar maður byrjaði að þjálfa. Þetta var kallað nútímafræði í þá daga. Nú er maður farinn að hljóma eins og háaldraður maður og best að fara að fjalla um eitthvað annað, en málið er að ég byrjaði bara svo ungur að þjálfa. Vill allavega trúa því sjálfur.
 

 

Íslenskir alvöru sykurpúðar

Ólympíuleikarnir eru í fullum gangi þessa dagana og er þeim gerð góð skil í öllum fjölmiðlum og ljósvökum. Þær fréttir sem hafa fengið mesta umfjöllun og mesta umtalið hér heima eru ekki um framgöngu okkar fólks inn á vellinum heldur áhugi leikmanna körfuboltalandsliðs USA á íslensku stelpunum í Ólympíuþorpinu. Eru sumar hundeltar af stjörnunum enda hefur það verið verst geymda leyndarmál heimsins að íslenska kvenfólkið er það allra huggulegsta sem hægt er að finna. Það er vonandi fyrir bandaríska liðið að leikmennirnir nái að halda einbeitingu allavega svona rétt á meðan liðið er að spila. Vonandi hafa þeir allavega vit á því að setja upp hringina fyrir leiki þar sem konurnar þeirra eru væntanlega að horfa á leikina í beinni í sjónvarpinu. Miðað við hvernig NBA stjörnurnar eru að spila þessa fyrstu leiki þá eru íslensku stelpurnar að hafa góð áhrif á þá. Með spilamennsku eins og þeir sýndu gegn Grikklandi þá eru meiri líkur á að Einar Bárðason endurvekji strákabandið LUXOR með þá Guðjón Þorsteinsson, Inga Þór Steinþórsson, Jóhann Waage og Kidda Friðriks sem meðlimi heldur en að liðið sé að fara að tapa leik á þessum Ólympíuleikum. Reyndar á eftir að reyna aðeins betur á NBA snillingana. Engu að síður myndi ég fara á alla tónleika með þessum LUXOR sykurpúðum.

Það er virkilega gaman fyrir mig eins og svo marga aðra að sjá Kostas Tartsaris spila með gríska landsliðinu á Olympíuleikunum en Kostas var hjá mér í Grindavík tímabilið 1997-1998. Var þar lykilmaður í bikarmeistaraliði aðeins 17 ára gamall. Var algjör hvalreki á fjörur Íslands á sínum tíma en ég þjálfaða kappann í æfingabúðum í New Jersey sumarið 1997. Hann var að spila með 4. deildar liði í Grikklandi og var algjörlega óþekktur. Í dag spilar hann með Phanathiaikos og er að hefja sitt 7 tímabil með þessu moldríka og frábæra liði. Hann hefur örlítið hækkað í launum síðan hann var hér á landi en mig minnir að ég hafi signað hann á $1800- á mánuði. Með Phanathiaikos hefur hann orðið grískur meistari s.l. 6 ár og einnig unnið Euroleague. Hann varð Evrópumeistari með Grikkjum 2005 þannig að það er fátt sem hann á eftir að afreka. Kostas framlengdi núna í vor við Phanathiaikos um 3 ár enda líður honum mjög vel hjá þessum gríska risa. Nokkuð oft hefur hann haft tækifæri á að reyna fyrir sér í NBA en hefur alltaf kosið að vera heima í Grikklandi. Enda þegar maður er búinn að prófa að spila á Íslandi er tilgangslaust að prófa NBA deildina þar sem þessar deildir eru svipaðar. Allavega eru þetta einu deildirnar í heiminum sem eru með launaþak. 

{mosimage}

Mark Cuban eins og niðursetningur

 

Á meðan helstu stjörnur NBA deildarinnar sækjast í vinskap íslenskra kvenna í Peking þá er ýmislegt í gangi bak við tjöldin hjá NBA liðunum. Sum NBA liðin eru að gera fína hluti á meðan önnur eru í tómu rugli. Lengi vel var Los Angeles Clippers það félag sem var verst rekið og eigandi félagsins virtist ekki geta tekið eina góða ákvörðun svo árum skipti. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að Atlanta Hawks sé orðið verst rekna félagið í NBA. Hver glórulausa ákvörðunin tekin síðustu ár og þeir sem stjórna utan vallar virðast varla hæfir til að reka bás í kolaportinu, hvað þá að stjórna og reka svona batteríi sem NBA lið er. Ég rak upp stór augu þegar ég sá frétt um það að Mark Cuban, eigandi Dallas, var að tapa dómsmáli fyrir Don Nelson, fyrrverandi þjálfara Dallas og núverandi þjálfara Golden State. Nelson taldi sig eiga ógreidd laun hjá Dallas og komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Cuban yrði að borga honum litlar 500 milljónir eða hálfan milljarð. Samband þeirra var víst orðið stirt undir það síðasta þegar Nelson þjálfaði Dallas. Cuban er einn óútreiknanlegasti maður á þessari plánetu. Skapsveiflurnar miklar og vill hann vera mikið með puttana í hlutunum hjá Dallas. Efast um að Nelson gamli hafi alltaf verið að kaupa hugmyndir hans. Það veit aldrei á gott þegar stjórnarmenn eða eigendur ætla að fara að segja þjálfurum til. Ég man alltaf eftir því þegar ég var að horfa á æfingu hjá Dallas þegar Jón Arnór var þar og við hliðina á mér stóð lítill og asnalegur kappi sem var í eldgömlum gallabuxum og frekar low budget hlírarbol. Hann var ógeiddur, órakaður og hélt ég að þetta væri einhver á moppunni. Eftir æfinguna fer Jón að tala um að hann hafi séð að það hafi farið vel á með mér og Mark Cuban, eiganda. Ég sagðist ekki hafa hitt Cuban ennþá en þá sagði Jón mér að þetta hafi verið Cuban í hlírarbolnum og ég vissi ekki hvert ég ætlaði. Ótrúlegt eintak sem á sér engan líkan.

 

Nelson gamli var nú ekkert að gefa af sér í íþróttasalnum og var frekar svona grumpy old men. Það var síðan fljótt að breytast þegar hann var búinn að skvetta í sig nokkrum kollum á kúrekastað sem við fórum á. Þar var gamli bullandi í mun, mun yngra kvenfólki og var hrókur alls fagnaðar. Átti reyndar ekki von á að hitta hann þarna þar sem það var leikur við Philadelphia 76ers daginn eftir. Reyndar var sonur hans, Donnie Nelson, eigandi staðarins og því átti sá gamli það til að kíkja inn. Þegar ég mætti með Jóni á létta morgunæfingu daginn eftir þá var sá gamli fyrsti maður á staðinn og sá ekki á honum. Greinilega ekki bara reyndur í körfuboltafræðum. 

{mosimage}
(Björn Kristjánsson)

 

Tek fyrir í lokin efnilega skyttu úr Breiðabliki sem á bjarta framtíð fyrir sér ef hann heldur vel á spilunum. Sá sem umræðir heitir Björn Kristjánsson og er svona annað hjólið í U16 landsliðinu, sem er statt í Bosníu, á eftir Hauki Pálssyni. Ég sagði á kki.is fyrir einhverja bikarúrslitahelgina í yngri flokkunum að Björn væri með mýksta og flottasta skotið í yngri flokkunum öllum og stend ég enn við það í dag. Silkimjúkt skot sem væri hægt að flokka undir list. Björn er skorari fyrst og fremst og þarf að bæta varnarleikinn á næstu árum. Einnig þarf hann að verða mun grimmari á velli. Kemur fyrir að maður heldur hreinlega að drengurinn sé að ganga í svefni þegar hann er að spila eða hafi verið dáleiddur rétt áður en hann gekk inn á völlinn. Það myndi hjálpa honum óhemju ef hann fengi uppskriftina af morgunmatnum hjá Fannari Ólafssyni, leikmanni KR, og Ómari Sævarssyni hjá ÍR. Þessi yfirvegun og rólegheit hjá Birni geta líka verið kostur því hann er algjörlega taugalaus. Ekki til stress né yfirspenna. En smá "killer attitude" myndi gera hann svo mikið betri. Að horfa á hann labba er stundum eins og að horfa á hæga endursýningu í sjónvarpinu. Björn á tvímælalaust eftir að láta að sér kveða í Bosníu og vera áberandi í stigaskoruninni. Ekki vantar metnaðinn hjá stráknum og hann er mjög svo duglegur að æfa yfir sumartímann. Hann á möguleika á að verða virkilega góður í framtíðinni en hversu góður er undir honum sjálfum komið.

 

Benedikt Guðmundsson

 

Sjá hér tvo síðustu pistla Benna:

Benni penni: Leit við á Unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn

 

Benni penni: Man vart eftir öðru eins á leikmannamarkaði
Fréttir
- Auglýsing -