spot_img
HomeFréttirBenni penni: Leit við á Unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn

Benni penni: Leit við á Unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn

13:04
{mosimage}

Ég vona að allir séu búnir að jafna sig eftir verslunarmannahelgina, the dirty weekend eins og einn erlendur leikmaður kallaði þessa ótrúlegu helgi sem hlýtur að vera algjörlega séríslensk. Sjálfur var maður í rólegheitum að vanda. Kíkti til Þorlákshafnar á laugardeginum og þar sveif góður andi yfir vötnum á Unglingalandsmótinu. Gaman að sjá marga af efnilegustu unglingum landsins í hinum og þessum greinum keppa sín á milli og skemmta sér í heilbrigðu umhverfi. Mjög auðvelt fyrir þessa unglinga að falla í þá freistingu að sækja í annars konar skemmtanir sem eru haldnar út um allt land og eru martraðir fyrir marga foreldra, sem bryðja róandi töflur alla helgina. Sjálfur á ég dóttir sem er ekki nema 7 ára en er samt farin að nálgast gelgjuna hættulega hratt. Ég er að sjálfsögðu búinn að skipuleggja mig vel fram í tímann og hef ráðið mig sem vitavörð á mjög svo afskektum stað frá því hún verður 15 ára þar til hún verður 25 ára. Tek mér frí frá þjálfun á meðan en reyni að komast með bát á landsmótin. Þetta er algjörlega skothelt plan hjá mér að mínu mati.

 

Eins og ég sagði þá voru saman komnir margir efnilegir unglingar sem sýndu listir sínar á körfuboltavellinum en hápunktur helgarinnar var þegar fullorðna fólkið fór að keppa sín á milli og það vantaði ekki gæðin, enda mikið um fyrrum leikmenn sem eiga allskyns met í íslenskum körfubolta og marga landsleiki. Ég sá megnið af karlaleiknum en þurfti að halda heim á leið áður en hann kláraðist og sá ekki neitt af kvennaleiknum. Það var ljóst strax í upphitun á karlaleiknum að þrátt fyrir svokallaða kreppu á Íslandi í dag og allir að halda að sér höndum þá er greinilega ekkert sparað hjá þessum bumbuleikmönnum þegar kemur að því að fá sé grill. Þó ég geti ekki fullyrt það þá sýndist mér á hollingunni á sumum að þeir hafi fjárfest í Mega 7000 turbo grillinu og notað það grimmt. Yrði erfitt fyrir suma að þræta fyrir það að hafa grillað "einstaka sinnum" yfir veturinn líka. Þá legg til að einverjir taki sig saman og gefi Tomma Holton grill. Gengur ekki að hann sé alltaf í topp formi. Hann getur ekki verið löglegur í bumbubolta í svona góðu ásigkomulagi. Fyrir þá sem ekki vita þá er Tómas stóri bróðir Paris Holton sem er fræg fyrir eiginlega ekki neitt en greinilegt að þau systkinin eru alin upp á sama heilsufæðinu.  


Grundafjörður paradís á jörðu

 

Það voru nokkrir leikmenn sem vöktu athygli fyrir öfluga takta. Maður leiddi hugann að því um tíma hvort Fjölnir hefði haldið sér uppi ef Bárður Eyþórsson, þjálfari liðsins, hefði skellt sér í búning síðasta vetur og spilað einn til tvo leikhluta í leik. Fannst hann aldrei klikka úr skoti og hefur greinilega engu gleymt. Tala nú ekki um ef hann hefði fengið Tomma Holton með sér til að mata sig. Efa það að gamli refurinn úr Keflavík, Albert Óskarsson, verði með á næsta ári. Það var ljóst snemma í leiknum að menn ætluðu að borga fyrir gömul olnbogaskot frá því í denn því menn tóku vel á Alberti. Sem dæmi tóku þeir Tómas Holton og Valur Ingimundarson sig til og bombuðu boltanum í andlitið á Alberti með stuttu millibili. Fyrir þá sem ekki muna eftir Alberti þá var hann lykilmaður og sá sem batt saman sigursælt Keflavíkurlið seint á síðustu öld. Leikmaður sem allir þjálfarar vilja hafa í sínu liði. Næsta unglingalandsmót verður skilst mér á Grundarfirði og hvet ég alla til að mæta þangað. Grundafjörður er kannski ekki þekktasti staður landsins en þessi staður hefur alltaf verið fastur í kollinum á mér í ansi mörg ár. Ég var að þjálfa 8. flokk hjá KR fyrir mörgum árum síðan þegar pattaralegur piltur kemur á æfingu til mín og segist heita Hlynur Bæringsson og vera nýfluttur til Reykjavíkur frá Grundafirði. Í marga mánuði á eftir fékk maður að heyra sögur frá Grundafirði og miðað við þær sögur þá er þessi staður ein mesta paradís á jörðu. Inn á milli komu hetjusögur þegar hann skoraði 50 gegn Ólafsvík. En Grundafjörður vs Ólafsvík voru klárlega miklir nágrannaslagir á þessum tíma. Held að Hlynur telji 50 stiga leikinn gegn Ólafsvík enn í dag sitt mesta afrek á körfuboltavellinum.

 

Kanar á frímiða

 

Eins og svo margir kollegar mínir í meistaraflokksþjálfun þá er maður að leita af Kana fyrir veturinn. Samskiptast við umboðsmenn, skoða diska og spólur, hringja út um allan heim og spyrja út í hina og þessa leikmenn sem manni bjóðast. Eins og staðan í þjóðfélaginu er í dag er ljóst að íþróttalið hér á landi þurfa að fara varlega í erlendar fjárfestingar. Sponserar allir að skera niður styrki og það bitnar á allri íþróttahreyfingunni. Væntanlega erum við þjálfarnir allir að leita af leikmanni sem er tilbúinn að spila fyrir nánast ekki neitt. Einnig þarf hann að þekkja einhvern á Íslandi sem hann getur búið hjá og á ættingja hjá flugfélagi sem veitir honum frímiða. Engu að síður gerum við þá kröfu að hann sé dúndur leikmaður sem skorar ekki minna en 40 stig og klárar leiki í lokin. 

 

Stórfréttir af félagaskiptum hafa verið að berast undanfarið bæði hér heima og erlendis. Fyrir utan að Kolbeinn Soffíuson verður ekki með Val næsta tímabil þá voru þrjú ungstyrni að skrifa undir samning erlendis. Þeir Pavel Ermolinski og Hörður Axel Vilhjálmsson eru á leið í LEB Gold deildina á Spáni. Frábært að lið í svona sterkri deild skuli hafa áhuga á okkar efnilegustu leikmönnum. Þá er Jóhann Ólafsson á leið í Pro B deildina í Þýskalandi. Ég er handviss um að Jóhann eigi eftir að eiga dúndur tímabil þar og verði með tilboð frá deildum á Spáni og annars staðar eftir tímabilið. 

Í NBA eru nokkrir leikmenn búnir að skipta um póstnúmer. Það eru nokkur skipti sem náðu athygli minni svo um munar. Ég held að það sé ljóst að Baron Davis fær titilinn kjáni sumarsins 2008 án keppni. Kappinn ákvað að skilja við Golden State og fara til Los Angeles Clippers. Ástæðuna sagði hann vera að honum langaði að spila með Elton Brand. Það varð strax ljóst að áhuginn hjá Brand var langt frá því að vera gagnkvæmur því hann forðaði sér í einum grænum eins langt og hann gat eða alla leið yfir á Austurströndina til 76ers. Heyrst hefur líka að tveir boltastrákar hjá Clippers séu að hugsa um að finna sér nýtt lið áður en Davis kemur til félagsins ásamt öðrum starfsmönnum Clippers. Eftir stendur Davis eins og kleina og fer ekki mikið fyrir honum í fjölmiðlum þessa dagana. Þá losuðu Denver Nuggets sig við Marcus Camby. Ástæðan hlýtur að vera að hann spilaði alltof góða vörn og í Denver komast menn ekkert upp með svoleiðis rugl. Í Denver snýst körfubolti um sóknarleik og ekkert annað. Camby hefur verið valinn besti varnarmaður deildinnar og  margsinnis verið valinn í varnarlið ársins hjá NBA. Það var því var ekkert annað í stöðunni fyrir Denvar en að losa sig við hann. Mælirinn var hreinlega bara orðinn fullur hjá forráðamönnum félagsins og þolinmæðin þrotin.

Dýrustu sætin uppi í rjáfum

Þá er vandræðagemsinn Ron Artest á leið til Houston Rockets eftir frekar stutta dvöl í Sacramento. Það muna allir eftir Artes frá slagsmálunum frægu þegar hann og þáverandi félagar hans í Indiana Pacers voru að spila við Detroit um árið. Artest var dæmdur í bann í tæpt ár í kjölfarið þar sem hann réðst á áhorfanda. Þegar hann var búinn að afplána bannið var hann sendur til Sacramento og nú vilja menn þar ekkert með hann hafa enda getur kappinn reynt á þolinmæði manna. Það er ekki hægt að draga í efa að Artest er frábær leikmaður, sérstaklega varnarlega. Hann mun hjálpa Houston liðinu mikið ef hann sættir sig við að vera þriðja hjólið á eftir Yao Ming og Tracy McGrady. Á móti hafa menn áhyggjur af honum svona dags daglega því hann er óútreiknanlegur innan sem utan vallar. Hann var orðinn það óvinsæll í Sacramento að meira að segja klappstýrurnar, sem eru í því hlutverki að peppa menn upp og fá stemningu í kofann, voru farnar að púa á Artest í leikjum. Það segir manni ýmislegt um andrúmsloftið í kringum kappann. Núna verður hægt að fá miða við völlinn í Houston á spott prís. En þar sem Artest spilar er þetta öfugt en hjá öðrum liðum. Hjá Houston verða dýrustu miðarnir efst upp í rjáfum og ódýrustu við völlinn. Skýringin er auðvitað sú að öryggi áhorfenda er mest eins langt frá vellinum og hægt er. Artest nennir ekkert að hlaupa alla leið lengst upp til að lumbra á einhverjum á meðan þeir við völlinn eru í miklum áhættuhópi. T.d voru 7 fremstu raðirnar í höllinni hjá Sacramento oft tómar á meðan uppselt var í sætaraðir 30-60. Ég myndi allavega ekki treysta mér í sæti court side nema hafa meðlimi Mercedes Club með mér á leiknum.

 

{mosimage}

(Tómas Tómasson)

 

Stundaði feluleiki

Enda þetta á einum efnilegum eins og alltaf. Tek fram að þessir efnilegu krakkar sem ég tek fyrir koma ekkert í neinni sérstakri röð heldur bara eftir því hvern mér dettur í hug að taka fyrir hverju sinni. Það er viðeigandi að taka fyrir í þetta skiptið Tómas Heiðar Tómasson en hann er sonur títtnefnds Tómasar Holton og er fæddur 1991. Tómas junior kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu en mamman er fyrrverandi landsliðskonan Anna Björk Bjarnadóttir. Tómas hefur verið að blómstra síðasta árið og er loksins farinn að fatta hversu góður hann er. Lengi vel dró hann sig til hlés í leikjum og var oft bara í felum í ansi mörgum leikjum. Þó það sé vissulega gaman í feluleik þá er kannski ekki sniðugt að vera í feluleik þegar mikilvægur körfuboltaleikur er í gangi. Virkilega gaman að sjá Tómas vera hættan að vera hlédrægan og feiminn í leikjum. Strákurinn ól manninn lengi vel í Noregi og flutti á klakann fyrir einum 4 árum síðan. Hann hefur verið að glíma við meiðsli oft og tíðum en þegar hann er 100% heill er fátt sem getur stöðvað drenginn. Frábært skotmaður sem manni finnst alltaf hitta. Tekur bara góð skot og þröngvar aldrei skoti. Er farinn að keyra sterkt á körfuna og klárar vel og sterkt þegar hann ræðst á hana. Getur spilað skotbakvörð eða leikstjórnanda. Það hefur verið að togna vel úr honum síðustu ár og vonandi er hann ekki hættur að stækka. Gríðarlega heilsteyptur strákur og vinnusamur. Tómas hefur verið að taka fram úr mörgum jafnöldrum sínum í getu og spilar hugarfarsbreyting þar stóran þátt. Tæknilega góður og óeigingjarn með eindæmum. Vantar ennþá aðeins meiri grimmd og trú á sjálfan sig. Þegar drápseðlið kemur þá fara hlutirnir fyrst að gerast hjá kauða.

Benedikt Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -