spot_img
HomeFréttirBenni penni: Hver verður fyrst í WNBA?

Benni penni: Hver verður fyrst í WNBA?

11:00
{mosimage}

(Benni telur að Helena eigi góðar líkur á því að ná inn í WNBA deildina) 

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld sungu þau Eiki Hauks, Helga Möller og Pálmi Gunnfyrir hönd Íslands í Eurovison fyrir mörgum árum síðan og er þessi texti hverju orðisannari og jaðrar við að flokkast undir þvílíka heimsspeki í dag. Þetta sumar hefur liðið fáránlega hratt og ég trúi hreinlega ekki að sumarfríið mitt sé búið.

  Eins og svo margir Íslendingar á besta aldri þá þurfti maður að taka sumarfrí á meðan leikskólarnir eru lokaðir vegna sumarleyfa. Annað en félagarnir á skrifstofu KKÍ sem taka sitt á meðan mötuneytið í húsinu er lokað vegna sumarleyfa.  Ég talaði um í síðasta pistli að margir af bestu leikmönnunum í heiminum í dag eru farnir að hafna NBA samningum og semja við lið í Evrópu þar sem t.d. launin í Evrópu eru orðin þvílíkt há og þar fá menn stærra hlutverk. Oftast á þetta við leikmenn sem koma ekki frá Bandaríkjunum en núna berast fréttir af því að Josh Childress, leikmaður Atlanta, hefur ákveðið að yfirgefa NBA liðið og spila í Grikklandi með Olympiakos. Í þessu tilfelli er varla hægt að tala um einhvern minni spámann sem er að yfirgefa NBA deildina heldur einn af lykilmönnum Atlanta. Þetta er klárlega áfall fyrir NBA deildina en á móti klárlega að sama skapi viðurkenning fyrir Evrópuboltann. Kæmi mér alls ekki á óvart að fleiri Kanar myndu fylgja í kjölfarið. 


Peningar eða Hummer

 

Þessi frétt kemur nánast strax í kjölfar fréttar af einum efnilegasta leikamanni High school boltans í Bandaríkjunum, Brandon Jennings, sem ákvað að fara ekki í háskólaboltann og fara beint í atvinnumennsku til Ítalíu og spila með Jóni Arnóri og félögum í Roma. NBA hefur sett reglu að leikmenn mega ekki lengur fara beint úr high school í NBA eins og leikmenn á við Kobe Bryant, Kevin Garnett og fleiri undrabörn hafa gert. Leikmenn úr High school þurfa í dag að taka eitt ár í háskólaboltanum áður en þeir verða gjaldgengir í NBA deildinni. Það var allavega "plottið" þegar þessi regla var sett. Held að David Stern og félagar hafi ekki áttað sig á því að núna taka þessi undrabörn fekar eitt ár í Evrópu og ná sér í 100+ milljónir í leiðinni í stað þess að spila fyrir ekki neitt í háskóla. Fyrir svona upphæðir væri ég tilbúinn að hætta í þjálfun og fara í pils og gerast klappstýra hvar sem er í heiminum. Það er kannski ekki hægt að segja að allir leikmenn í háskólaboltanum spili frítt því margir af þessum bestu High school leikmönnum fá greitt á einn eða annan hátt í háskóla þrátt fyrir að það sé stranglega bannað. Erfitt fyrir menn að stoppa það þar sem velunnarar háskólanna hafa fundið allskyns leiðir til að borga þessum strákum eða gefa þeim Hummer eða hvað sem þeir vilja. T.d. eru þessir leikmenn látnir vinna á matsölustað og velunnarar skólans sem þeir spila fyrir koma og fá sér 1000- krónu máltíð og "tipsa" síðan leikmanninn um 20.000- krónur. Erfitt fyrir stjórn háskólaboltans að koma í veg fyrir þetta. Engu að síður verða svona greiðslur aldrei nálægt þeim launum sem þeir fá hjá bestu og ríkustu liðinum í Evrópu og því líklegt að Brandon Jennings sé bara sá fyrsti af mörgum. Enginn lærdómur og fúlgur af seðlum. Getur varla hljómað betur í eyrum unglings. Eina sem þeir þurfa kunna er hvað séu mörg núll í hundrað milljónum og hve mörg í billjón.

 

Það er oft menningasjokk fyrir Kana að koma til Evrópu til að byrja með þar sem þessir leikmenn koma frá mismunandi uppeldisaðstæðum. Sé fyrir mér menningasjokkið þeirra sem hefja atvinnumannaferilinn t.d. í Ástralíu eða Nýja Sjálandi þar sem kengúrur og krókódílar eru nánast gæludýr fólks eins og kettir og hundar hér heima. Reyndar kannski gaman fyrir suma Kanana að hitta loksins einhvern sem hoppar jafn hátt og þeir en sumir líklegir til að fara sér að voða í kringum krókódíl þar sem einhverjir væru vísir til að halda að þetta væri La Coste svefnpoki.

 

Hver verður fyrst í WNBA?

 

Ég hélt að ég yrði ekki eldri þegar sá frétt af slagsmálum í kvennadeild NBA sem jafnan gengur undir nafninu WNBA. Fyrr átti ég von á að sjá Kidda Friðriks vinna troðslukeppnina hér heima áður en ég sæi slagsmál í WNBA. Reyndar þegar ég sá þjálfaateymið hjá öðru liðinu þá var ég ekki eins hissa og fyrst. Þarna voru þeir félagarnir Bill Laimbeer og Rick Mahorn sem léku með Detroit Pistons á árum áður þegar Detroit liðið gekk undir nafninu "vondu strákarnir". Þar voru þeir félagar fremstir í flokki og voru algjörir villingar og fengu örugglega á sig samanlagt yfir 2000 ásetningvillur. Svona atvik vekja þó alltaf mikla athygli og þrátt fyrir að þetta hafi nú verið ágætlega saklaust þá á þetta eftir að auka áhuga á WNBA eins fáránlega og það hljómar. Við Íslendingar höfum átt tvo leikmenn í NBA, þá Pétur Guðmundsson og Jón Arnór Stefánsson. Fyrir mér er ekki spurning hvort heldur hvenær við eignumst leikmann í WNBA. Án þess að ég vilji setja pressa á hana þá tel ég Helenu Sverrisdóttur eiga raunhæfan möguleika. Nú ef það tekst ekki þá verður hún klárlega atvinnumaður í Evrópu í topp deild. Rökin sem ég tel mig hafa fyir þessu eru einaldlega frammistaða hennar í vetur hjá Texas Christian háskólanum, eða TCU eins og skólinn er kallaður.

 

 

TCU hefur verið í fremstu röð í 7-8 ár í kvennaboltanum úti. Leikmenn úr þessum skóla hafa farið í WNBA. T.d. fór einn liðsfélagi Helenu í WNBA núna í sumar. Sú stelpa var með 14 stig í leik. Helena var með tæp 10 stig í leik á sínu fyrsta ári af fjórum og eins og fólk veit þá eru stigin bara einn hluti af hennar leik því hún gerir svo margt annað. Ef hún heldur áfram að taka framförum á næstu 3 árum þá er nokkuð ljóst að tölfræði hennar á bara eftir að vera hærri. Eftir þessa fammistöðu hennar í vetur var hún að sjálfsögðu valinn nýliði ársins í riðlinum. Aðeins einn nýliði hjá TCU hefur skorað svipað og Helena en sú stelpa er einmitt að spila líka í WNBA. Í versta falli getur hún tekið sig til og stofnað til slagsmála einu sinni til tvisvar á lokaárinu sínu og þá verður hún pottþétt valin í 1. umferð af þeim Bill Laimbeer og Rick MaHorn til Detroit Shock. Var einmitt um daginn að rifja það upp þegar Helena var að spila í efstu deild 14 ára að verða 15. Hún var ekki bara í liðinu hjá Haukum svona ung heldur var hún með rúm 17 stig í leik, rúm 9 fráköst, rúmar 4 stoðsendingar og rétt tæpa 4 stolna bolta í leik. Fáranlegar tölur fyrir nýfermda stúlku sem er rétt byrjuð að eyða fermingapeningunum. 


{mosimage}
Þrælefnileg úr Hólminum

 

Loka þessum pistli á einni mjög svo efnilegri stelpu sem ég hef mikla trú á en kannski ekki margir þekkja. Það hefur ekki farið mikið fyrir henni þar sem hún hefur ekki verið í liði sem hefur verið að vinna titla eða spila úrslitaleiki. Hún kemur úr Stykkishólmi og heitir Berglind Gunnarsdóttir. Berglind er fædd 1993 og fékk mikið í vöggugjöf sem á eftir að hjálpa henni að ná langt í körfubolta ef hún leggur mikið á sig á næstu árum. Ég hrinti af stað fyrir mörgum árum Úrvalsbúðum KKÍ eftir miklar pælingar hjá mér og Pétri Hrafni, þáverandi framkvæmdarstjóra KKÍ, og stýrði ég þeim þar til í sumar. Á þessum árum höfum við látið þrjár stelpur æfa með strákunum og er Berglind ein af þeim. Hún stóð ekki bara vel með strákunum heldur var með þeim betri á æfingunum. Því miður hefur Berglind ekki haft tök á því að æfa með elítuhópi sem æfir 4 tíma á dag yfir sumarið til að rækta hæfileika sína enn frekar. En verði hún dugleg að æfa á næstu árum undir styrkri leiðsögn hefur hún kost á því að verða virkilega góð. Meiri tækni og aukinn leikskilningur myndi opna óendanlega möguleika. Margir krakkar toppa 15, 16 eða 17 ára vegna þess að líkaminn býður ekki upp á meiri framfarir. Sömu krakkar eru kannski bestir upp alla yngri flokkana en lenda síðan á vegg. Berglind er alls ekki besti 15 ára krakki sem ég hef séð spila körfubolta hér á landi en hún hefur svo mikinn "potential". Þrátt fyrir að vera 15 ára komst hún í U16 sem var að vinna C-deildina fyrir stuttu síðan og er viðeigandi að enda þetta á hamingjuóskum til stelpnanna og allra sem komu að liðinu.

 

Bendikt Guðmundsson
{mosimage}

 

Sjá eldri pistla hjá Benna:

Pistill 1

Pistill 2

Pistill 3

 

Samsett mynd: [email protected]

Mynd af Berglindi: Snorri Örn Arnaldsson

Mynd af Helenu: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -