„Ég var að rifja það upp í dag þegar við kláruðum 1. deild með Þór Þorlákshöfn þá var febrúar svo þetta er ekkert svakalega seint hjá okkur núna. Við lögðum samt áherslu á að klára þetta sem fyrst,“ sagði Benedikt Rúnar Guðmundsson þjálfari Þórs á Akureyri við Karfan.is í kvöld. Þór Akureyri tryggði sér sæti í Domino´s-deildinni á næstu leiktíð með öruggum sigri gegn Hamri í kvöld.
„Í kvöld voru þetta tveir ólíkir hálfleikar hjá okkur, við fáum 52 stig á okkur í fyrri hálfleik og vorum þvílíkt flatir en förum að spila vörn í seinni hálfleik og tökum hann nokkuð örugglega. Við höfum verið mjög góðir eftir áramót enda vissum við að það tæki smá tíma að búa til lið. Við höfum verið töluvert betri eftir jól heldur en á fyrri hlutanum. Við vorum bara alveg rólegir þó við hefðum tapað einhverjum leikjum þarna til að byrja með,“ sagði Benedikt en er hann farinn að leiða hugann eitthvað að úrvalsdeildinni?
„Maður fer örugglega eitthvað að „brainstorma“ með það fljótlega en ekki alveg strax. Við klárum þetta mót svo það er nægur tími enda síðasti leikurinn okkar 18. mars og við leggjum mikla áherslu á að vinna hann og fá sigurlaunin afhent á heimavelli eftir sigur!“
Við slepptum Benna ekki svo glöggt, inntum hann eftir því hvort einhverjar meiriháttar breytingar yrðu væntanlegar á liði Þórs í sumrinu. Hann hefur eina að tvær fjörur sopið á ferlinum og sagði:
„Ég er orðinn svo gamall og búinn að vera svo lengi í þessu að ég leyfi mér varla að hugsa hvað verður, fyrst fer ég bara upp með liðið og svo fer maður bara að spá í þessu. Það getur verið að einhverjir aðrir séu byrjaðir að velta þessu fyrir sér en ég drep þessa umræðu í hvert skipti sem einver ætlar að taka hana upp.“
Þór er í það minnsta komið í úrvalsdeild og fyrir vikið leyfðum við Benna að velja sér óskalag og það stóð ekki á svörunum hjá kallinum, Wild Thing með Sam Kinison, hvað annað, njótið vel Þórsarar:



