13:05
{mosimage}
(Benedikt Guðmundsson)
Deildarmeistarar KR fá Grindavík í heimsókn í dag kl. 16:00 í fyrsta leik liðanna í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. Karfan.is ræddi stuttlega við Benedikt Guðmundsson þjálfara KR sem ætlar að leggja alla áherslu á vörnina í þessu einvígi því Grindavík hafi óendanlegt vopnabúr sóknarlega.
Er hægt að segja að það hafi verið fyrirsjáanlegt að KR og Grindavík myndu leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn?
Þetta er þau tvö lið sem hafa spilað jafn best allt tímabilið og kannski ekki óvænt að þau spili til úrslita. Eftir að önnur lið fóru að styrkja sig verulega fyrir lokasprettinn þá fannst mér reyndar allt opnast uppá gátt.
Við hverju býst þú frá Grindavík, hvernig munu þeir leggja upp sinn leik gegn ykkur?
Við erum búnir að undirbúa okkar fyrir sitt lítið af hverju sem við búumst við frá þeim án þess að fara nánar í það hér.
Staðan á KR hópnum, allir heilir og klárir?
Menn eru að glíma við hin og þessi meiðsli eins og gengur og gerist hjá öllum liðum. Menn hrista það auðvitað af sér á þessum tímapunkti og geta síðan notað vorið og sumarið til að ná sér góðum.
Hversu mikið hjálpar heimavöllurinn í þessu einvígi?
Það er ómögulegt að segja og á bara eftir að koma í ljós. Heimavöllurinn einn og sér gerir engin kraftaverk fyrir liðin heldur er það spilamennskan inn á vellinum sem ræður úrslitum. Bæði lið geta hæglega unnið hvort annað á útivelli með topp leik.
Þar sem tvö sterkustu liðin eru að mætast í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn fá áhorfendur þá varnarsinnuð lið inn á gólfið eða verður þetta rjómalöguð veisla?
Þar sem apríl er heilsumánuður hjá mér eftir mikið sukk á Eldsmiðjunni í mars þá verð ég ekki með neitt rjómalagað og á von á mikilli varnarbaráttu. Varnarsinnuð barátta hentar okkar betur og komum við til með að leggja alla áherslu á vörnina. Við gerum okkur samt grein fyrir því að við erum að glíma við lið sem hefur óendanlegt vopnabúr sóknarlega og því er þetta mest krefjandi verkefni varnarlega sem við höfum fengið í vetur. Fyrir mér ræðst þetta á vörninni hjá okkur og réttu hugafari.