spot_img
HomeFréttirBenedikt: Hef mikla trú á þessum strákum

Benedikt: Hef mikla trú á þessum strákum

Þór Þórlákshöfn vann í kvöld mikinn slag gegn Valsmönnum í Domino´s deild karla. Sigur Þórs var mikilvægur fyrir baráttu þeirra í deildinni og athyglisverður fyrir sakir fjarveru Mike Cook Jr.og Baldurs Þórs Ragnarssonar sem tóku út leikbann.
 
 
,,Í ljósi aðstæðna er ég virkilega sáttur að hafa unnið þennan leik,“ sagði Benedikt og var vitaskuld sáttur með frammistöðu Tómasar Heiðars Tómassonar sem fór mikinn í síðari hálfleik. ,,Tommi snýr leiknum við í þriðja leikhluta og fór fyrir liðinu í bæði vörn og sókn, hann var að stela boltum og fara í ,,break away layup“ og setja þvílíka þrista sem færðu okkur úr 12 undir í 7 yfir. Tómas getur þetta allt, það er blússandi talent í honum og nú bara fáumvið hann til að vera meira ,,cocky“ og rækta drápseðlið, hann er afar hæfileikaríkur og þarf að gera sér grein fyrir því.“
 
Aðspurður um möguleika liðsins á því að komast ofar í töflunni sagði Benedikt: ,,Ég er voðalega lítið að krúnka í stöðutöflunni hverju sinni. Ég sagði fyrir tímabilið að þetta snérist um að koma mönnum yfir þennan þröskuld að hætta að vera efnilegir og fara að verða góðir. Ég er ánægður með það í kvöld að það detta út sterkir póstar en koma inn guttar eins og Halldór Garðar sem er 16 ára og er í byrjunarliðinu og á alveg hörku leik. Svona hlutir eru aðalmálið í vetur fyrir mig og Þór, að aðstoðamenn í að fara úr því að vera efnilegir í að vera góðir. Við erum samt í hörku baráttu í deildinni við nokkur lið í kringum okkur og viljum auðvitað vera eins ofarlega og mögulegt er,“ sagði Benedikt sem nú eins og aðrir þjálfarar í deildinni er á leið inn í síðustu umferðir deildarkeppninnar.
 
,,Það er fáránlega lítið eftir og þetta líður fáránlega hratt, nú er lokaspretturinn bara að fara að byrja. Þetta snýst ekkert endilega um í hvaða sæti maður lendir, maður vill fá liðið á góðan stað spilalega á þessum árstíma. Við höfum fengið síðustu mánuði til að undirbúa okkur fyrir þennan tíma til að geta gert eitthvað á lokasprettinum, í sjálfri úrslitakeppninni. Ég er bjartur á framhaldið með hliðsjón af Keflavíkurleiknum og leiknum núna í kvöld, ég hef mikla trú á þessum strákum og þeir geta vel valdið usla.“
 
  
Fréttir
- Auglýsing -