spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2021Benedikt Guðmundsson: Ætlar að verða veitingahúsagagnrýnandi

Benedikt Guðmundsson: Ætlar að verða veitingahúsagagnrýnandi

Benedikt Guðmundsson hefur lengi staðið körfuboltavaktina sem þjálfari – og það með miklum sóma; titlarnir eru orðnir fjölmargir og þá hefur hann verið kosinn fjórum sinnum þjálfari ársins – tvisvar í úrvalsdeild karla og tvisvar í úrvalsdeild kvenna. Í dag þjálfar Benedikt, sem er uppalinn KR-ingur, íslenska kvennalandsliðið og yngri flokka hjá Fjölni ásamt því að vera einn af sérfræðingunum í Domino´s Körfuboltakvöldi. Körfunni þótti tilvalið að fara yfir málin með Benedikt.

Það er við hæfi að byrja á því að spyrja Benna, eins og hann er alltaf kallaður, hvernig það hafi komið til að hann byrjaði að þjálfa og hvað það sé sem gerir starfið spennandi?

„Það var mikil tilviljun að ég leiddist út í þjálfun á sínum tíma. Eins og svo oft þá vantaði yngri flokka þjálfara og ég var að koma heim úr skóla í Bandaríkjunum og það var leitað til mín. Ég var aðeins búinn að leysa af áður og fannst þetta mjög skemmtilegt. Ég fann mig mjög vel í þessu og hef verið í þessu harki síðan. Þetta hentar svona spennufíkli eins og mér mjög vel,“ segir Benni sem hefur þjálfað yngri flokka og meistaraflokka hjá báðum kynjum og unnið allt sem hægt er að vinna.

Er munur á því að þjálfa karlaflokk og kvennaflokk?

„Í raun þá þjálfa ég bæði kyn svo sem alveg eins en auðvitað er smá munur. Þetta er ekki alveg sami leikurinn en það skiptir mig engu hvort ég þjálfa konur eða karla á meðan hópurinn er metnaðarfullur. Það verður að vera metnaður. Ef maður elskar þessa íþrótt, sem ég svo sannarlega geri, þá er maður lítið að spá í hvort maður sé að þjálfa karla, konur eða börn. Það er bara þannig.“ 

Segðu mér aðeins frá þjálfunaraðferðum þínum.

„Þær hafa breyst og þróast mikið á þessum langa ferli; ég er alltaf að læra og verða betri. Svo er leikurinn líka alltaf að breytast og þróast. Með hækkandi aldri og þroska þá hef róast mikið, en ég er auðvitað alltaf með ákveðnar hugmyndir um leikstíl; aðlaga þær síðan eftir hvað hentar því liði sem maður þjálfar hverju sinni; en ég vil helst hafa gott tempó og nýta hraða og tækni eins og kostur er.“

Hvernig heldur þú þér við sem þjálfari?

„Ég er alltaf að reyna verða betri og betri í þessu fræðum, og sæki mikið námskeið bæði hér heima og erlendis. Svo horfir ég mikið á leiki í hinum og þessum deildum. Þá lærir maður alltaf eitthvað með þvi að vera í sambandi við aðra þjálfara, leikmenn eða bara með því að ræða við fólk í hreyfingunni.“

Benni er í fullu starfi sem þjálfari og „er bara ofboðslega þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa við áhugamálið.“ Hann nefnir að það þurfi að „þjálfa mikið til að ná að gera þjálfun hér á Íslandi að fullu starfi,“ og það hefur Benni gert í langan tíma með glans.

„Það er alla vega nóg að gera og þetta er þannig starf að þú ert alltaf með hugann við það. Þó svo þú eigir frídag þá ertu samt að hugsa um hvernig þú getir bætt hitt og þetta hjá liðunum sem þú ert með hverju sinni.“

Ég skipti um gír og spyr Benna hver sé besti leikmaður allra tíma hér heima og á heimsvísu. Hann er lítt hrifinn af þessum gír.

„Bestur allra tíma umræða er eitthvað sem ég nenni ekki. Það er vonlaust að bera saman leikmenn sem spiluðu ekki á sama tíma. Jón Arnór Stefánsson hefur verið bestur í þau tuttugu ár sem hann hefur spilað í meistaraflokki og Pétur Guðmundsson á undan honum. Martin Hermannsson er svo næsti kóngurinn á eftir þeim. Ég skil til dæmis ekki hvernig menn nenna að bera saman Lebron James og Michael Jordan.“

Ekki orð meira um það, en samt þó – ég verð að spyrja: Áttu þér uppáhaldslið í NBA og uppáhaldsleikmann?

„Alltaf þegar ég er spurður að þessu þá verð ég hálf asnalegur því ég á ekkert uppáhaldslið í NBA deildinni. Þegar ég var barn og unglingur þá átti ég minn uppáhaldsleikmann og hélt með því liði sem hann var í. Sá heitir Dominique Wilkins og lék með Atlanta Hawks á sínum tíma. Síðan hélt ég með Dallas Mavericks þegar Jón Arnór var hjá þeim og má kannski segja að ég haldi enn smá með þeim; aðallega fyrir að hafa gefið Jóni tækifæri og „trítað“ mig vel þegar ég heimsótti Jón í Dallas. Svo er ég líka mikill aðdáandi Luka Doncic, þannig að ég vona að honum og Dallas Mavericks gangi vel. Svo gæti þetta breyst ef einhver af okkar flottu strákum kemst á samning hjá NBA liði. Þá myndi bætast við harður stuðningsmaður þess liðs sem myndi semja við einhvern af þeim.“

Hvað með aðrar íþróttir, áttu þér til dæmis uppáhaldslið í enska boltanum?

„Ég fylgist vel með flestum íþróttum; í enska boltanum er ég stuðningsmaður Liverpool. Reyni að ná öllum leikjum liðsins en það tekst því miður ekki alltaf vegna þjálfunarstarfsins sem er mikið um kvöld og helgar. Svo hefur maður náð að skjótast út á leiki og þegar ég fer að hugsa það þá er allt of langt síðan ég fór á Anfield – þannig að það er kominn tími á ferð þangað held ég um leið og það má.“ 

Flestir sem ná því að vinna við aðaláhugamál sitt eru eðlilega sáttir og þakklátir fyrir það. Benni er einn af þeim, en hann á sér þó önnur áhugamál, og eitt þeirra er óneitanlega athyglisvert – Benni kemur á óvart.

„Mitt helsta áhugamál er auðvitað körfubolti og íþróttir; ég leita ansi oft í spennuna – þrífst vel í henni. Svo hef líka mikla ástríðu fyrir góðum mat og reikna með að verða veitingahúsagagnrýnandi í framtíðinni, enda hef miklar skoðanir á þeim geira. Svo eru það ferðalögin; ég elska að heimsækja lönd sem hafa gjörólíka menningu en við hér á Íslandi. Vonandi næ ég að ferðast helling til framandi landa og menningarheima í framtíðinni. Ég er til dæmis alltaf á leiðinni til Kúbu, og kannski verður það mitt næsta ferðalag – hver veit?“

Texti / Svanur Már Snorrason

Fréttir
- Auglýsing -