spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaBenedikt: Gott fyrir okkur og gott fyrir deildina

Benedikt: Gott fyrir okkur og gott fyrir deildina

Tindastóll lagði Stjörnuna í Umhyggjuhöllinni í kvöld í 16. umferð Bónus deildar karla, 82-90.

Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 26 í efstu sætum deildarinnar, en sökum innbyrðisstöðu er það Tindastóll sem er í 1. sætinu.

Hérna er meira um leikinn

Benni Gumm þjálfari Tindastóls var sáttur með sína menn enda komnir á toppinn.

Benni, til hamingju með risa sigur!

“Takk fyrir það. Bara hörku sigur í hörku leik á móti hörku liði. Það er stutt á milli en sem betur fer datt þetta okkar megin.”

Mér fannst Stjörnuvörnin algerlega frábær eiginlega allan fyrsta leikhluta og fyrstu mínúturnar í öðrum og þið voruð bara í smá veseni, ég hafði smá áhyggjur af sóknarleiknum hjá ykkur á þeim tímapunktum…

…jájá, Stjarnan spilar fantavörn, allt strákar sem spila fanta vörn og ekkert auðvelt að skora á móti þeim. Þeir ná alveg að taka þig út úr leikkerfunum og þessu sem þú vilt spila og maður fær ekkert að hafa það þægilegt. En sem betur fer fundum við leiðir til að brjóta þessa vörn á bak aftur alla veganna svona á köflum.” 

Já, þið komið ykkur í bílstjórasætið um miðjan annan leikhluta…var eitthvað sérstakt sem breyttist hjá ykkur þar eða…?

Mér fannst við bara verða miklu agressívari, við fórum að sækja bara sterkt á þá, ef þú ætlar að láta svona vörn ýta þér í burtu úr því sem þú ætlar að gera þá bara lendir þú í vandræðum. Ég held að við fengum 17 víti í fyrri hálfleik bara útaf því að við fórum sterkt á körfuna og vorum ekkert að láta ,,bullia“ okkur. Það þýðir ekkert að fara að væla og skæla. Mér fannst dómararnir leyfa sama báðum megin og bara frábær leikur í kvöld.

Nú er búið að tala mikið um Dimitrios Agravanis…hann var í búning og körfuboltaskóm en kom ekki inná…hann er væntanlega ekkert kominn inn í hlutina og þannig hjá ykkur?

Neinei, hann er bara nýkominn, lenti 4 í dag. Við höfum verið með gott ,,kemestrí“ í allan vetur og það þarf bara að koma honum hægt og rólega inn í þetta. Við erum að taka smá áhættu með að taka mann inn þegar ,,kemstríið“ er gott. Þetta er mjög vandmeðfarið, við og hann þurfum að gera þetta á góðan máta. Þetta má ekki rugga bátnum, þetta þarf að vera viðbót en það getur alltaf brugðið til beggja vona.

Akkúrat, hann er alla veganna búinn að máta búninginn. En þið eruð komnir í toppsætið, ég veit að þú og aðrir þjálfarar eru ekki mikið í því að fagna einhverju fyrirfram en staðan er sú að þið getið treyst á ykkur sjálfa upp á deildarmeistaratitilinn, það er ekki hægt að biðja um mikið meira?

Nei, ég held að þetta hafi verið gott fyrir deildina. Ég held að Stjarnan hefðu tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri hérna í kvöld. En núna höldum við baráttunni opinni, liðin jöfn, við eigum innbyrðis og höngum þarna í efsta sætinu á innbyrðis og fullt af leikjum eftir. Þetta gerir skemmtilega deild bara enn skemmtilegri, að það sé barátta á öllum vígstöðvum. Þetta var gott fyrir okkur og gott fyrir deildina!

Sagði Benni, bara fjör framundan og spenna um alla deild!

Fréttir
- Auglýsing -