spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2021Benedikt gerir upp ferðina til Grikklands "Stelpurnar voru að gera margt vel...

Benedikt gerir upp ferðina til Grikklands “Stelpurnar voru að gera margt vel í erfiðum aðstæðum”

Íslenska kvennalandsliðið er komið aftur heim frá Grikklandi þar sem það lék tvo leiki í undankeppni EuroBasket 2021. Tapaði liðið báðum leikjunum, þeim fyrri gegn Slóveníu síðasta fimmtudag og þeim seinni gegn Búlgaríu á laugardaginn.

Karfan heyrði í þjálfara liðsins, Benedikt Rúnari Guðmundssyni og spurði hann út í ferðina, leikina og framtíðarhorfur liðsins.

Hvernig fannst þér leikirnir ganga á móti Slóveníu og Búlgaríu?


“Það gekk svona upp og ofan. Maður er ánægður með ákveðna hluti og síðan hefði maður viljað sjá okkur gera annað betur. Það sem ég er einna svekktastur með er fyrri hálfleikurinn gegn Slóveníu en þar vorum við ekki að framkvæma það sem við lögðum upp með. Hina þrjá hálfleikana vorum við að halda okkur við uppleggið”

Hversu mikið heldur þú að það hafi háð liðinu að geta ekkert æft?

“Ég held að það hafi verið nokkuð augljóst að Sara Rún var eini leikmaður liðsins sem var búin að vera æfa og spila. Aðrar voru að leita að sínum takti sóknarlega og voru ryðgaðar í skotunum. Fyrir mér er það algjörlega óskiljanlegt að við höfum ekki fengið að æfa eins og kvennaliðs Vals í knattspyrnu og eins og strákarnir hafa fengið undanþágu núna fyrir gluggan í Slóvakíu”

“En það er svo margt þessi misseri sem ég skil ekki þegar kemur að ákvörðunum ráðherra og sóttvarnarlæknis sem tengjast íþróttum. Einn daginn mega bara meistaraflokkar æfa og þann næsta bara börn og unglingar. Maður horfir á einn landsliðsþjálfara sleppa við sóttkví en alla aðra fara í sóttkví eftir landsliðsverkefni. Svo fylgist maður með öllum deildum í öllum íþróttagreinum á fullu í heiminum en hér á landi er nánast refsivert hjá dómstól götunar að spurja af hverju æfingar og keppnir eru ekki leyfðar”

Mikið til nýr hópur sem þú ert með í höndunum, hvað myndir þú segja að það væri það góða sem þið takið út úr glugganum?

“Það voru leikmenn að fá mikilvæga reynslu sem á eftir að nýtast þeim og liðinu. Bæði voru stelpur að fá sína fyrstu landsleiki og svo voru aðrar að fá stærra hlutverk en áður. Stelpurnar voru að gera margt vel í erfiðum aðstæðum þannig að við tökum ýmislegt jákvætt úr þessu verkefni. Á móti gerum við okkur grein fyrir að við erum á eftir þessum sterku þjóðum í ýmsu og ætlum að reyna brúa það bil”

Hvað fannst þér um að vera látinn spila þessa leiki þrátt fyrir hávær mótmæli?

“Eins og staðan er í heiminum í dag þá finnst mér algjör klikkun að vera senda fólk á milli landa til að keppa. Hættan í keppnisleik er lítil sem engin heldur er ferðalagið og nándin við fjöldan allan af fólki á hóteli áhættusöm. Þú ert innan um alls konar fólk frá hinum og þessum löndum sem þú veist ekkert hversu alvarlega það er að taka sóttvarnir eins og kom á daginn í búbblunni á Krít. Svo er mikill munur á því að smitast og veikjast heima hjá sér með sitt fólk í kringum sig heldur en að veikjast í öðru landi. Ég hefði t.d. ekki verið spenntur fyrir því að fara í einangrun í Grikklandi og kannski veikjast alvarlega og þurft að vera þar næstu vikur eða mánuði eftir hversu alvarleg veikindin hefðu verið”

Næstu leikir eru eftir áramótin, má búast við mikið breyttu liði þá, eða gerið þið ráð fyrir að byggja ofan á það sem þið voruð að gera í úti Grikklandi?

“Það er alltaf stefnan að byggja ofan á síðasta verkefni en því miður hefur það gengið illa hingað til þar sem við höfum þurft að gera miklar breytingar á liðinu á milli verkefna. Við höfum því mikið verið að koma nýjum leikmönnum inn í hlutina þessa fáu daga sem við fáum fyrir gluggana. Það er stutt í næsta glugga og erfitt að segja hvernig staðan verður þá en jákvæða er að við höfum úr breiðum hópi að velja þá þar sem margar hafa fengið smjörþefin á því sem við erum að gera”

Hverjar eru raunhæfar væntingar fyrir íslenska aðdáendur, landsliðið í þessari undankeppni og þróun þess næstu árin?

“Möguleikar okkar að komast upp úr þessum riðli og fara á Eurobasket eru úr sögunni og eigum við tvo erfiða leiki eftir gegn tveimur topp þjóðum, Slóveníu og Grikklandi. Markmiðið er að nálgast þessar þjóðir í getu. Ég hef mikla trú á því að við getum það á næstu árum. Það eru að koma upp leikmenn sem lofa góðu fyrir nánustu framtíð. Við eigum stelpur sem munu útskifast í háskólum í Bandraríkjunum á næstu árum og geta þá farið að gefa kost á sér í landsliðið. Vonandi sjáum við þær komast í atvinnumennsku eftir námið. Í öllum boltagreinunum eru landsliðin bæði hjá körlum og konum skipuð mörgum atvinnumönnum. Til að kvennalandsliðið taki næsta skref þurfum við að eignast atvinnumenn sem æfa 2-3 á dag og spila í sterkum deildum í Evrópu. Það er of mikið bil á milli Dominosdeildarinnar og síðan öflugs alþjóðabolta”

Fréttir
- Auglýsing -