Martin Hermannsson er einn af bestu leikmönnum íslenska boltans, fullyrðing sem fæstir ættu bágt með að taka undir. Martin hefur undanfarið vakið verðskuldaða athygli og hefur framlag hans t.d. ekki farið fram hjá Benedikt Guðmundssyni þjálfara Þórs Þorlákshafnar. Benedikt lofaði Martin í bak og fyrir í stöðuuppfærslu hjá sér á Facebook og hvatti alla áhugasama til að leggja sér leið á leik með KR því piltur væri vísast að hverfa frá íslenska boltanum um langa stund. Hver færi því nú að verða síðastur að sjá pilt spila.
Benedikt um Martin í stöðuuppfærslu á Facebook:
Á morgun (insk. blm. – í kvöld) er leikur 2 í úrslitaeinvíginu í körfunni. Í báðum liðum eru eintómir hágæða leikmenn. Ég hef þjálfað marga þeirra annað hvort hjá félagsliði eða í unglingalandsliði, ýmist í stuttan eða lengri tíma, og þekki því ágætlega til þeirra flestra.
Ég skora á alla að fara á leikinn og sjá alla þessa snillinga leika listir sínir á morgun. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er leikmaður #15 hjá KR sem heitir Martin Hermannsson. Í mörg ár hef ég ekki haldið vatni yfir hæfileikum þessa drengs. Við fáum ekki svona natural talenta oft. Hann er oft að gera hluti sem eru fáranlegir og algjörlega á öðru “leveli”. Samt ekki nema 19 ára.
Leikskilningurinn, lesturinn á aðstæðum, augað fyrir sendingum, mýktin í úlnliðnum osfv. er eitthvað sem er unaðslegt að horfa á. Orðinn lykilmaður í frábæru liði svona ungur án þess að hafa kannski líkamlega styrkinn sem þarf oft. Hann er bara það hæfileikaríkur að hann verður ekki stoppaður. Ég er ekki að segja neinum fréttir sem fylgist vel með körfunni en ég skora á þennan almenna íþróttaáhugamann sem sekkur sér árlega í úrslitakeppnina að fylgjast með honum. Sjá hversu yfirvegaður hann er. Sjá þegar hann tekur sig til að býr til körfur fyrir sjálfan sig eða samherja þegar liðinu vantar einhvern til að búa til í sókninni þegar kerfið skilaði ekki opnu skot fyrir einhvern. Sjá þegar þessi krakki smellir niður þriggja í hraðaupphlaupi, fáranlega yfirvegaður en á sama tíma þvílíkt kokhraustur á stóra sviðinu.
Af hverju er ég að benda á þetta núna? Eins og hefur komið fram áður er Martin að öllum líkindum á leið út í hásksóla í USA næsta vetur. Ég veit að hann á eftir að brillera þar og síðan mun líklega atvinnumennska taka við í vonandi mörg ár ef hann verður heppinn með heilsuna og annað. Það gæti því verið langt þangað til næst að fólk sjái hann á parketi íþróttahúsanna að spila í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar. Þetta er að mínu mati einstakt “talent” sem er að spila með og gegn mörgum fyrrum atvinnumönnum.
Topp leikmenn í báðum liðum, topp þjálfarar, tvö félög sem kunna að skreyta umgjörðina og allt í beinni fyrir þá sem komast ekki á leikina. Einfaldlega viðburðir sem enginn sælkeri á lífið vill missa af.



