spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaBenedikt eftir áttunda deildarsigur Njarðvíkur í röð "Það á eftir að reyna...

Benedikt eftir áttunda deildarsigur Njarðvíkur í röð “Það á eftir að reyna almennilega á okkur”

Njarðvík lagði Hauka í kvöld í 18. umferð Subway deildar karla, 89-97. Eftir leikinn er Njarðvík í 2. sæti deildarinnar með 28 stig á meðan að Haukar eru í 4. sætinu með 24 stig.

Hérna er meira um leikinn

Benni var að mestu sáttur eftir að hafa sótt 2 stig í Ólafssal í kvöld:

Mér fannst kannski helst vanta svolitla ákefð í þína menn í fyrsta leikhluta og framan af öðrum leikhluta í kvöld…?

Já, það vantaði ákefð og aggression í okkur en við vorum líka bara ekki að ná að fylgja leikplaninu og leikplanið var hreinlega bara ekki að ganga upp þarna í byrjun þannig að við þurftum að breyta leikplaninu aðeins varnarlega…

…já…að hvaða leyti…?

Við vorum að skipta mikið 1-4 og reyna að dekka þriggja stiga skotin hjá Mortensen en sú skiptivörn var bara léleg og ég tek það bara á mig…en eftir að við breyttum fannst mér þetta ganga betur. Svo fóru menn líka bara að spila einfaldari sóknarleik, um leið og menn ætla að fara að flækja þetta eitthvað þá snýst þetta bara í höndunum á okkur. Svo hérna í fjórða leikhluta þá fórum við bara að bulla sko! Þetta var ekkert skylt við það sem lagt var upp með…

Já þegar þið nánast hleypið þeim aftur inn í leikinn sem var alger óþarfi…

…algerlega, en ég tek það ekki af Haukunum að guttarnir sem spiluðu restina af leiknum hérna, Alexander, Daníel og þessir strákar sem voru að koma af bekknum, Breki og þeir, voru bara að gera vel í lokin!

Það var enginn uppgjafartónn í þeim…

Alls ekki, þeir komu bara með hörku fægt hérna og nýttu sér vel þetta kæruleysi hjá okkur, voru bara flottir og gáfu Haukunum færi á að taka þetta af okkur.

Einmitt, nú átti Hilmar Smári ekki sinn besta leik, þið hafið kannski lagt talsverða áherslu á að stöðva hann? Það var kannski eitthvað sem gekk vel upp hjá ykkur allan leikinn?

Já, þetta er náttúrulega 18 stiga maður í leik og hefur algerlega sprungið út í vetur. Þannig að við lögðum mikla áherslu á að stöðva hann. Mér fannst það ganga sérstaklega vel í fyrri hálfleik, hann náði einu skoti á einhverjum 15 mínútum í fyrri hálfleik, við bjuggumst við honum svo aggresívum í seinni hálfleik og hann var það, hann var ekki að fá opin skot en hann var að ráðast á hringinn og komast á vítalínuna en heilt yfir er ég ánægður með vörnina á hann og einnig á Kanann. Við réðum hins vegar ekkert við Giga og Mortensen, maður nær ekki að stoppa allt á móti þessu liði, þeir eru þarna með 4 toppa sem allir geta sett 20+.

Hörkuleikmenn. Nú er ansi bjart yfir Gullborginni, þið hafið unnið 8-9 leiki í röð eða hvað…

…já, áttundi núna…

..og fólk er kannski farið að horfa svolítið til ykkar, það hafið verið í svolitlum músarbúning hingað til, meiðsli og annað hefur kannski verið efst í umræðunni frekar en eitthvað annað. Eykur það pressu á liðið að nú eru menn farnir að horfa á Njarðvík sem virkilega líklega til að fara alla leið?

Ég bara veit það ekki sko, ég veit ekki hvernig umræðan er, ég veit ekki hvað fólk er að spá með okkur. Við einbeitum bara að okkur og að vinna næsta leik. Við erum bara að æfa og spila og reyna að ná árangri.

Jájá, að sjálfsögðu að reyna að fókusera á það…ekki hvað einhverjir eru að segja einhvers staðar…

Jájá, íþróttaáhugafólk getur síðan verið að diskutera og svona! Ég er ekki í því hlutverki núna…

En ég er amk. spenntur og bjartsýnn fyrir ykkar hönd eins og staðan er núna, þetta lítur bara vel út…

Já…við eigum toppliðin eftir, það á eftir að reyna almennilega á okkur, við eigum eftir Val og Keflavík sem eru þarna með okkur í topp fjórum…

…já, hörkuleikir…!

…við eigum eftir KR og þeir voru að vinna stórkostlegan sigur í kvöld þannig að það er ekkert gefið og svo eigum við Þór Þ eftir sem er hugsanlega eitt af bestu liðunum í dag þannig það á eftir að reyna almennilega á okkur.

Akkúrat, þetta spennandi!

Já, þetta er ofboðslega spennandi, skemmtileg deild!

Sagði Benni og það verður sannarlega athyglivert að sjá hvernig Njarðvíkingar munu koma undan þessu svakalega lokaprógammi í deildinni.

Fréttir
- Auglýsing -