spot_img
HomeFréttirBenedikt dustar rykið af pennanum

Benedikt dustar rykið af pennanum

09:00
{mosimage}

 

(Benedikt Guðmundsson) 

 

Þjálfarinn góðkunni, Benedikt Guðmundsson, hefur slegist í hóp þeirra sem leggja Karfan.is lið í frétta- og afþreyingarþjónustu sinni við körfuknattleiksáhugafólk. Benedikt verður með valda pistla endrum og sinnum í sumar og hver veit nema sérfræðiþekking hans gæti teygt sig lengra inn í veturinn hér á Karfan.is. Að þessu sögðu birtum við hér fyrsta pistilinn frá Benna en í hverjum pistli mun hann m.a. taka fyrir unga og efnilega leikmenn og verður fróðlegt að sjá hvað Benni hefur fram að færa enda einn reyndasti yngriflokkaþjálfari landsins.

 

Pistillinn frá Benna:

Ég hef tekið að mér að mér að skrifa pistla hér á karfan.is í sumar um allt og ekkert sem við kemur körfubolta. Þegar Jón Björn, ritstjóri og eigandi vefsins, leitaði til mín var ekki hægt að skorast undan enda þessi frábæra heimasíða orðin ómissandi í körfuboltaheiminum hér á landi. Þeir eru ekki margir dagarnir sem líða án þess að maður kíki á karfan.is. Fyrir utan það þá getur maður heldur ekki sagt nei við gamlan aðstoðarþjálfara, en við Jón Björn þjálfuðum saman í Njarðvík fyrir einhverjum árum. Minnir að það hafi verið drengir fæddir 1989 og 1988 sem fengu leiðsögn frá dúettinum. Ætla ekki einu sinni að fara inn á það þegar ég þjálfaði ritstjóran sjálfan. Þar var sprækur leikstjórnandi á ferð. Það er greinilega gúrka núna hjá karfan.is fyrst það er leitað til sérvitrings eins og mín svona rétt á meðan mesta gúrkan stendur yfir. Ég sé að sjálfsögðu í gegnum þetta en tek engu að síður slaginn, þar sem ég viðurkenni að ég sakna gömlu góðu dagana þegar maður vann við blaðamennsku á gamla DV með frábærum samstarfsmönnum á íþróttadeildinni. Ótrúlega skemmtilegur tími og var mikið skrifað um körfubolta. Jón Björn er greinilega með mun hærri greindarvísitölu en ég því hann fór úr þálfuninni  yfir í blaðamennskuna en ég hætti ritstörfum þegar ekki var hægt að sinna þeim með þjálfuninni. Miðað við starfsöryggi og vinnuumhverfi þjálfara þá gefur sú ákvörðun kannski til kynna að maður sé með greindarvísitölu á við vöfflujárn eða í mesta lagi ristavél. 

Það kæmi mér alls ekki á óvart ef ég næði að gera þessa pistla umdeilda við og við. Einhvernveginn næ ég alltaf að vera umdeildur í öllu sem ég tek mér fyrir hendur, hvort sem það er þjálfun eða ritstörfin á sínum tíma. Það er þó ekki ætlunin að kasta einhverjum bombum í þessum pistlum heldur eingöngu segja mína skoðun á hlutum sem tengjast körfubolta. Einhverjir verða ósammála og vonandi einhverjir sammála eins og gengur og gerist.  

Maður hefur nokkrum sinnum velt því fyrir sér eftir að maður hætti í blaðamennskunni að fara að blogga eins og margir gera í dag. Hef þó aldrei tekið skrefið og ekki einu sinni verið nálægt því. Í dag er fullt af góðum og skemmtilegum bloggurum sem tengjast körfuboltaheiminum. Sjálfur kíki ég annars slagið á nokkur blogg og les skemmtilegar greinar og skoðanir manna. Mín uppáhalds blogg eru hjá þeim Henry Birgi, íþróttafréttamanni,  og Sverri Stormsker, heimspekingi. Virkilega skemmtilegir pennar sem tala ekki í kringum hlutina og eru oft á tíðum óborganlega fyndnir. Sjálfur varð ég fyrir barðinu á bloggara um daginn sem ákvað að byrja að blogga bara til að koma með eina svæsna samsæriskenningu um eina NBA lýsinguna í finals núna ekki alls fyrir löngu. Ekki vantaði ímyndunaraflið og urðu ævintýralegar kenningar viðkomandi að umtalsefni hér og þar. Gerðist reyndar ekki svo frægur að lesa viðkomandi blogg en fékk sendan bút sem ég las. Það eru margir tilbúnir að trúa alltaf því versta og menn trúa því sem þeir vilja trúa. Því svæsnari sem sagan er því viljugri eru menn að trúa henni. Það breytist aldrei. Skilst að þessi bloggari hafi verið að norðan og mun ég kannski fá mér í nefið með honum næst þegar maður fer norður að spila. Það voru fleiri aðilar fyrir norðan illa fyrir kallaðir þegar NBA úrslitin stóðu sem hæst því ekki höfðu allir á svæðinu húmor fyrir Ísbjarnarbrandaranum, sem mér fannst persónulega hrikalega fyndinn. En kollegi minn í þeim leik, Svali Björgvinsson, fékk tölvupósta þar sem ekki allir fyrir norðan vorusáttir við að bæjarfélagið þeirra væri dregið inn í brandara af þessu tagi. En til hamingju stuðningsmenn Boston Celtics. Þeir eru fjölmargir hér á landi. Samsæriskenningin um að Lakers og Boston ættu að spila til úrslita og að úrslitin myndu ráðast í oddaleik hélt lífi lengi vel þar til lið Boston sýndi mátt sinn og megin. Körfuboltaáhugamenn fengu draumaúslitarimmu en það var ekki vegna skipunar frá David Stern eða skrifstofu NBA deildarinnar heldur vegna þess að þetta voru tvö bestu liðin í vetur.  

Þeir sem senda pósta og blogga mega þó eiga það að þeir koma fram undir nafni þegar þeir skrifa. Sama verður ekki sagt um þá sem fara á spjallvefi sem nafnlausir aðilar í felulitum og undantekningarlaust hafa eitthvað neikvætt til málanna að leggja. Ég man þegar þessir spjallþræðir voru að byrja og þá fannst mér þetta snilld, en bara til að byrja með. Þarna var kominn vettvangur fyrir menn með sömu ástríðu og áhugamál til að skiptast á skoðunum. Maður fylgdist með spjallinu á dómaravefnum á sínum tíma enfljótlega sá maður í hvert stefndi. Eitt skipti neyddist maður til að svara einhverjum árásum. Fyrir mörgum árum tók ég þá ákvörðun að fara aldrei á svona spjallvef aftur því eina sem maður las var hvað allt var ómögulegt alls staðar. Eintóm niðurrif og maður fékk það á tilfinninguna að best væri bara að leggja þessa mögnuðu íþrótt niður hér á landi. Inn á milli voru menn að reyna halda gangandi uppbyggilegum og skemmtilegum umræðum en þær hurfu alltaf innan um neikvæðnina sem umkringdi þær. Núna eru komin 5 ár síðan ég skoðaði svona spjall síðast og ég sé ekkert nema frábæra hluti sem eru að gerast í körfunni. 

Sýnist þetta vera orðið gott í bili en í lok hvers pistils ætla ég að taka fyrir einn efnilegan krakka af þeim fjölmörgu sem við eigum í dag. Fyrstur sem verður fyrir barðinu er Haukur Helgi Briem Pálsson. Haukur er á 16 ári og hefur lengi verið „kóngurinn“ í 1992 árganginum. Hann er í Ungmennafélaginu Fjölni og var ekki fyrir löngu síðan valinn besti leikmaður NM í Svíþjóð hjá U16 ára liðum. Eins og það hafi ekki verið nóg þá fórHaukur í sterkustu æfingabúðir sem völ er í Evrópu sem heita Basketball Without Borders og var valinn í úrvalsliðið þar. Þessar búðir eru samvinnu verkefni NBA og FIBA og ætla ég að leyfa mér að fullyrða að þetta er flottasta viðurkenning sem íslenskur unglingur hefur fengið. Þarna var hann með öllum efnilegustu piltum álfunnar. Haukur er mikið efni. Hann hefur frábæra blöndu af hæð, líkamlegum styrk, tækni og leikskilningi. Hann er sterkur í vörn og sókn. Þrátt fyrir að hafa verið yfirburðamaður í sínu liðiog hans árgangi  þá er hann einstaklega óeigingjarn og mikill leiðtogi. Það er oft með unga og góða krakka sem eru „best“ upp yngri flokkana að þau einbeiti sér að því að skora og varnarleikurinn mætir afgangi. Af því að þau eru svo góð og mega alls ekki lenda í villuvandræðum þá er þeim ekki sagt nægjanlega til í vörninni eða skömmuð vegna áhugaleysis þeim megin. Það er alls ekki málið hjá Hauki. Hann er jafn sterkur varnarlega og sóknarlega og leggur sig alltaf fram. Hann hefur afburðar staðsetningu í liðsvörn og „fílar“ að dekka besta manninn í hinu liðinu. Spáir ekkert í því hvernig stattið kemur út og spilar bara til sigurs. Það er nefnilega ekki endilega sjálfsagður hlutur hjá ungum leikmönnum dag. Allt of margir sem spá of mikið í stigaskorinu sínu og fjölda skota. Þegar það gerist hjá krökkum sem eru að koma upp þá er hætta á að allt fari í flækju og fyrstu árin í meistaraflokki fari í pirring og vonbrigði. Haukur er algjörlega heilsteiptur hvað þetta varðar en þessi efnilegi piltur var þegar farinn að spila í meistaraflokki síðasta vetur og verður væntanlega í lykilhlutverki með Fjölni í 1. deildinni næsta vetur ásamt fleiri ungum og efnilegum í Grafarvogi.

 

Benedikt Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -