Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, var ánægður með sigurinn gegn Grindavík í kvöld og sérstaklega með framlagið af varamannabekknum.
„Þetta var bara svona hörkuleikur einhvernveginn, samt svona svolítið skrítinn, ég á voðalega erfitt með að finna lýsingarorðin til að lýsa þessum leik. En ég er bara ánægður með að hafa unnið þetta, jafnað þessa seríu og haldið henni lifandi. Sérstaklega er ég ánægður með innkomuna sem við fengum af varamannabekknum hjá þeim sem komu inn á í kvöld. Hún er akkúrat það sem við þurfum. Frábær innkoma hjá Emil og þessum strákum sem komu inn og þessi innkoma af bekknum í kvöld var þessi ‘winning difference’.“
Benedikt vildi alls ekkert tjá sig um dómgæsluna í Icelandic Glacial-höllinni í kvöld. Hann tjáði sig þó um villuvandræði Þórsara, en Mike Cook var kominn með fjórar villur strax í öðrum leikhluta.
„Kaninn fær þrjár villur náttúrlega mjög snemma og ég ræði við hann þarna í einu leikhléinu bara og spurði hvort hann gæti lofað mér því að fá ekki fjórðu. Hann alveg margítrekaði það og ég treysti á hann og að hann væri með þessa reynslu sem þarf til þess að spila án þess að fá villu á sig, en hún kom og hann spilar því lítið í seinni hálfleik.“
Benedikt var heilt yfir léttur, ljúfur og kátur með úrslit kvöldsins og hlakkar til að fara til aftur til Grindavíkur á fimmtudaginn.



