spot_img
HomeFréttirBen Curtis Smith með 49 stig

Ben Curtis Smith með 49 stig

Þá var nú loksins komið að einum Vesturlandsslag en nágranna- og samvinnuríkin Stykkishólmur og Borgarnes mættust í Hólminum. Óttar Sigurðsson og Kristófer Sævarsson eru búnir að skipta úr Snæfelli í Skallagím og fá þar meiri spilatíma með drengjaflokk þar og svo sameinuðu liði Snæfell/Skallagrímur í unglingaflokki. Þeir munu æfa með Snæfelli en ekki spila með þeim og þannig maula þeir kökuna í vinabæjunum á Vesturlandi.
 
 
 
En að leiknum þar sem Borgnesingar komu sterkir í upphafi leiks með þá Grindavíkurbræður sjóðandi heita svo hvein í netum hússins. Skallagrímur komst í 2-15 þar sem Páll Axel hafði smellt niður tveimur þristum, sett 8 stig og Ármann Örn einum þrist til og var að berjast vel. Snæfellingar voru hikandi og alls ekki ógnandi í sóknum sínum svo gestirnir gengu á lagið. Snæfellingar löguðu stöðuna eilítið 14-20 en voru ekki að hitta vel á meðan Ben Smith og Páll Axel létu rigna í Hólminum og breyttu stöðunni í 16-26. Snæfell höfðu hitt 1/8 í þristum en Skallagrímur 6/8 og tóku sóknarfráköst hvað eftir annað. Staðan eftir fyrsta fjórðung 18-30 fyrir gestina og heimamenn þurftu heldur betur að VAKNA!
 
 
Skallagrímur hélt áfram keyrslunni og hófu annan hluta með fyrstu fjórum stigunum og fengu þeir að leika sér í sóknum sínum, taka skot að vild og fráköst og allskonar án þess að Snæfell mætti á svæðið. Snjólfur Björnsson, sem kom með kraft í leik Snæfells og Sveinn Arnar svöruðu þristum Páll Axels sem hafði smellt einum fimm slíkum og birta fór aðeins til hjá Snæfelli 34-43. Staðan í hálfleik var 41-52 og var Páll Axel kominn með 21 stig fyrir Skallagrím en Ben Smith 19 stig. Hjá Snæfelli var Sigurður Þorvaldsson kominn með 12 stig og Travis Cohn 11 stig.
 
 
Af þeim tíu villum sem Snæfell voru komnir með, eftir fjögra mínútna leik í seinni hálfleik, þá var Travis Cohn kominn á tréverkið með fimm og staðan 48-58 en Snæfellingar áttu erfitt með að saxa á gestina sem héldu sig við mjög fína spilmennsku og voru einbeittir. Leikurinn varð allur eitthvað losaralegur og skrýtinn eins og broddurinn væri farinn hjá öllum undir lok þriðja hluta. Þá kom Ben Smith með þrist og kom Skallagrím í 56-70 og á næstu 30 sekúndum kom hann tveimur til viðbótar í netið og staðan orðin 58-76 og Ben með kominn með 36 stig og einungis kraftaverk þurfti til að Snæfell gerði eitthvað meira í leiknum eins og hann hafði þróast.
 
 
Jón Ólafur lauk leik í upphafi fjórða hluta og Páll Axel braut 30 stiga múrinn með sínum 7. þrist. Slakleiki Snæfells var algjör á heimavelli í kvöld og líklegt að heimamenn vilji gleyma að hafa orðið vitni af þessu sem fyrst. Það var helst að frétta að það voru stóru körfurnar sem skiptu Skallagrím máli og að hafa tekið flest fráköst sem í boði voru í upphafi leiks þar sem Snæfellingar voru ekki bara einu heldur tveimur skrefum of seinir.
 
 
Með smá seiglu, og nokkuð óvænt, náðu Snæfellingar að minnka muninn í 8 stig 81-89 með 1:30 eftir af leiknum það var einfaldlega of seint því þegar þeir fóru að brjóta þá setti Ben Smith sín víti niður skaut heimamenn á kaf ásamt Páli Axel sem voru með 80% af stigum Skallagríms í leiknum eða 79 af 98. Það að Snæfell hafi verið slakir skal ekki tekið af Skallagrímsmönnum að hafa komið í Hólminn barist allan tímann og spilað alveg þrælgóðann leik sem liðsheild og höfðu að lokum sanngjarnan sigur mjög, 84-98.
 
 
Snæfell: Sigurður Þorvaldsson 26/10 frák/4 stoðs. Sveinn Arnar 11/ 10 frák/ 5 stoðs. Pálmi Freyr 11/ 5 stoðs. Kristján Pétur 11/4 frák. Travis Cohn 11. Jón Ólafur 6/5 frák. Snjólfur Björnsson 6/ólfur Björnsson 6/4 stolnir boltar. Stefán Karel 2. Gunnlaugur Smárason 0. Finnur Atli 0. Viktor Marínó 0.
 
Skallagrímur: Benjamin Curtis Smith 49/7 frák/6 stoðs. Páll Axel 30/3 frák. Egill Egilsson 4/7 frák/4 stoðs. Davíð Ásgeirsson 4. Trausti Eiríksson 3/7 frák. Ármann Örn 3/4 frák/4 stoðs. Orri Jónsson 3. Sigurður Þórarinsson 2. Atli Aðalsteinsson 0. Davíð Guðmundsson 0. Sigursteinn Orri 0.
 
 
Eftir leikinn ræddi Karfan.is við Pálma Sævarsson þjálfara Skallagríms sem var ekkert nema sáttur við sína menn.
“Við erum búnir að vera duglegir í jólafríinu, allir leggja sig 100% fram á æfingum og held að við höfum verið stressaðir í síðasta leik gegn ÍR sem við náðum ekki að klára alveg en komum með það í kvöld þar sem allir voru að gera vel í fráköstum, vörn og baráttu sem skilaði þessum sigri þó Páll [Axel] og Ben [Smith] hafi verið að draga vagninn sóknalega. Ef það væri erfitt að mótívera menn fyrir nágrannaslag þá þyrftum við að skoða okkar gang. Við voru staðráðnir í að vinna og ég er stoltur af því að menn lögðu sig fram og fórnuðu öllu sínu til að gera það sem þurfti og það er það se góð lið gera.”.
 
 
Sigurður Þorvaldsson átti fínt framlag í kvöld, 26 stig og 10 fráköst sem dugði langt í frá til og var að vonum vonsvikinn með leikinn.
“Við mættu alls ekki tilbúnir og komum okkur strax í holu eftir þriggja mínútna leik. Við vorum gjörsamlega kraftlausir með engann vilja á meðan þeir voru mættir tilbúnir til að berja okkur sem þeir gerðu og við áttum engin svör.”
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
  
Fréttir
- Auglýsing -