Síðasta liðið í riðil Íslands á EuroBasket til þess að staðfesta 12 leikmanna hóp sinn var Belgía, en það gerðu þeir í gær.
Hópinn skipa Ismael Bako, Mamadou Guisse, Manu Lecomte, Siebe Ledegen, Joppe Mennes, Jean-Marc Mwema, Loic Schwartz, Godwin Tshimanga, Kevin Tumba, Niels Van Den Eynde, Andy Van Vliet og Hans Vanwijn.
Lykilleikmaður í belgíska liðinu er miðherjinn Ismael Bako, en hann leikur fyrir Paris Basketball í Frakklandi og í EuroLeague. Ismael er 30 ára gamall og að fara á sitt þriðja lokamót EuroBasket með liðinu.
Fimm leikmanna liðsins leika svo í sterkari liðum BNXT deildarinnar í Belgíu/Hollandi og hinir dreifast á efstu deild í Frakklandi, Tyrklandi, Póllandi, Þýskalandi og aðra deildina á Spáni.
Belgía gerði nokkuð vel í undankeppni mótsins, lögðu Slóvakíu í tvígang og sterkt lið Spánar á sínum heimavelli í Belgíu. Þeirra besti leikmaður í þeirri undankeppni Retin Obasohan leikmaður Manresa í ACB deildinni verður ekki með liðinu á lokamótinu, en hann þurfti að draga sig út úr hópnum eftir að hafa meiðst í undirbúningi belgíska liðsins.
Belgía er að leika á EuroBasket í 19. skiptið. Þeir hafa þó aldrei náð að vinna til verðlauna á mótinu. Besti árangur þeirra var árið 1947 þegar þeir enduðu í fjórða sæti. Þeim hefur þó gengið ágætlega á síðustu mótum, þannig séð, komast í 16 liða úrslit 2015 og á síðasta móti árið 2022.



