spot_img
HomeFréttirBekkurinn ávallt urrað af spilagræðgi

Bekkurinn ávallt urrað af spilagræðgi

Margrét Sturlaugsdóttir varð í gær aðeins önnur konan til þess að taka við þjálfun kvennaliðs Keflavíkur en fyrst til starfans var Anna María Sveinsdóttir sem var aðalþjálfari kvennaliðsins fyrst kvenna tímabilið 1997-98. Karfan.is tók snarpan púls á Margréti sem sagði kvennaboltann í mikilli framför.

„Nóg af ungum og skemmtilegum stelpum í Keflavík sem þyrstir að læra meira og þar kem ég vonandi sterk inn. Sara Rún er á förum en aðrar fá tækifæri og hafa sumarið til að bæta sinn leik. Bekkurinn í Keflavík hefur ávallt urrað af spilagræðgi og nú er lag að nýta tækifærið sem opnast við mannabreytingar og sumarið er tíminn,“ sagði Margrét sem hefur síðustu sjö ár verið með yngri landsliðum Íslands. 

„Keflavík er með einar 14 stúlkur í U-16, U-18 og U-20 þannig að það ætti að vera nægur mannskapur. Ég hef alltaf verðlaunað þá sem leggja mikið á sig og það ætti að verða eðlileg og holl samkeppni í liðinu. Undanfarin 7 ár hef ég verið á fullu með yngri landsliðum Íslands og á öðru ári sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna. Nú fæ ég lengri tíma til að þjálfa meira enda tímabilið langt og strangt og kvennaboltinn í mikilli framför.“

En hver verður helsta breytingin fyrir þig núna að taka við meistaraflokki?

„Helsta breytingin fyrir mig er að nú þarf ég að pússa upp og fægja Keflavíkurhjartað og ýta á ON takkann, keyra hlutina í gang og kenna okkar unga liði hvað þarf til að spila fyrir okkar góða félag. Sigurhefðin er sterk og kröfurnar um árangur miklar, því viljum við ekki breyta.

Fréttir
- Auglýsing -