Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Stjörnunnar og KFÍ í tíundu umferð í Domino´s deild karla. Viðureign liðanna fer fram í Ásgarði í Garðbæ. Bein tölfræðilýsing leiksins.
– 0,5 sekúndur eftir af leiknum þegar Sigurður Dagur setur þrist og fær villu að auki en brennir af vítinu…lokatölur 91-77 fyrir Stjörnuna.
– 86-77 Mirko með þrist fyrir KFÍ og Ísfirðingar eru að gera vel í að reyna að brúa niður stigamunin og eygja þá von um að með sigri á Ísafirði í næstu umferð á nýju ári gætu þeir sett sig í betri stöðu innbyrðis gegn Stjörnunni.
– 86-72 og 2.22mín eftir af leiknum….leikhlé í gangi. Það reynist hér dýrkeypt fyrir aðkomumenn að hafa ekki brugðist strax við skotárásum Stjörnunnar hér í upphafi fjórða leikhluta. Heimamenn eru því að kveðja árið 2013 á heimavelli með sigri og eiga einn leik eftir á þessu ári þegar þeir fara í Ljónagryfjuna næsta mánudag.
– 84-66 og Kjartan Atli setur enn einn þristinn og nú yfir 3-2 svæðisvörn Ísfirðinga. Stjörnumenn eru búnir að loka þessum. Eftir 6mín leik í fjórða leikhluta er staðan 24-9 fyrir Stjörnuna, heimamenn náðu ekki 24 stigum á 10 mínútum alla þrjá leikhlutana þar á undan en hér í fjórða hafa allar flóðgáttir opnast.
– 81-66 Sigurður Dagur klárar vel á endalínunni og það má eitthvað mikið gerast til að KFÍ komi til baka eftir svona upphafsmínútur hjá Stjörnunni. 4.47mín til leiksloka og gestirnir taka leikhlé.
– 75-63 Kjartan Atli með annan þrist, Stjarnan með fimm þrista í röð og 6.40mín eftir af leiknum, heimamenn á góðri leið með að gera út um þetta.
– Ja hérna hér…Hairston er á „eldi“ og kemur Stjörnunni í 72-61 með annarri þriggja stiga körfu og sinni sjöttu í leiknum.
– Kjartan Atli tekur þátt í veislunni með þrist og kemur Stjörnunni í 69-61.
– Hairston með annan þrist og kemur Stjörnunni í 66-59, kallinn er sjóðandi hérna núna og kominn í 35 stig og þar af liggja fimm þristar í valnum.
– Junior Hairston opnar fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og kemur Stjörnunni í 63-57 en Mirko minnkar í 63-59.
(Jason Smith hefur átt fínar rispur í kvöld en virðist vera að glíma við smá meiðsli)
3. leikhluti
– Þriðja leikhluta lokið…staðan 60-57 fyrir Stjörnuna og fjórði og síðasti leikhlutinn framundan.
– 60-57 Ágúst Angantýsson minnkar muninn fyrir KFÍ á vítalínunni þegar 25 sek eru eftir af þriðja.
– 60-53 Stjörnumenn með hellidembu hér síðustu tvær mínúturnar eða svo í þriðja leikhluta.
– 56-53 Stjarnan með þrist og Ísfirðingar ekki par sáttir enda varnarmaður KFÍ sem fékk högg í andlit og lá í gólfinu en leikur hélt áfram og undirritaður skilur gremju gestanna.
– 53-53 Hairston jafnar á vítalínunni og 2.20mín eftir af leikhlutanum.
– 51-53 Smith með þrist og þann níunda hjá KFÍ þetta kvöldið.
– 51-50…Hraunar Karl setur eitt víti fyrir Ísfirðinga og minnkar muninn í eitt stig.
– 50-49 Smith með teigskot fyrir KFÍ en hann virðist eitthvað lítillega meiddur í fæti en heldur þó áfram að spila, stingur vel í stúf er hann gengur.
– 50-46 Ágúst Angantýsson með þriggja stiga körfu, hans þriðji þristur í fjórum tilraunum og Ágúst kominn í 11 stig fyrir KFÍ.
– 50-43 Mirko gerir fyrstu stig KFÍ í síðari hálfleik með fínni hreyfingu á blokkinni, fyrstu stigin hjá Ísfirðingum eftir fjögurra mínútna leik í síðari hálfleik!
– 50-41 og byrjun Stjörnunnar orðin 9-0 á síðari hálfleik eftir að Hairston skorar og fær villu að auki en brennir af vítinu. Hairston kominn í 27 stig í liði Stjörnunnar og Ísfirðingar ráða illa við kappann.
– 48-41 Hairston að skora eftir glæsilega hraðaupphlaupssendingu frá Degi Kár. Heimamenn byrja vel og keyra upp hraðann, allt útlit fyrir að Ísfirðingar hafi hreinlega varið í Candy Crush í símanum í hálfleik…Birgir tekur leikhlé til að vekja sína menn.
– 46-41 og 6-0 rispa hjá Stjörnunni.
– 44-41 og Ísfirðingar með smjörlegna fingur og helst illa á boltanum þessar fyrstu mínútur síðari hálfleiks.
– Síðari hálfleikur er hafinn og heimamenn í Garðabæ byrja með boltann og það er Sigurður Dagur sem gerir sín sjöundu stig og kemur Stjörnunni í 42-41.
Skotnýting liðanna í hálfleik
Stjarnan: Tveggja 36% – þriggja 42% og víti 83%
KFÍ: Tveggja 39% – þriggja 47% og víti 50%
(Mirko Stefán til varnar en hann er með 12 stig í liði KFÍ í hálfleik)
2. leikhluti
– Hálfleikur, lokasókn Stjörnunnar vildi ekki verða að körfu og því leiða Ísfirðingar 40-41 í hálfleik.
– Fannar Helgason að fá tæknivilluaðvörun og Mirko kemur KFÍ í 40-41 með gegnumbroti þegar 15 sekúndur eru eftir af fyrri hálfleik. Teitur Örlygsson tekur leikhlé fyrir Garðbæinga.
– 37-39 Ágúst Angantýsson með þrist fyrir KFÍ en 40-39 Hairston svarar í sömu mynt.
– 37-36 og 1.39mín til hálfleiks, liðin skiptast á forystunni og það er komið gott fjör í þetta.
– Heimamönnum er að hitna höndin því Hairston var að skella niður þrist og koma Stjörnunni yfir 35-34 og kappinn kominn með 16 stig.
– 32-32 Fannar Freyr með örvhentan þrist og jafnar metin strax í fyrstu sókn eftir leikhlé.
– 29-32 og leikhlé í gangi þegar 3.48 mín. eru eftir af fyrri hálfleik.
– Ísfirðingar mættu til Garðabæjar með 9 leikmenn á skýrslu en heimamenn gátu ekki toppað það, 8 leikmenn á skýrslu og á bekk heimamanna í borgaralegum klæðum eru Justin Shouse, Jón Sverrisson og Sæmundur Valdimarsson og heima liggur veikur Marivn Valdimarsson.
– Staðan er 27-32 fyrir KFÍ og 5.05 mín. eftir af öðrum leikhluta…varnir beggja liða þéttari núna en í fyrsta leikhluta og höfum við það fyrir satt að stigaskorið sé nú rétt og löglegt.
– 25-26 og Hairston er núna allt í öllu hjá Stjörnunni en Smith ætlar ekki að vera neinn eftirbátur hans og svarar með þrist fyrir KFÍ og staðan 25-29 = okkur sýnist sem að KFÍ hafi aðeins verið með 23 stig eftir fyrsta leikhluta en ekki 24, það virðist hafa verið lagfært hér á stigatöflu í Ásgarði.
– 21-24 Sigurður Dagur með sóknarfrákast fyrir heimamenn og skorar að auki.
– Annar leikhluti er hafinn… og Junior Hariston opnar hann með teigkörfu, 19-24.
(Dagur Kár Jónsson gerir tvö stig fyrir Stjörnuna í fyrsta leikhluta gegn KFÍ)
1. leikhluti
– 17-24…Fyrsta leikhluta er lokið. Garðbæingar náðu góðum dampi eftir að hafa verið settir á hælana af heitum gestunum. KFÍ sleit sig aftur frá og eru með verðskuldað 7 stiga forskot eftir fyrstu 10 mínúturnar. Mirko með 7 hjá KFÍ og Hairston sömuleiðis í liði Stjörnunnar.
– 17-24 og Ísfirðingar bíta aðeins aftur frá sér.
– 17-20 Jón Hrafn „stórustrákar“ Kjartan Atla og gerir tvö stig í teignum, sterkur strákur hann Jón Hrafn og ætti í öllu falli að gera meira af þessu!
– 17-18 og 10-0 áhlaup Stjörnunnar í fullum gangi, Hairston var enda við að bruna upp völlinn og gera tvö góð stig og þar áður hafði víti fundið netið.
– 14-18 og Stjarnan á 7-0 skriði, allt annað að sjá til heimamanna.
– 12-18 og 5-0 kafli hjá Stjörnunni á tæpum tveimur mínútum svo Birgir Örn tekur leikhlé fyrir Ísfirðinga. Teitur hvæsti vel á sína menn í Stjörnuleikhléinu og líkast til hefur hann hrist sofandaháttinn úr sínum mönnum.
– 10-18 Sigurður Dagur smellir niður þrist fyrir Garðbæinga sem eru að reyna að blása lífi í sinn leik eftir skvetturnar frá KFÍ hér síðustu mínútur.
– 7-18 Guðmundur Jóhann Guðmundsson með þrist fyrir KFÍ og Ísfirðingar eru 4-5 í þristum hér eftir 5 mínútna leik og Teitur tekur leikhlé fyrir Stjörnuna.
– 7-15 og heimamenn í Stjörnunni sjá sóknarmenn KFÍ hvað eftir annað fá vilja sínum framgengt, Garðbæingar verða að þétta vörnina.
– 3-13 Mirko með þrist og Ísfirðingar byrja fantavel hér í Ásgarði.
– 0-5 byrjun hjá gestunum í KFÍ áður en Kjartan Atli kemur Stjörnunni á blað með þrist, 3-5.
– Byrjunarlið Stjörnunnar:
Dagur Kár Jónsson, Sigurður Dagur Sturluson, Kjartan Atli Kjartansson, Junior Hairston og Fannar Freyr Helgason.
Byrjunarlið KFÍ:
Jason Smith, Guðmundur Jóhann Guðmundsson, Jón Hrafn Baldvinsson, Mirko Stefán og Ágúst Angantýsson.
– Einhverjar tafir eru með framkvæmdabúnað leiksins núna…strax eftir uppkastið var leikur stöðvaður og eru liðin núna við bekki sína.
– Marvin Valdimarsson og Justin Shouse eru ekki í leikmannahópi Stjörnunnar í kvöld og hér í húsinu gengur Shouse við hækjur.
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á síðunni okkar. Með því að nota síðuna okkar samþykkir þú notkun vafraköku.
Þessi vefsíða notar vafrakökur
Vefsíður geyma vafrakökur til að auka virkni og sérsníða upplifun þína. Þú getur stjórnað stillingum þínum, en að loka fyrir sumar vafrakökur getur haft áhrif á afköst og þjónustu síðunnar.
Essential cookies enable basic functions and are necessary for the proper function of the website.
Name
Description
Duration
Cookie Preferences
This cookie is used to store the user's cookie consent preferences.