Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur í Ljónagryfjunni en leikurinn er sá síðasti í fimmtu umferð Domino´s deildar karla. Fyrir leikinn í kvöld eru liðin í 8.-9. sæti bæði með 4 stig.
Lokatölur í Ljónagryfjunni

4. leikhluti
– 74-86 LEIK LOKIÐ! Keflavík hafði góðan sigur í Ljónagryfjunni í kvöld. Allt leit út fyrir að um stórsigur yrði að ræða en Njarðvíkingar gyrtu í brók í fjórða leikhluta og náðu að minnka muninn niður í 12 stig, 74-86 lokatölur í kvöld og annað árið í röð sem Keflavík vinnur deildarleikinn í Ljónagryfjunni millum þessara erkifjenda parketsins.
– 70-80…leikhléi var að ljúka og 1.08mín til leiksloka. Mirko er á leið á vítalínuna og getur minnkað muninn í 9 stig…brennir af vítinu og Keflavík á boltann.
– 68-78 Salisbery minnkar muninn í 10 stig með gegnumbroti. 1.19mín til leiksloka. Þetta var of djúp hola. Keflavík á leið á vítalínuna…
– 66-78 Ágúst Orrason er búinn að rífa Njarðvíkinga áfram í leikhlutanum og nú setti hann þrist og minnkaði muninn í 12 stig! Njarðvík er að vinna fjórða leikhluta 30-12 og 2.02 mínútur eru til leiksloka. Tekst þeim að komast nær?
– 63-78 Slisbery með tvö stig í stökkskoti fyrir Njarðvíkinga.
– 57-76 Salisbery að setja tvö víti fyrir Njarðvíkinga og 4.18mín eftir.
– 54-72 Ágúst Orra með þrist en Keflvíkingar svara strax 54-74.
– 51-70 og leikhlé í gangi. 6.24mín til leiksloka og þó Njarðvíkingar hafi sýnt mun betri leik núna í fjórða heldur en í öðrum og þriðja hluta þá eru yfirgnæfandi líkur á því að skaðinn sé þegar skeður. Keflvíkingar láta ekki svona forskot svo trauðla af hendi. Munurinn var þó mestur 30 stig en er nú 19 stig.
– 47-68 Ágúst Orrason með Njarðvíkurþrist en 47-68 Davíð Páll svarar honum með stökkskoti fyrir Keflavík í Njarðvíkurteignum.
– 41-66 Ágúst Orrason skorar og fær villu að auki. 44-66 Logi bæti rvið þrist og munurinn kominn niður í 22 stig og 8.09 mín til leiksloka. 8-0 byrjun hjá Njarðvík.
– 38-66 Njarðvíkingar opna fjórða leikhluta…þeir hafa 10 mínútur til að bjarga restinni af andlitinu á sér sem Keflavík hefur lagt sig fram um að setja fýlusvip á í allt kvöld.
3. leikhluti 36-66
– 36-66 og þriðja leikhluta lokið. Reggie Dupree gerir síðustu stig leikhlutans fyrir Keflavík og kemur muninum upp í 30 stig. Keflavík vann leikhlutann 21-9.
– 36-62 og 1.58mín eftir af þriðja og Keflvíkingar taka leikhlé. Mann setur eiginlega hljóðan yfir frammistöðu heimamanna í kvöld. Keflvíkingar hafa spilað fast og vel og Njarðvíkingar hafa hitt nánast ekki neitt og eru víðsfjarri sínu besta.
– 36-60 Logi Gunnarsosn með hraðaupphlaupsstig fyrir Njarðvíkinga, ekki séð mörg svoleiðis í kvöld.
– 34-60 Guðmundur Jónsson með einn neðan úr bæ! Þetta er opinberlega orðið að slátrun. Njarðvíkingar eru algerlega ráðþrota! Heimamenn taka leikhlé þegar 4.51mín eru til leiksloka. Staðan í leikhlutanum er 7-15 fyrir Keflavík.
– 33-55 stolinn bolti hjá Keflavík sem lýkur með troðslu frá Damon Johnson. Keflvíkingar hafa nákvæmlega ekkert slakað á klónni og Njarðvíkingar eru jafn ráðþrota og þeir voru í öðrum leikhluta.
– 31-51 Guðmundur Jónsson kemur muninum upp í 20 stig með þrist fyrir Keflavík! Heimamenn eru 1-15 í þristum til þessa en gestirnir 7-17.
– 31-48 og 8.00 mín eftir af þriðja.
– 29-45 Hjörtur Hrafn opnar síðari hálfleikinn fyrir Njarðvíkinga en Graves svarar með þrist, kallinn kann vel við sig í Ljónagryfjunni og staðan orðin 29-48.
– Síðari hálfleikur er hafinn og Njarðvíkingar byrja með boltann.
Hálfeikstölfræðin

William Thomas Graves er stigahæstur í hálfleik hjá Keflavík með 12 stig og 3 fráköst og þeir Valur Orri og Damon Johnson eru báðir með 10 stig. Hjá Njarðvík er Dustin Salisbery með 11 stig og þeir Logi Gunnarsson og Hjörtur Hrafn Einarsson eru báðir með 6 stig.
2. leikhluti: 27-45
– 27-45 og kominn hálfleikur í Ljónagryfjunni! Keflvíkingar með algera einstefnu hér í öðrum leikhluta og völtuðu yfir Njarðvíkinga 6-24. Vörn Keflavíkur algerlega til fyrirmyndar og Njarðvíkingar gerðu allt til að láta hana líta jafnvel enn betur út með endalausum þriggja stiga skotum.
– 26-45 Damon Johnson með fyrstu mönnum fram og setur tvö hraðaupphlaupsstig í bakið á Njarðvíkingum með stökkskoti. Keflvíkingar leika hér á als oddi.
– Teitur Örlygsson les hér sínum mönnum pistilinn í Ljónagryfjunni – þetta var hárþurrkumeðferð!
– 26-43 Eysteinn Bjarni skilar niður alley-up sniðskoti og fær villu að auki! Keflvíkingar með 5-21 dembu hér í öðrum leikhluta og Njarðvíkingar taka aftur leikhlé.
– 26-40…Damon með þrist og Keflvíkingar eru að stinga af. Það gengur ekkert upp hjá Njarðvíkingum því nú strax í næstu sókn var dæmt skref á Salisbery.
– 25-35 Davíð Páll með stökkskot í teignum fyrir Keflvíkinga. Heimamenn ráða illa við vigtinga í Keflavík núna, Graves, Damon og Davíð fara grimmt á körfuna á meðan Njarðvíkingar halda sig fremur við þriggja stiga skotin og þau eru ekki að falla.
– 25-33 William Thomas Graves er dottinn í gírinn og stóri maðurinn farinn að raða fyrir utan. Mun meira líf í Keflvíkingum um þessar mundir. Graves með tvo þrista og körfu í teignum á skömmum tíma og Njarðvíkingar biðja um leikhlé þegar 4.45mín eru eftir af öðrum leikhluta.
– Annar leikhluti er hafinn og staðan 21-23, Keflvíkingar með fyrstu stig leikhlutans. 23-23 Dustin jafnar fyrir heimamenn eftir stolinn bolta og lýkur sókninni með laglegri troðslu.
– Smá töf er á að annar leikhluti hefjist, stigataflan sýndi 21-22 fyrir Keflavík þegar fyrsta leikhluta lauk en nú eru dómarar leiksins að ráða ráðum sínum með ritaraborðinu.

1. leikhluti: 21-21
– 21-21 og fyrsta leikhluta lokið. Þessar fyrstu tíu mínútur fóru rólega af stað. Bæði lið náðu þó að stilla sig betur af og sækja meira að körfunni og láta aðeins af þristaregninu en alls 15 slíkir fóru á loft þessar 10 mínútur. Það hitnaði vel í kolunum milli Vals Orra og Dustins í liði Njarðvíkinga og nokkuð ljóst að hér seljast hlutirnir dýrt.
– 18-19 Logi Gunnarsson minnkar muninn fyrir Njarðvík af vítalínunni.
– Það liggur við slagsmálum þar sem Dustin Salisbery lá í gólfinu og vildu Njarðvíkingar meina að Valur hefði sent Dustin í góflið. Sá bandaríski var allt annað en sáttur og átti orðastað við Val Orra og fékk dæmt á sig tæknivíti fyrir vikið.
– 1.27mín eftir af fyrsta leikhluta og Njarðvíkingar eru allt annað en sáttir hérna!
– 14-17 Valur Orri með sinn annan þrist fyrir Keflvíkinga og kominn með 8 af 17 stigum gestanna.
– 11-11 Þröstur Leó jafnar fyrir Keflvíkinga.
– Keflvíkingar voru að splæsa í loftboltaþrist…þetta ætti að segja báðum liðum að það dugir skammt að slæpast bara þarna fyrir utan.
– 9-7 Hjörtur Hrafn setur þrist fyrir Njarðvíkinga en það hafa sjö þristar verið settir á loft í leiknum á fyrstu fjórum mínútunum.
– 4-5 Logi Gunnarsson minnkar muninn fyrir Njarðvík en þetta fer varfærnislega af stað hjá báðum liðum.
– 2-0 Njarðvíkingar opna leikinn eftir gott samspil hjá Loga Gunnarssyni og hirti Hrafni en Valur Orri svarar að bragði með þrist fyrir Keflavík.
– Leikur hafinn! Njarðvíkingar unnu uppkastið.
Byrjunarlið Njarðvíkur: Logi Gunnarsson, Maciek Baginski, Dustin Sailsbery, Rúnar Ingi Erlingsson og Hjörtur Hrafn Einarsson.
Byrjunarlið Keflavíkur: Valur Orri Valsson, Damon Johnson, Þröstur Leó Jóhannsson, Guðmundur Jónsson og William Thomas.
– Dómarar leiksins eru þeir Rögnvaldur Hreiðarsson, Davíð Kr. Hreiðarsson og Leifur Garðarsson.
– Ólafur Helgi Jónsson er ekki með Njarðvíkingum í kvöld sökum meiðsla en hann er að glíma við vandræðagang í öðru hnéi.
– Verið er að kynna liðin til leiks. Ungir iðkendur Njarðvíkinga setja skemmtilegan svip á leikmannakynninguna.



