spot_img
HomeFréttirBein textalýsing: Dýrmætur sigur Njarðvíkinga

Bein textalýsing: Dýrmætur sigur Njarðvíkinga

Bein textalýsing frá viðureign Njarðvíkur og ÍR í Domino´s-deild karla í Ljónagryfjunni. Gríðarlega spennandi slagur þar sem Njarðvíkingar berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni og þá eru stigin ÍR-ingum ekki síður mikilvæg í þessari gríðarlega jöfnu og spennandi deild.

4. leikhluti

79-72 LEIK LOKIÐ

77-72 Björn setur bætði 14 sek eftir

Erfiður þristur hjá Quincy og Hákon brýtur strax og 17 sek eftir. Ein villa í bónus og hana halar Matthías Orri inn. Björn Kristjánsson getur gert út um leikinn nánast hér á línunni.

36 sek eftir og Njarðvíkingar kasta boltanum útaf! ÍR á leið í sókn.

1.07 mín – skjótt skipast veður í lofti! ÍR er dæmdur boltinn, þar sem dæmd er ólögleg hindrun á Snjólf Marel og blásið til leikhlés. Þessi villa var fimmta villa Snjólfs í leiknum.

1.12mín eftir og hér fellur risavaxinn dómur – dæmdur ruðningur á Quincy sem er allt annað en sáttur!

75-70 Myreon Dempsey með sóknarfrákast og troðslu fyrir heimamenn en ÍR-ingar svara og 75-72 þegar 1.30mín eru eftir!

73-70 Quincy með 2 víti fyrir ÍR og kappinn kominn í 30 stig.

73-68 Dempsey aftur í ÍR-teignum og 3.15mín eftir.

71-68 Myron Dempsey setur bæði vítin fyrir Njarðvíkinga.

3.50mín eftir og Danero Thomas fer af velli með sína fimmtu villu fyrir brot á Myron Dempsey, rándýr villa fyrir ÍR og Thomas virðist ekki sáttur með villuna.

67-68 Sveinbjörn Claessen með stökkskot fyrir ÍR. 69-68 Snjólfur svarar fyrir heimamenn.

5.02mín og liðin skiptast hreinla síðustu sóknir á því að grýta frá sér boltanum, ekki laust við að taugatitring í þessu og hver karfa vigtar nú þyngd sína nánas í gulli.

67-66 Myron Dempsey skorar fyrir Njarðvíkinga í ÍR-teignum og stelur svo boltanum í næstu vörn.

65-66 og 6.20mín eftir af leiknum, nú er þetta bara stál í stál, ekki líklegt að það verði sama stiga skor og í þriðja leikhluta, nú tekur refskákin við!

7.59mín eftir og Davíð Tómas Tómasson dómari dæmir óíþróttamannslega villu á Jón Arnór Sverrisson sem Njarðvíkingar eru allt annað en sáttir við. Danero fer á línuna og setur bæði vítin og kemur ÍR í 65-66.

65-64 Logi Gunnarsson fyrir Njarðvík af vítalínunni, Daði Berg braut á honum og fékk þar sína fjórðu villu í liði ÍR.

63-61 Logi skorar fyrir Njarðvík en Matthías Orri kemur ÍR svo í 63-64.

Lokaleikhlutinn er hafinn

3. leikhluti 61-61

Mögnuðum þriðja leikhluta lokið og staðan 61-61 og Njarðvík vann leikhlutann 28-24 þar sem Logi Gunnarsson fór algerlega á kostum og er kominn með 22 stig í liði Njarðvíkinga.

40 sek og Jón Arnór Sverrisson með þrist fyri rhiemamenn 61-58 en Claessen fer yfir og jafnar með þrist 61-61.

49 sek eftir og Quincy brýtur á Loga Gunnars og fær þar sína þriðju villu í leiknum og Borce skellir honum á tréverkið þessar síðustu sekúndur leikhlutans.

1.05mín eftir af þriðja og Njarðvíkingar brjóta á Matthíasi sem fær tvö skot og hittir bara úr því síðara og jafnar leikinn 58-58.

58-52 Matthías og Quincy, litla parið! Enn einn alley-up tilþrifin frá þessum gæjum! 58-55 og ÍR vinnur boltann og smellir í þrist. Þetta er svo svakalegur leikur krakkar…

Atkinson að fá sína þriðju villu hjá Njarðvík þegar 3mín eru eftir af þriðja leikhluta. Quincy fer á línuna og setur tvö víti fyrir ÍR og minnkar muninn í 55-50.

53-47 Logi Gunn! Jú jú, eins og troðslunar hrundu inn hjá Quincy í fyrri rignir nú þristum í boði Loga Gunnarssonar. Það er playoff-mode í gangi hérna gott fólk og við erum bara stödd í næstsíðustu umferð deildarkeppninnar #veisla

47-47 Matthías Orri með villu og körfu góða sem funheitur Logi Gunnarsson svarar með þrist fyrir Njarðvíkinga 50-47! Logi kominn í 17 stig.

47-44 Myron Demspey skorar úr stökkskoti fyrir heimamenn.

45-44 Logi Gunnarsson með annan þrist og Njarðvíkingar taka heldur betur við sér, landsliðskempan að snögghitna hérna og þá tekur Borce Ilievski þjálfari ÍR leikhlé fyrir sína menn. 6.27mín eftir af þriðja.

40-44 Jóhann Árni fær sína þriðu villu fyrir brot á Quincy sem skorar og fær víti að auki en hittir ekki úr vítaskotinu.

40-42 Logi Gunn með fimm stig í röð fyrir heimamenn!

35-42 Matthías Orri setur þrist fyrir ÍR, langþráður þristur fyrir gestina…vekur það nýtinguna líka í heimamönnum?

33-39 Quincy blakar niður sóknarfrákasti eftir skot frá Matthíasi Orra. 35-39 Myron Dempsey svarar með körfu í teignum fyrir Njarðvík í næstu sókn.

Síðari hálfleikur er hafinn og það eru ÍR-ingar sem byrja með boltann.

Þá er vel að merkja að ef ÍR vinnur þennan leik er ljóst að Njarðvíkingar eiga ekki lengur möguleika á þátttöku í úrslitakeppninni þetta árið og gildir þá einu hvernig úrslitin verða í þeirra leik og öðrum leikjum í lokaumferðinni á fimmtudag. Ef það gerist verður það í fyrsta sinn frá upphafi 8-liða úrslitakeppni sem Njarðvíkingar eru ekki með!

Fimm mínútur í að síðari hálfleikur hefjist. Eitthvað þurfa Njarðvíkingar að galdra fram úr pokanum í síðari hálfleik gagnvart Quincy Hankins-Cole sem hefur farið á kostum með hverri tröllatroðslunni á fætur annarri í fyrri háflleik.

Skotnýting liðanna í hálfleik

Njarðvík: Tveggja 40% – þriggja 7% (1-14) og víti 73%
ÍR: Tveggja 53% – þriggja 8% (1-12) og víti 85%

2. leikhluti 33-37

Hálfleikur: 33-37 Njarðvíkingar komust inn í lokasendingu gestanna og ÍR leiðir því með fjórum stigum í hálfleik. Quincy Hankins-Cole með 18 stig í liði ÍR og 8 fráköst en hjá Njarðvík er Jeremy Atkinson með 11 stig.

1,5 sek eftir þegar dæmt var tæknivilla á Jóhann Árna Ólafsson í liði Njarðvíkinga. Matthías Orri brenndi af vítinu fyrir ÍR en gestirnir eiga innkast núna…

33-37 Quincy með sóknarfrákast í loftinu og treður með tilþrifum, gæinn er sjóðandi með 18 stig og 8 fráköst hér í fyrri hálfleik.

34 sek til hálfleiks og Danero Thomas að fá sína þrijðu villu í liði ÍR, hann og Daði Berg eru báðir á 3 villum. Atkinson fer á línuna og minnkar muninn í 33-35.

30-35 jú þið gátuð rétt, Quincy var að troða fyrir ÍR. Gæinn  er með segul í handleggjunum og svei mér ef hann ætlar sér ekki að rífa þessa körfu niður. Kominn með 16 stig kappinn og ber uppi stigaskorið í liði gestanna.

29-29 Jóhann Árni jafnar fyrir Njarðvík af vítalínunni. 29-31 Quincy með sóknarfrákast svo á hinum endanum og blakar boltanum ofan í og kemur ÍR yfir að nýju.

27-29 Quincy með aðra troðslu, nú alley-up frá Matthíasi, stórglæsileg leikflétta.

27-27 Quincy með tvö víti svo nú er ÍR á 6-0 rönni þessa stundina.

27-25 og leikhlé í gangi þegar 3.12mín eru til hálfleiks. Það hefur lítið verið skorað í þessum öðrum leikhluta, Njarðvíkingar leiða leikhlutann 9-7 eftir sjö mínútna leik. Enn láta þristarnir bíða eftir sér, Njarðvík 1-13 og ÍR 1-11 svo þetta gerist nokkuð í kringum teiginn.

27-23 hraðaupphlaup hjá ÍR og Quincy listamaður með enn eina tröllatroðsluna, mesta furða að karfan hangi enn.

Oddur Rúnar var að koma inn í liði Njarðvíkinga…hans fyrstu mínútur í háa herrans tíð.

27-21 aftur er það Logi Gunnarsson sem skorar fyrir Njarðvíkinga af vítalínunni og í næstu sókn ver Myron Dempsey suddalega skot frá Danero Thomas. Skrímslablokk.

Bæði lið þegar hér er komið við sögu í leiknum (5mín í hálfleik) eru 1-10 í þristum svo ekki eru það langskotin sem vilja niður þennan fyrri hálfleikinn en það opnast nú oftar en ekki fyrir þá dembu, spurning hvoru megin það verður?

Á fyrstu 14 mínútum leiksins hafa sjö Njarðvíkingar skorað en aðeins fjórir í liði ÍR. Hjá Njarðvík er Atkinson með 8 stig en hjá ÍR er Danero með 7 stig.

25-21 Logi með víti eftir að dæmd var óíþróttamannsleg villa á ÍR-inga sem gestirnir voru ekkert allt of sáttir við og gott ef þeir höfðu ekki bara nokkuð til síns máls.

23-21 Adam Eiður Ásgeirsson setur niður þrist fyrir Njarðvíkinga.

Annar leikhluti hafinn, hann opnaði Demspey og kom Njarðvík í 20-18 en Danero Thomas svaraði með þrist fyrir ÍR og staðan 20-21.

1. leikhluti 18-18

1,5 sek eftir og ÍR á innkast og koma boltanum í leik, Atkinson brýtur þá klaufalega á Matthíasi Orra og þar sem þetta var fimmta liðsvilla heimamann fékk Matthías tvö skot, setti þau bæði niður og jafnaði metin 18-18 og staðan því jöfn að loknum fyrsta leikhluta.

18-16 Atkinson með 2 víti fyrir Njarðvík, kominn með 8 stig inn af bekknum.

16-16 Hákon Örn jafnar fyrir ÍR nýkominn af bekknum, afgreiddi þetta snyrtilega í hraðaupphlaupi.

14-12 Atkinson og Logi með gott samspil og koma heimamönnum yfir.

12-12 og leikhlé í gangi þegar 3.09 mín eru eftir af fyrsta leikhluta.

Rúmar sex mínútur liðnar og aðeins búið að dæma eina villu á hvert lið og þetta hefur flætt vel hérna í upphafi. Nokkuð um mistök á báða bóga en varnirnar eru þéttar.

10-8 Myron Demspey kemur Njarðvík yfir með góðri körfu í teignum, stemmningin er rafmögnuð í Ljónagryfjunni og alveg kýrskýrt að hér selja menn sig dýrt.

6-8 Matthías Orri með gott gegnumbrot fyrir ÍR.

2-2 Jóhann Árni gerir fyrstu stig heimamanna.

0-2 Quincy byrjar þetta á alley-up troðslu fyrir ÍR og það kætti Breiðhyltinga í stúkunni svo um munar, svona á að opna!

Leikur hafinn

Njarðvíkingar hafa alltaf tekið þátt í úrslitakeppninni frá því hún hóf að telja átta lið frá árinu 1995. Sú staðreynd er í stórfelldri hættu akkúrat í kvöld og það er sigursælasta félag körfuboltans í karlaflokki sem ógnar þeirri staðreynd. Hér mætast stórveldi af gamla skólanum og munu gefa okkur epíska glímu.

Litla stemmningin í Ljónagryfjunni!

Ghetto-Hooligans eiga stúkuna hér nokkrum mínútum fyrir leik, þetta eru stuðningsmenn sem láta vel í sér heyra.

*Oddur Rúnar Kristjánsson er mættur í búning í liði Njarðvíkinga en hann hefur verið fjarverandi lungann út tímabilinu vegna meiðsla.

Byrjunarlið Njarðvíkur: Snjólfur Marel Stefánsson, Myron Dempsey, Logi Gunnarsson, Björn Kristjánsson og Jóhann Árni Ólafsson.

Byrjunarlið ÍR: Daði Berg Grétarsson, Matthías Orri Sigurðarson, Sveinbjörn Claessen, Danero Thomas og Quincy Hankins-Cole.

Fyrir leik:

Ghetto-Hooligans eru mættir í hús og það fylgir þeim fjör, það vantar ekki.

Leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport.

Dómarar kvöldsins eru Davíð Tómas Tómasson, Leifur Garðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson.

Fréttir
- Auglýsing -