spot_img
HomeFréttirBárður: Liður í að skrá sögu félagsins

Bárður: Liður í að skrá sögu félagsins

12:00

{mosimage}

Bárð Eyþórsson þarf ekki að kynna fyrir nokkrum körfuknattleiksáhugamanni en Hólmarinn góðkunni stýrir liði Fjölnis í dag í úrslitum Lýsingarbikarsins. Hann var þögull sem gröfin þegar Karfan.is spurði hann út í taktík dagsins á sameiginlegum blaðamannafundi KKÍ og Lýsingar fyrr í vikunni.

Bárður hefur farið áður í bikarúrslit, einu sinni sem leikmaður og einu sem þjálfari með Snæfell og sagði bikarúrslitaleik einfaldlega vera draum hvers körfuboltamanns. ,,Það er alltaf draumur að komast í úrslit og í Höllina. Þetta er draumur allra körfuboltamanna,” sagði Bárður en lið hans Fjölnir hefur farið einu sinni áður og tapað. ,,Þetta er leikur sem fer í reynslubankann hjá þessu félagi – þetta er ungt félag með unga leikmenn og það er búin að vera uppbygging hér í nokkur ár og henni er ekkert lokið. Þetta er liður í að komast skrá sögu félagsins að komast í svona leiki hvort sem við vinnum eða ekki. Við erum að skrifa ákveðna sögu og það er þetta sem leikmenn og félagið lítur til baka seinna meir.”

Ekki vildi Bárður gefa það upp hvernig hann myndi leggja leikinn upp í dag en sagði að sínir menn yrðu að vera tilbúnir. ,,Við reynum að gera ákveðna hluti í leiknum sem vonandi koma til með að virka í leiknum. Ég mun ekkert gefa upp hvað við leggjum upp með. En aðalatriðið er að menn komi einbeittir í það sem við munum gera.”

Það má gera ráð fyrir því að allir Hólmarar verði í Höllinni í dag og þar með fjölskyldumeðlimir Bárðs úr Stykkishólmi. En hvor megin heldur hann að þau muni sitja – Fjölnismegin eða Snæfellsmegin. ,,Ég veit það ekki en þau eru Hólmarar. Þau koma kannski til með að klappa fyrir báðum liðum,” sagði Bárður í léttum tón. ,,Þetta á eftir að koma í ljós.”

,,Margir Hólmarar hafa hringt í mig undanfarna daga og þeir geta alveg unnt mér að vinna leikinn. Þannig að þau geta fagnað á tvo vegu,” sagði Bárður að lokum en leikur Snæfells og Fjölnis hefst kl. 16:00 í Laugardalshöll.

[email protected]

Mynd: visir.is

Fréttir
- Auglýsing -