Gengið hefur verið frá ráðningu Bárðar Eyþórssonar í þjálfarastól Tindastóls í Iceland Express deild karla. Borce Ilievski sagði starfi sínu lausu á fimmtudagskvöld eftir ósigur liðsins gegn Fjölni. Á heimasíðu Tindastóls segir í dag:
Samkvæmt samtali við Geir Eyjólfsson formann deildarinnar hefur verið gengið frá samningi við Bárð og tekur hann strax við liðinu, en Stólarnir eiga heimaleik gegn Stjörnunni á morgun í Lengjubikarnum.
Fundur verður með leikmönnum meistaraflokks í dag og síðan mun Bárður stjórna sinni fyrstu æfingu hjá liðinu kl. 18:30. Bárður var síðast við þjálfun hjá Fjölni í Grafarvogi tímabilið 2009 – 2010, en hann var þar í hálft fjórða ár . Þar áður þjálfaði hann lið ÍR og Snæfells auk þess sem hann á leikmannaferil hjá Snæfelli og Val.
Geir Eyjólfsson formaður deildarinnar sagði einnig að eftir væri að ganga frá málum við Borce um þjálfun yngri flokka, en hann vonaðist til að hann mundi halda áfram þjálfun þeirra flokka sem hann er með í dag.