spot_img
HomeFréttirBárður: Höfðum aldrei samband við leikmanninn að fyrra bragði

Bárður: Höfðum aldrei samband við leikmanninn að fyrra bragði

Bárður Eyþórsson þjálfari Tindastóls segir að Tindastólsmenn hafi ekki haft samband við Igor Tratnik að fyrra bragði en Igor er enn samningsbundinn Valsmönnum í Iceland Express deild karla. Í gær vitnaði Karfan.is í frétt á Feykir.is um málið en þar var því haldið fram að Tratnik væri á leið í raðir Tindastóls.
Í morgun svöruðu Valsmenn þar sem kom fram að Igor Tratnik væri enn samningsbundinn félaginu. 
 
,,Við höfðum ekki samband við Igor sjálfan, við höfðum aldrei samband við leikmanninn að fyrra bragði og tökum ekki þátt í því að stela leikmönnum frá liðum þar sem þeir eru samningsbundnir,“ sagði Bárður Eyþórsson í samtali við Karfan.is.
 
,,Ég leit svo á að Igor væri á lausu fyrst það væri verið að bjóða hann. Mér þykir miður að þetta sé komið í svona umræðu og ég ætla að biðja vini mína í Val afsökunar á því að þetta hefði farið í þennan farveg. Þetta er ekki það sem ég eða Tindastóll erum að reyna að gera,“ sagði Bárður og staðfesti einnig að Myles Luttmann væri farinn frá félaginu.
 
,,Það var meiningin að fylla hans skarð en við sjáum til hvað verður en tek það enn og aftur fram að það er alveg á hreinu að við höfðum ekki samband við leikmanninn að fyrra bragði. Okkur var boðinn þessi leikmaður af umboðsmanninum hans og því gengum við út frá því að hann væri á lausu víst verið væri að bjóða hann.“
 
Fréttir
- Auglýsing -