spot_img
HomeFréttirBaráttusigur Þórs á Stjörnunni (Umfjöllun)

Baráttusigur Þórs á Stjörnunni (Umfjöllun)

22:06

{mosimage}

Óðinn Ásgeirsson lék vel í dag 

Í dag tóku Þórsarar á móti Stjörnuni á heimavelli sínum Síðuskóla í 16. umferð í Iceland Express deildinni í körfuknattleik. Fyrir leikinn sátu heimamenn í 10. sæti með 10 stig, en gestirnir frá Garðabæ sátu í því 9. með 10 stig. Leikurinn var því mjög mikilvægur fyrir bæði lið þar sem bæði liðin eru í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppninni. Heimamenn byrjuðu leikinn vel, en gestirnir tóku fljótt við sér og leiddu lengi vel í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik var jafnt með liðinum, en heimamenn í Þór voru sterkari á lokakaflanum og náðu að tryggja sér fimm stiga sigur, 89-84.

 

Gestirnir frá Garðabæ skoruðu fyrstu stig leiksins, en eftir það skiptust liðin á að skora, en góður kafli hjá heimamönnum í miðbik 1. fjórðungs náðu þeir fjögurra stiga forystu 18-14. Gestirnir komu þó strax til baka og náðu fljótt að breyta stöðunni, og góður lokakafli í fyrsta fjórðung náðu gestirnir sex stiga forustu í leiknum og leiddu leikinn í lok fjórðungsins, 19-25.

Þórsarar byrjuðu annan leikhluta betur og skoruðu fyrstu fjögur stig fjórðungsins, en Adam var ekki lengi í Paradís, og skömmu seinna fékk Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs á sig tæknivillu, og gestirnir náðu sjö stiga forystu, 25:30. Smátt og smátt náðu heimamenn að minnka forskot gestanna, og náðu að jafna leikinn í lok fjórðungsins 42:42, og þannig varð staðan í hálfleik.

Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs virtist hafa kveikt aðeins í sínum mönnum á hálfleik, enda komu lærisveinar hans grimmari í byrjun 3. leikhlutarins og náðu fljótt sjö stiga forskoti 56:49. Þar fór Óðinn Ásgeirsson fremstur fyrir heimamenn, og gestirnir réðu einfaldlega ekkert við Óðinn sem kláraði skotin sín mjög vel. En stjörnumenn neituðu að gefast upp, með góðri baráttu náðu gestirnir að koma til baka og minnkuðu forskot heimamanna niður í eitt stig undir lok 3. leikhluta. Þar fór Dimitar Karadovski og Jovan Zdravals fyrir sínum mönnum.

Fjórði leikhluti var jafn lengi vel, þó voru heimamenn í Þór ávallt skrefinu á undan þar sem Cedric Isom fór fyrir heimamönnum í sókninni. Stjörnumenn náðu þó ávallt að halda í við heimamenn, en í lokin voru heimamenn sterkari og kláruðu leikinn á vítalínunni og fóru með góðan fimm stiga sigur af hólmi, 89-84.

Þórsarar unnu leikinn á liðsheildinni, þó svo að Cedric og Óðinn hafi verið mest áberandi í sóknarleiknum, léku allir leikmenn liðsins sitt hlutverk ágætlega. Fátt er hægt að skrifa um nýjasta leikmann Þórs, þar sem þetta var hans fyrsti leikur og á eftir að læra inn á samherja sína. Hins vegar skilaði hann sínu hlutverki ágætlega eins og flestir leikmenn Þórs. Í liði Stjörnunnar áttu Dimitar Kapadovski og Jovan Zdravels góðan leik, og reyndar skiluðu flestir leikmenn Stjörnunar sínu hlutverki vel.

Bragi Magnússon þjálfari Stjörnunnar var að vonum svekktur með tapið ,, Já ég er mjög svekktur með tapið við vitum að við getum unnið þetta lið. Þetta er erfiður heimavöllur, önnur lið hafa verið að tapa hér og lenda í miklum vandræðum. Við vissum að við værum að ganga í orustu og það varð úr. Við hefðum vilja hafa sex stig í viðbót og vinna þennan leik. En það sem skiptir málum í lokin að við eigum sjö stig á þá frá heimaleiknum okkar. Við eru yfir á innbyrðis viðureignum ef liðin verða jöfn í lok leiktíðar eru líkur til að við verðum fyrir ofan þá, en það hefði samt verið betra að fara héðan með tvö stig. Já á tímabili gekk okkur rosalega illa að stoppa Óðinn þá var hann rosalegur og kláraði færin mjög vel fyrir Þór. Hann átti rispur og kom Þór í stuð. Við náðum svo að loka á hann en kannski of seint. Já Dimitar var góður, en ég er sáttur við alla mína  menn. Við eru alveg fram á síðustu sekundur inni í þessum leik, ég er alltaf sáttur ef menn ná að halda sér inn í leiknum fram á seinustu mínútur en við verðum að fara ná að klára þá leiki sem eru jafnir við megum ekki við að gera mörg mistök. Já baráttan um að komast í úrslitakeppnina heldur áfram við hættum ekkert. Þór á gott prógram eftir en við eigum erfiða leiki framundan, KR- Keflavík, Njarðvík og ÍR svo að við erum að fara í rosalega erfitt prógram og við verðum að standa okkur vel í því til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Hrafn Kristjánsson var að vonum kátur með sigurinn ,, Jú ég er mjög sáttur þó eru einhver hluti leiksins sem ég er ekki sáttur við. Við vorum búnir að gefa góð fyrirheit á æfingunum fyrir leikinn en það er svona þegar nýr maður kemur inn og hann svo sem lítur út fyrir að kunna allt sem við erum að gera og kannski á öðrum spennustigi það vantaði kannski eina, tvær sendingar eitt tvö skrín aðeins meira flæði í sóknarleikinn þarna í seinni hálfleik en við gerðum nóg til þess að vinna. Í lokin vorum við að reyna ná þessum átta stigum sem við vildum ná. Nú verðum við að einblína á hvað við gerðum rangt varðandi okkar hjálparvörn og varðandi ákvarðanatöku í sóknarleiknum. Það að fara til Hveragerðis og spila við Hamar er einststakt í hvert skipti þeir virðast ná ótrúlegum úrslitum hvað eftir annað. Það er fyrst og síðast spennustjórn og andlegi þátturinn sem við verðum fyrst og síðast að vinna í fyrir þann leik.
 
Eftir leikinn er Þór komið upp í 8. sæti deildarinnar með 12 stig líkt og ÍR og Tindastóll. 

Næsti leikur Þórs verður fimmtudaginn 14. febrúar á útivelli gegn Hamri úr Hveragerði og hefst sá leikur kl. 19:15.
Næsti heimaleikur Þórs verður svo sunnudaginn 17. febrúar og hefst sá leikur kl. 19:15.  
Tölfræði leiksins má sjá hér

www.thorspor.is – Sölmundur Karl

Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Fréttir
- Auglýsing -