spot_img
HomeFréttirBaráttusigur Njarðvíkur í TM-Höllinni

Baráttusigur Njarðvíkur í TM-Höllinni

Eftir bikarleikinn í vikunni milli kennaliða Keflavíkur og Njarðvíkur var fátt sem benti til þess að Njarðvíkurstúlkur ættu nokkur séns á sigri í Keflavíkinni í kvöld.  En þær grænklæddu komu flestum nema sjálfum sér á óvart í kvöld og lögðu lið Keflavíkur á þeirra eigin heimavelli 57:66 og leiddu í hálfleik 26:27. 
Það er óhætt að segja að Njarðvíkurstúlkur voru í bílstjórasætinu í þessum leik frá upphafi. Þær höfðu forystuna megnið af leiknum og komust mest í 9 stiga forystu.  Keflavíkurstúlkur voru ekki að spila vel að þessu sinni, í það minnsta ekki jafnvel og síðastliðin mánudag. Tapaðir boltar flugu um allan völl hjá þeim en í heildina litu 24 slíkir dagsins ljós. Mikið munaði um lykilleikmenn og þar munaði mest um framlag frá Bryndísi Guðmundsdóttur sem hefur verið að spila feykilega vel í allan vetur.  
 
En það er nú einu sinni þannig að lið spila ekki betur en varnarleikur andstæðingana leyfir. Hugsanlega má jú líklega skella einhverju á vanmat, en þetta Njarðvíkurlið hefur sannað það í vetur að þær geta staðið í nánast öllum liðum þegar sá gállinn er á þeim.  Þær hafa nú eftir áramót farið á tvo erfiða útivelli og komið þaðan út með sigra.   Agnar Mar Gunnarsson virðist vera að ná að koma sjálfstrausti í þessar stelpur og trú á verkefnum sínum. Í kvöld voru þær töluvert einbeittari en í fyrri leik liðanna og það skilaði þeim þessum verðskuldaða sigri.  Þessi sigur ætti svo sannarlega að blása sjálfstrausti í Njarðvíkurliðið því þetta var jú sigur á öðru toppliði deildarinnar á þeirra heimavelli. 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -