KFÍ vann baráttusigur á Grindvík B, 41-28, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna á Ísafirði á sunnudag. Grindvíkingar fóru illa með fjölda færa en heimastúlkur spiluðu agað og unnu verðskuldaðan sigur.
Seint verður sagt að fyrsti fjórðungur hafi einkennst af leiftrandi sóknarleik en staðan að honum loknum var 7-5. Heldur gekk liðunum betur að skora í öðrum fjórðungi en Ísfirðingar höfðu sjö stiga forustu í hálfleik, 22-15. Í þriðja leikhluta stungu þær af, komust í 35-23 en lokatölurnar urðu sem fyrr segir 41-28.
Grindavíkurstúlkur virkuðu oft hræddar í upplögðum færum. Þær létu boltann ganga vel en þegar boltinn var kominn á leikmann í góðu skotfæri annað hvort guggnaði hann alveg, og sendi boltann aftur til baka, eða beið nógu lengi til að fá varnarmann í sig sem eyðilagði færið. Lítil hreyfing var á gestaliðinu án bolta. Þegar færin gáfust svo hittu Grindavíkurstelpur ekki og vítin fóru alls ekki ofan í.
KFÍ-liðið var ívið hávaxnara sem skilaði því fleiri fráköstum og nokkrum vörðum skotum.Leikur þess var agaður og þær nýttu færi sín ágætlega. Eva Kristjánsdóttir, sem hélt upp á fjórtán ára afmæli sitt daginn eftir leikinn, átti ágætan leik og skoraði 12 stig. Hún er kvik í hreyfingum
og reyndist Grindavíkurliðinu oft erfitt að stöðva hana nema með harkalegum hætti. Stefanía Ásmundsdóttir var stigahæst í liði KFÍ með 14 stig.
Ísfirðingar og KKÍ mega á móti skoða utanumhald leikjanna. Þótt leikurinn hafi verið töluvert harður verður seint sagt að dómararnir hafi ráðið úrslitum. KFÍ hefur undanþágu frá því að fá dómara að sunnan, enda fylgir slíkum ferðalögum mikill kostnaður og sennilega meiri hagur fyrir deildina að fá fleiri lið. Á móti verða Ísfirðingar að sýna bæði dómurum og leikmönnum meiri virðingu en þá að seinka þurfi upphafi leiks þar sem enn sé verið að redda dómurum. Vestra ættu líka að vera dómarabúningar á lager sem dómararnir geta hleypt sér í. Virðing leikmanna fyrir dómurum og trúverðugleiki þeirra minnkar þegar þeir eru aðeins í hversdagsfötunum. Það verður alltaf á brattann að sækja, jafnvel þótt þeir dæmi vel.
Texti og myndir: Gunnar Gunnarsson



