spot_img
HomeFréttirBaráttusigur Blika í Smáranum

Baráttusigur Blika í Smáranum

Það var ágætlega mætt og prýðileg stemmning í Smáranum í kvöld þegar heimamenn í Breiðabliki tóku á móti Fjölnismönnum í undanúrslitum 1. deildar karla. Fjölnismenn unnu öruggan sigur í fyrsta leik einvígisins 93-66 og því þurftu heimamenn að snúa taflinu við og sigra í kvöld til að knýja fram oddaleik.
 
 
Heimamenn byrjuðu betur og komust í 7-2 en það dugði skammt því Fjölnismenn komu sterkir til baka og komu stöðunni í 11-12 þar sem Róbert Sigurðsson var duglegur að mata liðsfélaga sína. Leikurinn hélst þó í jafnvægi og jafnt var á flestum tölum en augljóst var að spennustigið var hátt hjá leikmönnum og leikurinn hraður eftir því. Fjölnismenn fóru illa að ráði sínu fyrir utan þriggja stiga línuna en galopin skot þeirra köstuðust ítrekað af hringnum. Blikar sótti hinsvegar meira inn í teig gestanna en Þorsteinn Gunnlaugsson var þar fyrirferðarmikill og setti til að mynda tvö ,,and1” í röð og kom heimamönnum í 27-22 áður en fyrsta leikhluta lauk.
 
Annar leikhluti byrjaði líkt og þeim fyrsta lauk, Grafarvogspiltar sáu sér ekki fært um að hitta úr opnum þristum á meðan Þorsteinn lék á alls oddi inn í teig gestanna. Blikar komu stöðunni fljótlega í 31-24 en þá vaknaði Daron Lee Sims til lífsins, leiddi áhlaup sinna manna og minnkaði muninn niður í tvö stig, 35-33 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af hálfleiknum. Vörn Fjölnismanna batnaði einnig til muna en þeim tókst að halda heimamönnum frá teig sínum. Það virtist skila sér prýðilega þar sem Fjölnir leiddi með tveimur stigum í hálfleik 41-43.
 
Seinni hálfleikur byrjaði líflega þar sem Róbert braust fallega í gegnum vörn Blika en Pálmi Geir svaraði með sjaldséðum þristi fyrir heimamenn. Eftir þau ágætu tilþrif virtust hendur leikmanna svitna óeðlilega þar sem bæði lið hentu boltanum hvort til annars og útaf á víxl. Leikurinn hélst þó í járnum en um miðbik leikhlutans í stöðunni 49-48 braut Þorsteinn tvisvar af sér á klaufalegan hátt og þurfi að setjast á tréverkið með fjórar villur. Fjölnismenn náðu þá loksins takti í sóknarleik sínum og komust sex stigum yfir, 50-56 og Blikastúkan orðin heldur óróleg. Staðan eftir þriðja leikhluta var 52-56 en ljóst var að heimamenn þyrftu að hafa betri gætur á knettinum ætluðu þeir að vinna þennan leik.
 
Ekki er ólíklegt að taugaspennan hafi verið byrjuð að segja til sín í fjórða leikhluta en fyrstu stig leikhlutans komu ekki fyrr en eftir rúmlega 2 mínútna leik. Blikar byrjuðu leikhlutann betur og náðu forystu 58-56 og kveiktu í stemmningunni í húsinu. Bæði lið hófu þá að taka afar erfið skot sem skilaði fáum körfum. Heimamenn voru þó litlu-tánni á undan en staðan var 63-60 þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Andartökum síðar setti Halldór Halldórsson niður fáséðan þrist og kom heimamönnum í 68-62 en þess má geta að þrír leikmenn Blika voru komnir með fjórar villur á þessum tímapunkti. Fjölnismenn náðu þó ekki að nýta sér það og í stað þess að sækja inn að körfunni og reyna að fiska einhvern útaf héldu þeir áfram að hlaða múrsteinum fyrir utan þriggja stiga línuna. Heimamenn héldu áfram að sækja inn í teiginn sem skilaði sér í 8 stiga forskoti 72-64 þegar skammt var eftir. Gestirnir gáfust þó ekki upp og náðu að minnka muninn í fjögur stig 74-70 en nær komust þeir ekki. Blikar kláruðu leikinn á vítalínunni eftir örvæntingafullar tilraunir Fjölnismanna til að koma sér inn í leikinn á lokasekúndunum en loktölur voru 81-76. Breiðabliksmenn nældu sér þar með í oddaleik sem fer fram í Grafarvogi 26. mars.
 
 
Umfjöllun: ÞÖV
 
  
Fréttir
- Auglýsing -