Breiðablik vann öruggan sigur á FSu, 100-90, í Smáranum í kvöld eftir að staðan hafði verið, 62-44, heimamönnum í vil. Sigurinn var í raun aldrei í hættu þrátt fyrir að lokastaðan hafi aðeins verið 10 stig. Blikar nældu þar með í góðan sigur eftir tvo tapleiki í röð meðan Sunnlendingar eru væntanlega komnir niður á jörðina eftir afar góðan sigur á Val , 94-90, á mánudaginn.
Fín umgjörð var í Smáranum og vel mætt á áhorfendabekkina. FSu byrjaði leikinn vel og voru greinilega með sjálfstraustið í botni eftir Valsleikinn. Þeir náðu forystu 7-10 og virtust til alls líklegir. Blikar settu þá í gang pressuvörn sína sem sló gestina algerlega út af laginu og heimamenn snéru stöðunni úr, 7-10, í, 27-17, á rúmum fimm mínútum; 20-7 sprettur hjá Blikum!
Blikar fóru hamförum í 2. leikhluta og skoruðu 35 stig á tíu mínútum. Hinir geðþekku Sunnlendingar sáu vart til sólar eftir fyrri hálfleikinn þótt þeir hafi nú gert heil 44 stig í honum. Blikar gerðu þeim lífið leitt með pressuvörninni og virtist sem allur taktur hafi farið úr leik gestanna við hina "agresífu" vörn heimamanna.
Í upphafi 3. leikhluta náðu Blikar oft yfir 20 stiga forystu og héldu margir grænklæddir stuðningsmenn að nú væri stórsigur í uppsiglingu. En öðru nær; gestirnir neituðu að gefast upp allan leikinn og eiga hrós skilið fyrir að ná muninum niður í 10 stig. Það gæti aukinheldur skipt máli þegar reikningsskil deildarinnar verða gerð upp með hækkandi sól á næsta ári.
Atkvæðamestur Blika í kvöld var Tyrone Wayne með 37 stig, tók 10 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og stal knettinum 9 sinnum! Snorri Vignisson var með flottan leik, gerði 19 stig, þar af 17 af þeim í fyrri hálfleik, og reif niður 8 fráköst. Birkir var sínum gömlu félögum erfiður og setti 15 stig, Egill negldi 10 stig í seinni hálfleik og Sveinbjörn hirti 13 fráköst.
Hjá gestunum var Terrence Motley með 30 stig, tók 13 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Næstur var Ari Gylfason með 14 stig en aðeins tveir leikmenn hjá FSu náðu að koma sér í tveggja stafa tölu í stigaskoruninni.
Næsti leikur Blika er gegn Hamri í Hveragerði meðan FSu fær Fjölni í heimsókn.
Tvær hörkurimmur framundan á Suðurlandsundirlendinu sem öngvin má missa af!
Umfjöllun / Gylfi Gröndal
Mynd / Bára Dröfn



