spot_img
HomeFréttirBarátta Jóns nægði ekki Roma

Barátta Jóns nægði ekki Roma

7:00

{mosimage}

Eins og við sögðum frá í vikunni voru þeir Sigurður Elvar á Morgunblaðinu og Óskar Ófeigur á Fréttablaðinu staddir í Róm í byrjun vikunnar og fylgdust með leikjum 3 og 4 í einvígi Lottomatica Roma og Montepaschi Siena. Auk þess sem þeir áttu spjall við Jón Arnór Stefánsson báðir. Við munum nú birta það sem þeir skrifuðu fyrir þá sem ekki komust yfir Morgunblaðið og Fréttablaðið í vikunni.

Við byrjum á Morgunblaðinu á mánudaginn, 9. júní. Sigurður Elvar er að segja frá leik þrjú sem Siena vann.

„OG númer 11 er Jón Stefánsson,“ sagði kynnirinn í PalaLottomatica höllinni í gær þegar íslenski landsliðsbakvörðurinnskokkaði inn á. Allt varð vitlaust hjá tæplega 11 þúsund áhorfendum. Glæsileg umgjörð á heimavelli dugði hins vegar ekki Lottomatica Roma gegn ítölsku meisturunum frá Siena sem geta með sigri í fjórða leiknum á þriðjudag í Róm varið Ítalíumeistaratitilinn. Siena vann fyrstu tvo leikina á heimavelli og eftir 80:72 tap Rómverja í gær er lítil von um að liðið nái að koma til baka og vinna fjóra leiki í röð.

Jón Arnór var í byrjunarliði Roma og stóð sig vel á þeim 24 mínútum sem hann lék. Jón skoraði 8 stig, þar af tvær þriggja stiga körfur og hann tók að auki þrjú fráköst. Það er óhætt að segja að stemningin í Róm hafi komið mér á óvart. Ekkert „defence“-klapp-klapp, NBA-kjaftæði. Jú, kannski þegar líða fór á leikinn og útlit fyrir að Róma myndi ekki ná að sigra. Sjóðheitir stuðningsmenn beggja liða sem sungu og klöppuðu eins og þeir fengju borgað fyrir það. Og það var ekki hlýtt á milli stuðningsmanna Roma og Siena. Einu sætin sem voru tóm í húsinu voru hjá stuðningsmönnum Siena sem höfðu ekki notað „kvótann.“

Glerveggir í stað vírneta
Glerveggir fyrir aftan varamannabekkinn. Af hverju ætli það sé? „Það er ekki þörf á þessu hér í Róm en á minni stöðunum úti á landi er þörf á slíku. Í Siena erum við í svona fótboltavaramannaskýli. Algjör gryfja og við fáum yfir okkur allt sem er lauslegt á svæðinu,“ sagði Jón Arnór. Það er ekki vírnet fyrir áhorfendum líkt og á mörgum knattspyrnuvöllum á Ítalíu. Svona næstum því. Jón Arnór var í byrjunarliðinu og þrátt fyrir að hafa ekki tekið skot á fyrstu 5 mínútum leiksins var hann að gera aðra hluti sem voru til gagns fyrir liðið. Hann lék frábæra vörn gegn skotbakvörðum Siena, sem eru allir ágætir í körfubolta, eiginlega bara mjög góðir.

Láttu Jón Arnór spila meira
Repesa Jasmin, þjálfari Lottomatica Roma, var líflegur á hliðarlínunni. Króatinn virtist hins  vegar ekki vita hvaða breytingar hann átti að gera á leik liðsins eftir að leikur liðsins hrundi í þriðja leikhluta. Hann reyndi sitt lítið af hverju en ef ég mætti benda honum á eitt atriði. Láttu Jón Arnór spila meira en 24 mínútur og láttu leikstjórnandann gefa tuðruna af og til á íslenska landsliðsmanninn.

Jón Arnór svekktur og reiður
Jón Arnór var svekktur og pínulítið reiður í leikslok þegar hann ræddi við Morgunblaðið. Hann valdi orðin vel og vandlega. „Við byrjuðum frábærlega vel. Varnarleikurinn var magnaður og við létum boltann ganga í sókninni. Það er svona sem við þurfum að gera til þess að vinna Siena. Síðan fór bara allt í tómt rugl í sókninni og varnarleikurinn var ekki eins góður. Þeir vilja skora úr hraðaupphlaupum og við leyfðum þeim það,“ sagði Jón Arnór. Það var undarlegt að fylgjast með liðsmönnum Lottomatica Roma þegar slæmi kaflinn kom í þriðja leikhluta.  Leikstjórnandinn R. Ukic og Bandaríkjamaðurinn Hawkins fóru að hnakkrífast og lýsti það kannski andrúmsloftinu í herbúðum Roma. Jón Arnór segir að það sé „heitt“ í kolunum inni á vellinum. „Við látum vita ef það er eitthvað sem er ekki að virka. Það getur endað í rifrildi en þannig er þetta bara. Ég var ekkert alltof sáttur við hvernig andrúmsloftið á okkar heimavelli virkaði öfugt á okkur sem lið. Í upphafi leiks var þetta eins og það á að vera. Hávaði og læti en þegar við þurftum á stuðningi að halda þá var þetta eins og á NBA-leik. Frekar dauft.“

Tveggja metra menn eins og vindurinn
Þetta er í fyrsta sinn sem ég horfi á leik í ítölsku úrvalsdeildinni, fyrir utan í sjónvarpi að sjálfsögðu, og það er margt sem kom mér á óvart. Hraðinn og ákefðin er mun meiri en ég gerði mér grein fyrir. Tveggja metra háir leikmenn hlaupa um eins og „vindurinn“ og ef einhver heldur því fram að körfubolti sé leikur án snertingar þá er sá maður blindur.Hlutverk Jóns Arnórs í Lottomatica Roma er fyrst og fremst að leika góða vörn. Hann fær ekki mörg tækifæri til þess að skjóta og þarf því að nýta færin vel til þess að vera á meðal stigahæstu leikmanna liðsins. Jón var sá eini sem gekk á milli leikmanna Roma í síðari hálfleik og hvatti þá áfram. Svona „koma svo strákar og berjast.“ Aðrir leikmenn virtust ekki hafa sama áhuga og eldmóð á leiknum og íslenski strákurinn úr KR. Undarlegt. Fyrir þá sem fylgjast með Jóni Arnóri í gegnum  tölfræðiupplýsingar á Netinu er best að upplýsa þá um það að Jón Arnór gerir hluti sem koma hvergi fram í tölfræðinni. Hann lemur frá sér í vörninni, fiskar ruðning og „pirrar“  andstæðingana eins og hægt er. Barátta hans dugði ekki til að þessu sinni en Rómverjar fá eitt tækifæri á heimavelli til viðbótar á þriðjudag til þess að koma í veg fyrir að Siena verji titilinn á þeirra heimavelli.

Morgunblaðið

Mynd: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -