Það voru hressir Litháar sem mættu til leiks í fyrsta fjórðungs í undanúrsltiunum gegn áhugalausum Bandaríkjamönnum. Þeir stóðu í NBA leikmönnunum lengi vel og tókst að pirra þá svo þeir náðu engum almennilegum takti framan af. Staðan var 43-35 í hálfleik og eins og Bandaríkjamenn voru að spila áttu Litháar góðan séns á að halda sér inni í leiknum.
Seinni hálfleikur var allt önnur saga. Hraðlest Bandaríkjamanna hóstaði aðeins og hrökk svo í gang. Körfur duttu inn í öllum regnbogans litum þar til 96-68 sigur Bandaríkjamanna var staðreynd.
Þrátt fyrir alla þessa yfirburði fór lítið fyrir því að þetta bandaríska lið hefði gaman af því að spila þarna í undanúrslitum á stærsta sviði í alþjóðakörfubolta. Voru lengst af hræddir við að fara inn í teiginn og negldu skotum fyrir utan í staðinn. Þetta breyttist svo að sjálfsögðu í seinni hálfleik en andleysið var enn áberandi. Það voru einna helst Kenneth Faried og Mason Plumlee (sem fékk ekki mikið að spila) sem litu út fyrir að hafa gaman af því sem þeir voru að gera. Restin af liðinu pirraði sig yfir dómum og hvernig mótherjinn lét þá oft líta illa út.
Kyrie Irving leiddi Bandaríkjamenn með 18 stig en hjá Litháum voru bæði Jonas Valanciunas og Mindaugas Kuzminskas með 15 stig.
James Harden…. hvers vegna er reyndur þjálfari eins og Coach K að rétta fyrirliðabandið manni sem hefur ekki einn einasta áhuga á að berjast fyrir lið sitt í vörn og hvetja félaga sína áfram? Kuzminskas var farinn að líta út eins og stjörnuleikmaður á tímabili vegna þess að enginn var að dekka hann – bókstaflega.
Ég hélt að þegar stóru stjörnurnar hættu við þátttöku í þessu móti að minni stjörnur deildarinnar myndu taka fagnandi við keflinu og slátra þessu móti, en allt kom fyrir ekki. Ef þeir mæta ekki með hausinn á herðunum í úrslitunum gegn annað hvort Serbum eða Frökkum, verður þetta bandaríska landslið ein mestu vonbrigði í sögu atvinnumanna í FIBA körfubolta – þó að þeir vinni mótið. Þetta lið skortir alla persónutöfra og leikgleði og árangur þess byggist á yfirburðum einstaklinga yfir hina einstaklingana, en ekki hversu vel þjálfað og skipulagt það er sem heild.
Af hverju er t.d. þetta að gerast eftir undanúrslitaleik á heimsmeistaramóti?



