spot_img
HomeFréttirBaldur Beck: Vil fyrst og fremst fá enn eitt sígilt og skemmtilegt...

Baldur Beck: Vil fyrst og fremst fá enn eitt sígilt og skemmtilegt einvígi

10:06

{mosimage}

Aðfararnótt föstudags hefst úrslitaeinvígi Los Angeles Lakers og Boston Celtics um meistaratitilinn í NBA deildinni og þá er ekki úr vegi að ná í skottið á Baldri Beck sem veit nákvæmlega hvað klukkan slær í sportinu Vestanhafs. Baldur sér að Kobe Bryant muni reynast liðsmönnum Celtics erfiður ljár í þúfu en hann vill fyrst og fremst fá enn eitt sígilt og skemmtilegt einvígi millum þessara sigursælustu liða deildarinnar.

 

Þá líður senn að því að gömlu stórveldin Boston og Lakers mætist í úrslitum um NBA titilinn. Varst þú farinn að sjá þessa úrslitarimmu fyrir eða kom þetta þér á óvart? 
Það er ekki hægt að segja að það hafi komið mér mikið á óvart að Boston hafi klárað Austurdeildina ef tekið er mið af því hve vel liðið var að spila í vetur. Það kom mér eiginlega meira á óvart hvað liðið lenti í miklum vandræðum í fyrstu umferðunum, en Boston-menn eru vel að því komnir að vera komnir í úrslitin.  

Mér fannst Vesturdeildin mun opnari og þar komu nokkrir hlutir á óvart, þó einvígin hafi kannski farið eftir bókinni. New Orleans náði til að mynda lengra en ég átti von á. Ég tippaði á að það yrði San Antonio sem myndi vinna Vesturdeildina, en Lakers-liðið spilaði bara mjög vel og átti skilið að fara áfram. Án þess að taka nokkuð af Lakers, held ég að þetta úrslitaeinvígi í vestrinu hefði þróast öðru vísi ef Manu Ginobili hefði spilað eitthvað nálægt pari. Þá hefði þetta farið í sjö leiki. 

Hvaða einstaklingseinvígi verður áhugaverðast að sjá í úrslitunum? 
Eins og alltaf þegar lið mæta LA Lakers, verður mjög áhugavert að sjá hvernig Boston tekst að halda aftur af Kobe Bryant þegar hann fer að taka meira til sín. Boston er með nokkra stráka sem gætu gert honum lífið leitt. Ray Allen þarf auðvitað að hafa sig allan við til að hanga í honum, en svo fær James Posey væntanlega að reyna sig á móti honum – og þá eiga Celtics Tony Allen líka inni ef allt fer í vaskinn. Það er hinsvegar af sem áður var hjá Lakers, því Bryant er búinn að þroskast mikið og er orðinn meiri liðsspilari. Hann er farinn að treysta meðspilurum sínum betur, enda eru þeir full færir um að standa sig. Sóknarleikur beggja liða er nokkuð kerfisbundinn og óvíst að við fáum endilega einhverjar stigasprengingar frá einstaka mönnum, nema kannski Bryant. Það verður líka gaman að fylgjast með þeim Garnett og Pau Gasol, þó óvíst sé hvort við fáum að sjá þá kljást. Annars er það til dæmis ekkert tilhlökkunarefni fyrir lurk eins og Kendrick Perkins að þurfa að eiga við öskufljóta framlínu Lakers. 

Hvaða leikmaður er líklegastur til þess að fara hamförum í þessu einvígi?
Það er erfitt að veðja á móti Kobe Bryant í þessu sambandi. Hann hefur hljóðlega farið hamförum í þessari úrslitakeppni og þótt ótrúlegt megi virðast, finnst mér hann eiga helling inni. Ég lít á þessa úrslitakeppni sem sviðið hans að þessu sinni og ég sé Boston ekki finna svör við honum frekar en önnur lið í keppninni.  

Doc Rivers eða Phil Jackson?
Þetta er áhugaverð pæling, því að mínu mati er þetta einvígi það mikilvægasta í úrslitarimmunni. Boston og Lakers eru auðvitað frábær lið og áþekk að styrkleika, en munurinn á þjálfarateymunum gæti vel orðið það sem ræður úrslitum. Með fullri virðingu fyrir Doc Rivers, þjálfarateymi hans og árangrinum sem Boston hefur náð í vetur, hafa Phil Jackson og hans menn bæði meiri reynslu og þekkingu. Rivers hefur verið gagnrýndur nokkuð fyrir að hræra fram og til baka í hópnum hjá sér, en á meðanneru margir á því að Jackson sé að eiga sitt besta tímabil sem þjálfari síðan með Chicago Bulls árið 1994. 

Margir segja að nú mætist Euro Lakers og Bandaríkja Boston og þá er átt við leikstíl liðanna og þá staðreynd að margir leikmenn Lakers komi ekki frá USA. Hvor boltinn heldur þú að verði yfir þegar uppi er staðið? Evrópuskotnir Lakers eða Bandaríkja Boston?
Það er eðlilegt að menn tali um Evrópublæ á Lakers-liðinu, sérstaklega eftir að Pau Gasol kom til skjalanna, en ég sé Lakers fyrst og fremst sem frábært lið sem þjálfað er af Phil Jackson. Það er ómögulegt að segja til um hvort liðið hefur betur, en égtippa á Lakers-liðið. Bæði lið eru sterk, vel mönnuð og spila hörkuvörn, en ég sé tvo þætti ráða úrslitum í einvíginu. Lakers er með betri þjálfara og Lakers er með Kobe Bryant. 

Hafi eitthvert lið verið sannfærandi í þessari úrslitakeppni, er það Lakers-liðið. Boston lenti í bullandi vandræðum með lið sem það átti að rúlla yfir í fyrstu umferðog ef maður teiknar það þannig upp að Boston hafi unnið Atlanta 4-3 á meðan Lakersvann San Antonio 4-1, lítur það ekkert sérstaklega vel út á pappírunum. Þessir "pappírar" skipta auðvitað engu máli þegar í úrslitin er komið, en ég sé Boston bara ekki vinna þetta – jafnvel þó liðið sé með heimavöllinn. 

Boston er ekki með leikmann eins og Bryant sem getur klárað hvaða leik sem er þegar honum sýnist og ég hef grun um að Jackson eigi eftir að taka Rivers dálítið í kennslustund í þjálfun í úrslitunum. Ég skal hinsvegar éta þessar yfirlýsingar allar hrátt ofan í mig ef Boston verður meistari – ég vil fyrst og fremst fá enn eitt sígilt og skemmtilegt einvígi milli þessara risa. 

Hvernig hafa viðtökurnar verið á NBA blogginu í vetur? Verður ekki allt á fullu þar meðan lokaúrslitin standa yfir?
Þetta blogg er búið að vera mikið ævintýri. Ég tók þá ákvörðun í gríni að byrja á þessu rétt fyrir fyrsta leik í haust og þá ekki síst til að fólk gæti fylgst aðeins með því hvaða leiki væri hægt að sjá beint í sjónvarpi. Ég á frekar erfitt með að hemja mig þegar kemur að því að skrifa um NBA og því hefur þetta orðið aðeins meira en ég reiknaði með.  

Það hefur líka eflt mig mikið að sjá hversu vel hefur verið tekið í þetta. Traffíkin á síðunni er margfalt meiri en ég gerði mér í hugarlund og svo hef ég verið að fá tölvupósta frá fólki um allt land sem hefur verið að byrja að fylgjast með NBA aftur eftir nokkurt hlé. Mér þykir mjög vænt um það, því þetta er nú einu sinni besta skemmtun jarðar. Það verður mikið um að vera þarna á blogginu á meðan úrslitin standa yfir og umræðurnar eru alltaf mjög líflegar. Þarna er þó nokkuð af mönnum og konum sem leggja alltaf sitt til málanna. Þetta er búin að vera rosaleg törn síðustu tvær vikur eða svo og lítið um svefn, en það er fyllilega þess virði. 

Smellið hér til að nálgast NBA bloggið á Vísi 

Leiktímar í finals (með ólíklegum fyrirvara um breytingar): 

fim.  5. júní, Boston-Lakers 1

 

Sun.  8. júní, Boston-Lakers 2

 

þri. 10. júní, Lakers-Boston 3

 

fim. 12. júní, Lakers-Boston 4

 

sun. 15. júní, Lakers-Boston 5*

 

þri. 17. júní, Boston-Lakers 6*

 

fim. 19. júní, Boston-Lakers 7*

 *- ef með þarf Allir leikir hefjast klukkan 01:00

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -