Baldur Beck, ritstjóri NBA Ísland og NBA lýsandi hjá Stöð 2 Sport, var einn af þeim lánsömu sem fylgdust með spennuviðureign KR og Snæfells í Poweradebikarnum síðastliðinn mánudag. Karfan.is tók púlsinn á Baldri og fékk hann til að rýna í slag kvöldsins þegar röndóttir og rauðir mætast í Iceland Express deildinni.
,,Það er hætt við því að þeir sem voru svo heppnir að sjá bikarslag liðanna á dögunum láti sig ekki vanta í DHL höllina í kvöld ef veður leyfir. Bikarleikurinn var einn besti leikur vetrarins til þessa og vonandi verður þessi á svipuðum nótum,“ sagði Baldur sem orðið hefur fyrir vonbrigðum með Hólmara það sem af er.
,,Snæfell þarf að fara að girða sig í brók ef liðið ætlar að ná heimavellinum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og veitir því ekki af sigri. Ég hef orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með Snæfell í vetur, því að mínu mati á liðið heima á topp fimm í deildinni. Hólmar fara kannski ekkert á taugum yfir því þó þeir verði ekki með heimavallarrétt í vor, en mér finnst liðið eiga inni og geta betur. Ingi á eftir að lemja þetta saman fyrir vorið, ekki spurning,“ sagði Baldur og býst við að KR verði illt viðureignar ef áfram heldur sem horfir.
,,Það er ekki auðvelt að kortleggja KR liðið um þessar mundir enda hafa orðið gríðarlegar breytingar á leikmannahópnum. Við fyrstu sýn er ég ákaflega hrifinn af þessum leikmönnum sem þeir hafa fengið og held að ef þetta dæmi gengur upp verði KR afar erfiður andstæðingur þegar vorar.
Joshua Brown sýndi og sannaði í síðasta leik að hann er óstöðvandi skorari, stóri maðurinn var flottur í teignum og þá sýnist mér Dejan vera skyttan sem KR hefur vantað í vetur. Það er snemmt að ætla þessu púsli að ganga upp hjá KR, en það lofar góðu,“ sagði Baldur en það er þó galli á gjöf Njarðar að hans mati.
,,Það eina sem er neikvætt við þetta er að nýju mennirnir hirða auðvitað mínútur af piltunum sem fyrir voru og nú er svo komið að breiddin er orðin of mikil í KR. Það er leiðinlegt að sjá flotta stráka eins og Kristófer Acox sitja í gallabuxum á bekknum og maður hefur heyrt óánægjuraddir vegna þessa, en við verðum að muna að við erum að tala um KR hérna.“
Baldur eins og svo margir veit þó vel hver stefnan er í vesturbænum og hún er sjaldnast neitt leyndarmál:
,,Stefnan hjá KR er alltaf að vinna titla og því er ljóst að menn verða að vera klárir ef þeir ætla að fá mínútur. Það hefur Martin Hermannson til dæmis gert og algjör sómi af því að sjá hann vaxa og dafna með liðinu. KR var ekki að fara að landa titlinum með þann mannskap sem það hafði fyrr í vetur og því var ákveðið að bæta í. Svona er þetta bara í vesturbænum og ekkert við það að athuga að mínu mati.“
Mynd/ NBA Ísland: Ritstjórinn og lýsandinn Baldur Beck lætur sig ekki vanta á Narfeyrarstofu þegar hann er í Stykkishólmi.