spot_img
HomeFréttirBaldur á ný með KR

Baldur á ný með KR

14:00 

{mosimage}

 

Nokkra athygli vakti í gær að hinn stóri og stæðilegi Baldur Ólafsson var kominn í búning hjá KR en hann hefur átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin ár en annað veifið hefur sést til kappans og þá aðallega í leikjum hjá KR B í 2. deildinni. Baldur lék sinn fyrsta úrvalsdeildarleik á þessari leiktíð í gær þegar Njarðvík lagði KR 99-78 í Ljónagryfjunni í fyrsta úrslitaleik liðanna.

 

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, sagði í samtali við vefsíðu KR, www.kr.is/karfa að sést hafi eftir síðari deilarleik Njarðvíkur og KR í vetur að þegar miðherjarnir Sola og Fannar lenda í villuvandræðum væri gott að hafa mann eins og Baldur til taks á bekknum, þriðja stóra manninn.

 

Baldur er 28 ára gamall miðherji og er nú stærsti leikmaður KR-inga rúmir tveir metarar að hæð en Baldur á 70 úrvalsdeildarleiki að baki með KR og hefur alls gert í þeim 514 stig. Baldur kom sterkur inn hjá KR í gær og hafði góðar gætur á Igor Beljanski í Njarðvíkurliðinu og í sókninni átti hann eftirminnilega troðslu þegar hann tróð boltanum af alefli yfir Beljanski og kveikti vel í sínum mönnum sem og öllum KR-ingum í stúkunni. Fannar Ólafsson lenti í villuvandræðum í gær og þá var gott fyrir KR að hafa Baldur á bekknum og er vægt til orða tekið þegar sagt er að baráttan í teignum í þessu úrslitaeinvígi liðanna sé í stærri kantinum.

 

Njarðvíkingar hafa þá Friðrik Stefánsson, Igor Beljanski og Egil Jónsson í teignum en hjá KR finnum við þá Fannar Ólafsson, Jeremiah Sola og Baldur Ólafsson. Njarðvíkingar höfðu vinninginn í teignum í gær án nokkurs vafa en þeir Sola og Fannar gerðu aðeins 16 stig samanlagt, Sola 10 og Fannar 6, og því var gott fyrir Vesturbæjarveldið að geta telft fram Baldri sem stóð sig með mikilli prýði og sýndist bara í fínu formi miðað við að hann væri ekki í neinni leikæfingu miðað við aðra leikmenn sem stigu fram á parketið í gærkvöldi. Baldur gerði sex stig á sjö mínútum í gær, tók 3 fráköst og varði eitt skot.

 

Baráttan hjá öðrum leikmönnum liðanna er ekki síðri, glíma Jeb Ivey og Tyson Pattersons var virkilega skemmtileg í gær þar sem báðir leikmenn stóðu sig feiknavel. Þá verður einnig forvitnilegt að fylgjast með þeim Jóhanni Árna og Brynjari Björnssyni takast á en liðin eru bæði vel mönnuð og valinn maður í hverju rúmi.

 

Næsti leikur liðanna fer fram á fimmtudagskvöld og hefst hann kl. 20:00 í DHL-Höllinni í Vesturbænum í Reykjavík.

 

www.vf.is  

Mynd: Þorgils Jónsson – [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -