spot_img
HomeFréttirBakverðir sem hata konur

Bakverðir sem hata konur

Á fimmtudagskvöldið voru Los Angeles Clippers í heimsókn hjá Cleveland Cavaliers. Leikurinn hafði ekki spilast alveg eins og Clippers vildu, lentu 30 stigum undir og útlitið svart á tímabili. Í stöðunni 45-70 snemma í þriðja hluta misstu Cavaliers boltann út af og Chris Paul vildi boltann í leik strax til að hefja hraða upphlaup. Lauren Holtkamp, nýliði í dómarasveit NBA deildarinnar vildi hins vegar fá boltann áður en Clippers settu boltann í leik og stöðvaði leikinn. Paul var ósáttur og uppskar tæknivillu fyrir vikið.
 
 
Chris Paul lét ekki þar við sitja heldur gagnrýndi dómarann eftir leikinn við blaðamenn. Hann lauk gagnrýni sinni með þessum orðum: “kannski er þetta ekki fyrir hana”. Orð sem munu eflaust elta hann í framtíðinni líkt og athugasemdir Tim Hardaway í garð samkynhneigðra hafa elt hann alla tíð síðan hann lét þau út úr sér. Margir hafa túlkað orð hans sem fyrirlitningu í garð kvenna og að Holtkamp eigi bara heima við eldavélina eins og aðrar konur.
 
Paul hélt því fram að hann væri að tala um hana sem manneskju og dómara en ekki sem konu. Það skiptir í raun ekki máli því orðin eru komin á prent og í loftið. Fólk mun dæma þau hvernig sem því sýnist, sama hvað Paul segir eftir á.
 
Chris Paul þarf að átta sig á því að við lifum á tímum pólitísks rétttrúnaðar og fólk þarf að gæta orða sinna. Orðum fylgir ábyrgð og sérstaklega fólki eins og Chris Paul sem er vafalítið einn af 10 bestu og vinsælustu leikmönnum deildarinnar, óháð stöðu. Hefði hann bara sleppt því að enda viðtalið með þessum orðum væri skítastormurinn ekki svona mikill.
 
Ef við skoðum atvikið í myndbandinu hér að ofan þá sjáum við að Holtkamp er í fullum rétti að heimta boltann og stöðva sókn Clippers. Þegar lið missir boltann út af á dómari að snerta boltann áður en sókn hefst. Það gildir hins vegar ekki þegar karfa er skoruð.
 
Hvort tæknivillan hafi átt rétt á sér er álitamál. NBA deildin er með zero-tolerance reglu um nöldur leikmanna og hafa dómarar því fullan rétt á að dæma tæknivillur á öll mótmæli. Holtkamp er nýliði í deildinni og þarf að sýna leikmönnum að honum muni ekki láta valta yfir sig, og það hefur ekkert með það að gera að hún sé kona. 
 
Paul fullyrti að mótmæli hans hafi verið yfirveguð og ekki dónaleg en það eru aðeins orð hans gegn hennar – en Holtkamp hefur ekki tjáð sig um atvikið. 
 
Upp hefur samt komið mjög sérkennileg staða milli fylkinga leikmanna og dómara. Formaður samtaka NBA leikmanna, sem er kona, segir allar fullyrðingar um að ummæli Paul séu byggð á vanvirðingu í garð kvenna séu út í hött. Samtök NBA dómara standa fast með sínum liðsmanni og segja viðbrögð Holtkamp í fullum rétti – og benda á að “hún eigi heima í deildinni”.
 

 

 
Við fáum aldrei að vita hvort Paul hafi eitthvað á móti kvenfólki eða kvenfólki í dómgæslu í NBA deildinni. Við vitum hins vegar að hann er nú kominn í hakkavél pólitísks rétttrúnaðar í bandarískum fjölmiðlum – þaðan sem enginn kemst ólaskaður án innilegrar afsökunarbeiðnar til hlutaðeigandi.
 
Við sjáum til hvað gerist.
Fréttir
- Auglýsing -